Eystrahorn 1. tbl. 2014

Page 1

Eystrahorn 1. tbl. 32. árgangur

Fimmtudagur 9. janúar 2014

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Heilbrigðisþjónusta á Hornafirði Nú er að hefjast nýtt ár, árið 2014 og við þau tímamót finnst mér við hæfi að minnast þess síðasta í nokkrum orðum. Það er margt sem hefur gerst á árinu sem er það fyrsta í starfi mínu sem framkvæmdastjóri HSSA. Það sem stendur hæst er undirritun nýs þjónustusamnings sveitarfélagsins við ríkið um rekstur heilbrigðisþjónustu á Hornafirði. Síðasti samningur rann út árið 2007 og ekki hafði tekist að semja um nýjan samning fyrr en í byrjun árs 2014. Við allar samningagerðir verða hagsmunir beggja aðila að komast að og aðrar að víkja og svo má segja um okkar hlut. Við undirritun samningsins breyttust greiðslur til okkar vegna hjúkrunarrýma og fáum við nú greitt fyrir 24 hjúkrunarrými í stað 26 áður og miðast greiðslur við nýtingu rýmanna. Að öðru leyti breyttust forsendur samningsins lítið. Það hefur lengi verið til umræðu hvort samningurinn sé að gagnast okkur eða hvort hann sé baggi á samfélaginu og sitt sýnist sjálfsagt hverjum. Mér finnast kostir samningsins vera ótvíræðir, með því að sveitarfélagið sjái um rekstur heilbrigðisstofnunarinnar er hægt að samnýta starfsfólk á bæjarskrifstofum, auka samfellu í þjónustunni og samstarf við aðrar stofnanir. Yfirbygging heilbrigðisstofnunarinnar er mjög lítil miðað við á öðrum heilbrigðisstofnunum og þannig er hægt að nýta fjármuni betur í þágu starfseminnar. Rekstur í heilbrigðisþjónustu er erfiður hér sem annars staðar og erfitt er að búa við þær aðstæður að ríkisvaldið getur leyft sér að breyta rekstaráformum í einu vetfangi. Slíkar aðstæður mynduðust við áform ríkisstjórnarinnar um sameiningu heilbrigðisstofnana en rúmri viku fyrir áramót vissum við ekki hvort við yrðum Heilbrigðisstofnun Suðausturlands eða Heilbrigðisstofnun Suðurlands nú 1. janúar 2014. Sem betur fer voru sameiningaráformum frestað enda höfum við stjórnendur ekki verið boðuð á einn einasta fund um sameiningu heilbrigðisstofnana. Samráðið hefur ekki verið til staðar. Varðandi þýðingu þess að sameinast eða ekki þá hefur það í för með sér töluverða óvissu. Við höfum þó þjónustusamning við ríkið en samningurinn gildir til ársins 2016 og munum við starfa samkvæmt honum þann tíma og fá greitt samkvæmt því en við vitum ekki hvað gerist árið 2016. Óvissa sem þessi hefur ekki góð áhrif á starfsfólk og íbúa sveitarfélagsins alls og því er hvimleitt að keyra fram breytingar sem þessar án nokkurs samráðs við heimafólk. Starfsemi heilbrigðisstofnunarinnar er í föstum skorðum. Við búum yfir góðu starfsfólki sem er tilbúið í hvað sem er. Við reynum að lyfta okkur upp til að halda góðum starfsanda ásamt því að hér er starfað samkvæmt markmiðum um að viðhalda heilbrigðum lífsháttum og góðri heilsu. Læknamönnun hefur lengi verið erfið hér á Hornafirði sem og annarsstaðar á landsbyggðinni en nú er meiri stöðugleiki í þeim málum. Elín Freyja læknir kemur úr fæðingarorlofi 1. apríl en Ásthildur Erlingsdóttir hefur leyst hana af. Heilbrigðisstofnunin skrifaði undir samning við fyrirtækið Heilsuvernd um læknamönnun eins læknis nú í haust. Samningurinn felur í sér að hingað koma 4 læknar sem eru 1-2 vikur í senn. Allt eru þetta reyndir læknar og flestir með sérfræðimenntun á sviði heimilislækninga eða slysa- og bráðlækninga. Við höfum verið með kynningu á lækni vikunnar reglulega á heimasíðu HSSA og hvet ég ykkur til að fylgjast með síðunni www.hssa.is til að fylgjast með. Við vonumst að sjálfsögðu til þess að geta ráðið lækni með sérfræðimenntun í heimilislækningum með búsetu á Höfn en á meðan það tekst ekki er þetta ágæt lausn. Við urðum að sætta okkur við það að Áslaug ljósmóðir ákvað að flytja frá Hornafirði á árinu 2013. Auglýst hefur verið eftir ljósmóður í tvígang en það hefur ekki skilað tilætluðum árangri fram að þessu.

Gleðilegt nýtt ár Ljósmynd: Runólfur Hauksson

Áslaug heldur því áfram að sinna ófrískum konum en hún kemur 3svar í mánuði og sinnir mæðravernd. Ungbarnavernd hefur færst yfir á aðra hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðinni. Fæðingar hafa ekki verið mögulegar frá því Áslaug hætti og vitum við að það hefur í för með sér töluvert rask fyrir fjölskyldur. Við stöndum í þeirri von að einhver ljósmóðir sjái tækifæri í því að flytja út á land og sinna þessari þjónustu fljótlega en það veltur að sjálfsögðu á því að atvinnuástand sé gott því oft fylgja eiginmenn sem þurfa að fá góða vinnu sömuleiðis. Næsta ár verður örugglega viðburðaríkt og ánægjulegt líkt og fyrri ár. Við vonumst til þess að starfsfólk fái kjarabót með nýjum kjarasamningum en Heilbrigðisstofnun Suðausturlands þurfti að bíta í það súra epli að fá ekki að njóta jafnréttisáætlunar ríkisstjórnar um bætt starfskjör umönnunarstétta í heilbrigðisþjónustu þar sem við erum rekin af sveitarfélaginu. Starfsfólk er mjög ósátt enda óskiljanlegt að starfsfólk á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Austurlands, svo dæmi sé tekið, sem starfa við sömu aðstæður fái kjarabót en ekki starfsfólk hjá HSSA. Við vonum að stéttarfélögin nái að berjast fyrir leiðréttingu þessara stétta. Einnig er það helsta baráttumál okkar og bæjarstjórnar að það fáist fjármagn til að hefja viðbyggingu við hjúkrunarheimilið en hvergi annars staðar eru jafn mörg tvíbýli og hér hlutfallslega og enginn íbúi hefur sér salerni. Slíkur aðbúnaður á ekki að líðast á árinu 2014! Ég vil nota tækifærið og óska samstarfsfólki mínu og íbúum sveitarfélagsins gleðilegs árs og vona að árið verði viðburðarríkt, skemmtilegt og að sem flestir búi við góða heilsu. Matthildur Ásmundardóttir, framkvæmdastjóri HSSA


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.