Eystrahorn 1. tbl. 2014

Page 1

Eystrahorn 1. tbl. 32. árgangur

Fimmtudagur 9. janúar 2014

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Heilbrigðisþjónusta á Hornafirði Nú er að hefjast nýtt ár, árið 2014 og við þau tímamót finnst mér við hæfi að minnast þess síðasta í nokkrum orðum. Það er margt sem hefur gerst á árinu sem er það fyrsta í starfi mínu sem framkvæmdastjóri HSSA. Það sem stendur hæst er undirritun nýs þjónustusamnings sveitarfélagsins við ríkið um rekstur heilbrigðisþjónustu á Hornafirði. Síðasti samningur rann út árið 2007 og ekki hafði tekist að semja um nýjan samning fyrr en í byrjun árs 2014. Við allar samningagerðir verða hagsmunir beggja aðila að komast að og aðrar að víkja og svo má segja um okkar hlut. Við undirritun samningsins breyttust greiðslur til okkar vegna hjúkrunarrýma og fáum við nú greitt fyrir 24 hjúkrunarrými í stað 26 áður og miðast greiðslur við nýtingu rýmanna. Að öðru leyti breyttust forsendur samningsins lítið. Það hefur lengi verið til umræðu hvort samningurinn sé að gagnast okkur eða hvort hann sé baggi á samfélaginu og sitt sýnist sjálfsagt hverjum. Mér finnast kostir samningsins vera ótvíræðir, með því að sveitarfélagið sjái um rekstur heilbrigðisstofnunarinnar er hægt að samnýta starfsfólk á bæjarskrifstofum, auka samfellu í þjónustunni og samstarf við aðrar stofnanir. Yfirbygging heilbrigðisstofnunarinnar er mjög lítil miðað við á öðrum heilbrigðisstofnunum og þannig er hægt að nýta fjármuni betur í þágu starfseminnar. Rekstur í heilbrigðisþjónustu er erfiður hér sem annars staðar og erfitt er að búa við þær aðstæður að ríkisvaldið getur leyft sér að breyta rekstaráformum í einu vetfangi. Slíkar aðstæður mynduðust við áform ríkisstjórnarinnar um sameiningu heilbrigðisstofnana en rúmri viku fyrir áramót vissum við ekki hvort við yrðum Heilbrigðisstofnun Suðausturlands eða Heilbrigðisstofnun Suðurlands nú 1. janúar 2014. Sem betur fer voru sameiningaráformum frestað enda höfum við stjórnendur ekki verið boðuð á einn einasta fund um sameiningu heilbrigðisstofnana. Samráðið hefur ekki verið til staðar. Varðandi þýðingu þess að sameinast eða ekki þá hefur það í för með sér töluverða óvissu. Við höfum þó þjónustusamning við ríkið en samningurinn gildir til ársins 2016 og munum við starfa samkvæmt honum þann tíma og fá greitt samkvæmt því en við vitum ekki hvað gerist árið 2016. Óvissa sem þessi hefur ekki góð áhrif á starfsfólk og íbúa sveitarfélagsins alls og því er hvimleitt að keyra fram breytingar sem þessar án nokkurs samráðs við heimafólk. Starfsemi heilbrigðisstofnunarinnar er í föstum skorðum. Við búum yfir góðu starfsfólki sem er tilbúið í hvað sem er. Við reynum að lyfta okkur upp til að halda góðum starfsanda ásamt því að hér er starfað samkvæmt markmiðum um að viðhalda heilbrigðum lífsháttum og góðri heilsu. Læknamönnun hefur lengi verið erfið hér á Hornafirði sem og annarsstaðar á landsbyggðinni en nú er meiri stöðugleiki í þeim málum. Elín Freyja læknir kemur úr fæðingarorlofi 1. apríl en Ásthildur Erlingsdóttir hefur leyst hana af. Heilbrigðisstofnunin skrifaði undir samning við fyrirtækið Heilsuvernd um læknamönnun eins læknis nú í haust. Samningurinn felur í sér að hingað koma 4 læknar sem eru 1-2 vikur í senn. Allt eru þetta reyndir læknar og flestir með sérfræðimenntun á sviði heimilislækninga eða slysa- og bráðlækninga. Við höfum verið með kynningu á lækni vikunnar reglulega á heimasíðu HSSA og hvet ég ykkur til að fylgjast með síðunni www.hssa.is til að fylgjast með. Við vonumst að sjálfsögðu til þess að geta ráðið lækni með sérfræðimenntun í heimilislækningum með búsetu á Höfn en á meðan það tekst ekki er þetta ágæt lausn. Við urðum að sætta okkur við það að Áslaug ljósmóðir ákvað að flytja frá Hornafirði á árinu 2013. Auglýst hefur verið eftir ljósmóður í tvígang en það hefur ekki skilað tilætluðum árangri fram að þessu.

Gleðilegt nýtt ár Ljósmynd: Runólfur Hauksson

Áslaug heldur því áfram að sinna ófrískum konum en hún kemur 3svar í mánuði og sinnir mæðravernd. Ungbarnavernd hefur færst yfir á aðra hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðinni. Fæðingar hafa ekki verið mögulegar frá því Áslaug hætti og vitum við að það hefur í för með sér töluvert rask fyrir fjölskyldur. Við stöndum í þeirri von að einhver ljósmóðir sjái tækifæri í því að flytja út á land og sinna þessari þjónustu fljótlega en það veltur að sjálfsögðu á því að atvinnuástand sé gott því oft fylgja eiginmenn sem þurfa að fá góða vinnu sömuleiðis. Næsta ár verður örugglega viðburðaríkt og ánægjulegt líkt og fyrri ár. Við vonumst til þess að starfsfólk fái kjarabót með nýjum kjarasamningum en Heilbrigðisstofnun Suðausturlands þurfti að bíta í það súra epli að fá ekki að njóta jafnréttisáætlunar ríkisstjórnar um bætt starfskjör umönnunarstétta í heilbrigðisþjónustu þar sem við erum rekin af sveitarfélaginu. Starfsfólk er mjög ósátt enda óskiljanlegt að starfsfólk á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Austurlands, svo dæmi sé tekið, sem starfa við sömu aðstæður fái kjarabót en ekki starfsfólk hjá HSSA. Við vonum að stéttarfélögin nái að berjast fyrir leiðréttingu þessara stétta. Einnig er það helsta baráttumál okkar og bæjarstjórnar að það fáist fjármagn til að hefja viðbyggingu við hjúkrunarheimilið en hvergi annars staðar eru jafn mörg tvíbýli og hér hlutfallslega og enginn íbúi hefur sér salerni. Slíkur aðbúnaður á ekki að líðast á árinu 2014! Ég vil nota tækifærið og óska samstarfsfólki mínu og íbúum sveitarfélagsins gleðilegs árs og vona að árið verði viðburðarríkt, skemmtilegt og að sem flestir búi við góða heilsu. Matthildur Ásmundardóttir, framkvæmdastjóri HSSA


2

Fimmtudagur 9. janúar 2014

Kaþólska kirkjan Laugardagur 11. janúar Vinsamlega hafið samband við prest varðandi húsblessanir (koleda). Sunnudagur, 12. janúar Skírnar Drottins stórhátíð Börnin hittast kl. 11:00. Messa byrjar kl. 12:00 Eftir messu er öllum gestum boðið að þiggja kaffiveitingar Þið eruð öll hjartanlega velkomin! Óska öllum gleðilegs nýárs. David Tancer

„Þú Getur“ fyrirlestraröð Næsti fyrirlestur fjallar um Þunglyndi. Fyrirlesari: Dr. Sigurður Páll Pálsson, geðlæknir Fyrirlestur verður í Nýheimum í fjarfundi á mánudaginn kl. 17:00 - 18:30 Einnig hægt að horfa á netinu.Slóðin er: www.endurmenntun.is/Namskeid/Fyrirthig/Skoda/71H13

ÚTSALA - ÚTSALA 30% afsláttur af fatnaði 20% afsláttur af handavinnu og völdu garni 10% afsláttur af skóm

Komið og gerið góð kaup

Verslun Dóru ÚTSALAN ER BYRJUÐ Verið velkomin

Eystrahorn Vesturbraut 25 • Sími: 862-0249 Útgefandi:............ HornafjarðarMANNI Ritstjóri og ábyrgðarmaður:.. Albert Eymundsson Netfang: .............. albert@eystrahorn.is Prófarkalestur..... Guðlaug Hestnes Ljósmyndir:......... Maríus Sævarsson Umbrot: .............. Heiðar Sigurðsson Prentun: .............. Litlaprent ISSN 1670-4126

Eystrahorn

Fatasöfnun er eitt stærsta umhverfisverkefni Rauða krossins Rauði krossinn á Hornafirði hefur tekið í notkun fatasöfnunargám og er hann staðsettur á N1 planinu. Fatasöfnun er stærsta umhverfisverkefni Rauða krossins. Deildir Rauða krossins um allt land safna notuðum fatnaði sem allur nýtist til hjálparstarfs. Um 450 sjálfboðaliðar vinna að fataverkefni Rauða krossins. Það er margþætt, sumir afgreiða í Rauðakrossbúðunum sem er sífellt að fjölga og er að finna víða um landið, aðrir vinna að söfnun og flokkun klæða, og stórir hópar sjálfboðaliða um allt land taka þátt í verkefninu föt sem framlag, þar sem unnir eru staðlaðir ungbarnapakkar sem sendir eru til systrafélaga Rauða krossins í Malaví og Hvíta-Rússlandi. Fatasöfnun Rauða krossins er ekki einungis frábær endurvinnsla heldur leggur fólk félaginu lið með því að gefa fatnað og styrkir neyðaraðstoð bæði hér á landi og erlendis. En hvert fer fatnaðurinn? • Hann er seldur beint til útlanda og ágóðinn rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins. • Hann er flokkaður og gefinn á Íslandi. • Hann er flokkaður og gefinn erlendis. • Hann er flokkaður og seldur í Rauðakrossbúðunum um land allt. Ónýtur fatnaður er seldur út í endurvinnslu og er því mikilvægt að gefa þann fatnað líka. Stærstu samstarfsaðilar Rauða krossins eru Sorpa hf. og Eimskip/ Flytjandi. Á höfuðborgarsvæðinu er Rauði krossinn í samstarfi við Sorpu um söfnun á fatnaði og eru söfnunargámar á öllum endurvinnslustöðum Sorpu. Eimskip flytur fatagáma félagsins milli landshluta og til útlanda á góðum kjörum. Um er að ræða mikilvægan styrk til fatasöfnunarverkefnis Rauða krossins. Hornfirðingar hafa verið duglegir að gefa fatnað í Rauða krossinn og undanfarin ár hefur verið tekið á móti fatnaði í porti Áhaldahúss, Rauðakrossbúðinni og nú það nýjasta í fatasöfnunargáminn. Rauði krossinn á Hornafirði óskar öllum Hornfirðingum farsældar á nýju ári með þakklæti fyrir árið sem er að líða og sérstakar þakkir til starfsfólks Áhaldahús og Eimskips/ Flytjanda.

Æskilegt er að börn séu ekki lengur en tvo tíma á dag í tölvuleikjum. Eru reglur á þínu heimili um tölvunotkun? Aðgerðahópurinn

Bifreiðaskoðun á Höfn 20., 21. og 22. janúar Íbúð óskast Óskum eftir 2ja herbergja íbúð í langtímaleigu frá 1. maí. Erum reglusöm og reyklaus. Sími 822-5697.

Tímapantanir í síma 570 9090 fyrir kl. 16:00 föstudaginn 17. janúar. Næsta skoðun er 17., 18. og 19. febrúar. Þegar vel er skoðað


Eystrahorn

Fimmtudagur 9. janúar 2014

3

Áramótapistill bæjarstjóra Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka, segir í sálminum eftir Valdimar Briem. Sálminn orti hann 1886 en í honum má finna tilvitnun sem vel á við í dag „Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá, það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.“ Tíminn hefur líka liðið hratt á þeim tíma og dægurmál hvers tíma staðið uppúr en það sem var hefur horfið í gleymskunnar sjá. Áramót eru góður tími til að líta til baka, horfa yfir farinn veg og skoða hvað fallið hefur í gleymskunnar sjá. Er ég horfi til baka á árið 2013 og rifja upp hvað hefur verið uppá teningnum á vettvangi sveitarfélagsins þá er margs að minnast. Langur pistill um það sem var efst á baugi er einn valkosturinn en ég kýs að draga saman þá þætti sem mér finnst einkenna árið og deila því með ykkur kæru íbúar.

Virkir og öflugir íbúar sveitarfélagsins Á líðandi ári voru haldnar þó nokkrar ráðstefnur og íbúafundir. Fjallað var m.a. um orkumál, ferðaþjónustu, hagsmuni íbúa í dreifbýli, fjarskipti, forvarnir og heilsueflingu, hafnarmál, fjármál og umhverfismál. Án undantekninga var vel mætt á þessar ráðstefnur og fundi. Íbúar hafa verið virkið þátttakendur í þessum verkefnum sem er frábært! En það sem stendur uppúr er frábær þátttaka íbúa í Unglingalandsmóti UMFÍ sem USÚ hafði veg og vanda af um verslunarmannahelgina. Mótið tókst mjög vel og er það ekki síst að þakka góðum undirbúningi landsmótsstjórnar og þeim mikla fjölda sjálfboðaliða sem lögðu hönd á plóg. Íbúar allir tóku vel á móti gestunum þó vindurinn hefði aðeins mátt hemja sig!

Ferðamaðurinn í öndvegi Ferðaþjónustan hefur verið að vaxa jafnt og þétt. Mikill áhugi er á uppbyggingu í ferðaþjónustu í sveitarfélaginu öllu. Gamlabúð sómir sér vel á Heppunni og upplýsingamiðstöðin er vel nýtt. Svo vel að helst er skortur á bílastæðum og aðstöðu á hafnarsvæðinu yfir sumartímann. En það er verkefni sem býður okkar að leysa úr á næstu misserum. Vatnajökulsþjóðgarður leigir húsnæðið af sveitarfélaginu og er nú rekin þjóðgarðsmiðstöð þar allt árið og hefur þjóðgarðurinn bætt við sig stöðugildi hér á Höfn í tengslum við hana. Færst hefur í vöxt að íbúðarhúsnæði sé tekið til atvinnureksturs í ferðaþjónustu og sitt sýnist hverjum um það. En það er gott þegar atvinnurekstur blómstrar og kom það skýrt fram á ráðstefnu Ríkis Vatnajökuls – tilvist og tækifæri að horft er til þess skipulags sem er á ferðaþjónustunni hér í héraðinu og megum við vera stolt af því. En þessi vöxtur atvinnugreinarinnar hefur samfélagsleg áhrif, aukin eftirspurn er eftir starfsfólki yfir háannatímann og heilsársstöðugildum hefur einnig fjölgað. Hins vegar hefur þessi vöxtur ekki skilað sér eins vel út í verslun og þjónustu. Allavega er það í umræðunni að verslunarrekstur sé erfiður á árs grundvelli í sveitarfélaginu og er það áhyggjuefni.

Ný störf, ný tækifæri Á árinu var stofnuð Náttúrustofa Suðausturlands og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga opnuðu starfsstöð hér á Höfn. Þekkingarsetrið Nýheimar var stofnað í maí og Vöruhúsið miðstöð list- og verkgreina er í þróun. Breytingar verða á skipulagi framhaldsfræðslu nú um áramót þegar þjónusta Austurbrúar hættir en í staðinn koma inn stofnanirnar Háskólafélag Suðurlands og Fræðslunet Suðurlands. Hvernig þessi skil verða er ekki alveg komið á hreint en þjónusta við háskólanema á Hornafirði er tryggð. Undirritaður var nýr þjónustusamningur um rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands í byrjun ársins sem lengi

hefur staðið til. Búnaðarstefna sveitarfélagsins og Búnaðarsambands Austur-Skaftafellssýslu var samþykkt í nóvember sl. Í stefnunni er að finna ýmis áform sem styðja munu við byggð í dreifbýli. Stór partur í því eru fjarskiptamál í sveitum og hefur verið unnið ötullega að þeim á árinu í Suðursveit og Mýrum og mun þeim áfanga ljúka í byrjun árs 2014.

Framkvæmdir, nýtt vaxtarskeið Endurbótum á Heppuskóla lauk nú í haust og ný deild var tekin í notkun á Krakkakoti. Sveitarfélagið hefur verið í miklum framkvæmdum undanfarin ár en stefnan er núna á að draga aðeins úr þar sem einstaklingar og fyrirtæki í sveitarfélaginu eru í framkvæmdahug. Þær framkvæmdir sem eru á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins snúa að nauðsynlegu viðhaldi og lagfæringum auk þess sem stefnt er að fjárfestingu í Vöruhúsinu við Hafnarbraut þar sem verið er að byggja upp starf í list- og verkgreinum sem þjónar öllum skólastigum á staðnum auk áhugafólks og frumkvöðla í þeim greinum. Skipulagsmál hafa verið áberandi á árinu. Aðalskipulag sveitarfélagsins í heild hefur verið í endurskoðun um árabil en nú er tillaga að endurskoðuðu aðalskipulagi til ársins 2030 í auglýsingu og hvet ég íbúa til að kynna sér málið á vef sveitarfélagsins eða í ráðhúsi. Einnig hafa fjölmörg deiliskipulög verið unnin og fleiri í farvatninu. Þessi vinna er undanfari framkvæmda á þeim svæðum sem um er rætt og bendir það til þess að vöxtur sé framundan í sveitarfélaginu. Ferðaþjónustan er áberandi í þessum málum en einnig er verið að vinna jarðveg fyrir breytingar á hafnarsvæðinu sem gefur fyrirheit um vöxt í sjávarútvegi á staðnum.

Umhverfismál Mikið hefur verið lagt uppúr því sl. ár að huga að umhverfinu, fegra það og bæta. Einnig er sterk vitund fyrir því að huga að hvernig við verndum þau gæði sem við höfum fyrir næstu kynslóðir. Umhverfisstefna sveitarfélagsins var samþykkt á árinu, liður í henni er innleiðing 2ja tunnu sorpkerfis sem er komið í notkun í þéttbýli og stefnt að innleiðingu í dreifbýli á næsta ári. Einnig er sveitarfélagið í samstarfi við Landvernd varðandi umhverfismál. Sú vinna hófst í nóvember sl. með íbúafundi og er verið að vinna úr gögnum sem verða kynnt í framhaldinu. Markvisst hefur verið unnið að því að efla rafræna stjórnsýslu hjá sveitarfélaginu og hefur dregið mjög úr pappírsnotkun. Sem dæmi má nefna að allar nefndir og stjórnir hjá sveitarfélaginu nýta rafræna fundargátt fyrir vinnu sína sem sparar mikla prentun og pappírskostnað. Stefnt er að því að efla rafræna stjórnsýslu á næstu misserum.

Er gott að búa í Sveitarfélaginu Hornafirði? Þessari spurningu svarar hver og einn fyrir sig. En á Hornafirði er gott atvinnustig, lítið atvinnuleysi. Gjaldskrár fyrir þjónustu sveitarfélagsins eru lágar í samanburði við önnur sveitarfélög að sambærilegri stærð. Fjárhagsstaða er sterk þrátt fyrir miklar framkvæmdir og fjárhagsáætlun næstu ára sýnir að staðan er sterk. Íþrótta- og tómstundalíf á Hornafirði er mjög fjölbreytt og aðstaða góð. Hornfirðingar eiga ungt fólk sem skarar framúr í sínum íþróttagreinum. Náttúran setur sterkan svip á bæjarfélagið okkar og er stutt að fara til að njóta útivistar og hreyfingar. En gæði samfélagsins velta á okkur íbúunum, hvort við eru tilbúin til að vinna að góðu og öflugu samfélagi í sameiningu. Styðjum við hvort annað og leggjum okkar af mörkum með jákvæðni og bjartsýni að leiðarljósi.

Gleðilegt nýtt ár. Ásgerður K. Gylfadóttir bæjarstjóri

Rafhorn tekur við þjónustu og sölu fyrir Símann Rafhorn er nýr endursöluaðili Símans á Höfn í Hornafirði og Djúpavogi. Rafhorn hefur séð um vettvangsþjónustu og viðgerðir fyrir Símann en tekur nú einnig við að þjónusta viðskiptavini sem vilja skipta um eða breyta og bæta við þjónustu sína hjá Símanum. „Það leggst vel í okkur og á vel við það sem við erum að gera dags daglega,“ segir Friðrik Jónas Friðriksson, framkvæmdastjóri

Rafhorns, en fyrirtækið flytur brátt í nýtt húsnæði. „Við erum að skipta um húsnæði eftir rúman mánuð. Þá flytjum við niður á Álaugarveg; í gamla Hornabæjarhúsið. Þar verðum við með rafmagnsverkstæðið en einnig þjónustustöð. Þar munum við breyta, laga og bæta eftir óskum viðskiptavina Símans.“ Friðrik segir að þegar þangað verði komin megi búast við því að þjónustan

gangi hnökralaust fyrir sig. „En við höfum þegar hafið leik á þessum nýja vettvangi og fólk er farið að koma til okkar með þau verk sem þarf að leysa. Við stukkum út í djúpu og svömlum í henni þar til við komumst í nýtt í húsnæði. Þjónustan gæti verið skert fram að því, en við eru til staðar og alltaf hægt að ná í okkur.”


Frá Ferðafélaginu

Firðirnir fögru 3. áfangi Sunnudaginn 12. janúar 2014 Gengið frá Geithellnum að Melrakkanesi. Lagt af stað frá tjaldstæðinu á Höfn kl. 09:00 Frá Geithellum kl. 10:00 Verð 500 kr. og til bílstjóra 1000 - 1500 kr. Allir velkomnir, munið að taka með nesti og klæðast eftir veðri Allar frekari upplýsingar gefur Ragna í síma 662-5074.

Óskilaföt Frá og með 9. til 24. janúar munu óskilaföt úr sundlaug, íþróttahúsi og Bárunni vera í anddyri sundlaugar. Foreldrar og forráðamenn eru vinsamlegast beðnir um að fara yfir fatnaðinn. Sá fatnaður sem ekki kemst til skila verður afhentur í Rauða krossinn. Starfsfólk íþróttamiðstöðvar Hornafjarðar

Verður blótað í Bárunni í ár? Verður Öddi Tobba í aðalhlutverki? Sleppur Hjalti þetta árið? Verður þú kannski tekinn fyrir?

Takið 25. janúar frá! Leiðbeinandi í æskulýðsog tómstundastarfi

Starfsfólk óskast Heimaþjónustudeild Hornafjarðar auglýsir eftir starfsfólki í vaktavinnu. Starfið felur í sér að aðstoða fatlað fólk við athafnir daglegs lífs. Um er að ræða krefjandi en gefandi starf á skemmtilegum vinnustað. Starfshlutfall er samkomulagsatriði. Bæði karlar og konur eru hvött til að sækja um. Einnig vantar starfsfólk í liðveislu með fullorðnum. Laun eru samkvæmt kjarasamningum launanefndar Sveitarfélaga og Afls starfsgreinafélags. Umsóknareyðublöð má nálgast á hornafjordur.is/stjornsysla eða í afgreiðslu Ráðhúss. Umsóknir berist á bæjarskrifstofur eða rafrænt á maren@hornafjordur.is. Allar nánari upplýsingar um störfin veitir Maren Sveinbjörnsdóttir, forstöðumaður heimaþjónustudeildar í síma 4708000, 8644918 eða maren@hornafjordur.is.

Sveitarfélagið Hornafjörður auglýsir eftir starfsmanni í félagsmiðstöðina Þrykkjuna. Starfið felst í því að vinna að tómstundastarfi með ungmennum. Umsækjandi þarf hafa frumkvæði, skipulagshæfileika, búa yfir ákveðinni festu, vera lipur í mannlegum samskiptum og hafa hreint sakavottorð. Ábyrgðar- og starfssvið: • Er undirmaður tómstundafulltrúa • Skipuleggur starf félagsmiðstöðvarinnar Þrykkjunnar í samvinnu við Þrykkjuráð og tómstundafulltrúa. • Starfar með börnum og unglingum í félags- og tómstundastarfi. • Hefur samskipti við skóla og félagasamtök vegna félags- og tómstundastarfs. • Vinnur að forvörnum á breiðum grunni. Laun og starfskjör taka mið af samningum Launanefndar Sveitarfélaga og samningum viðkomandi stéttarfélaga. Umsóknarfrestur er til 24. janúar 2014. Skriflegar umsóknir ásamt ferilskrá, berist til Vilhjálms Magnússonar tómstundafulltrúa á netfangið; vilhjalmurm@hornafjordur.is sem jafnframt veitir frekari upplýsingar í síma 470 8475/862-0648.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.