Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 17. janúar 2013
2. tbl. 31. árgangur
Þjóðgarðarnir eru atvinnuskapandi Í lok október sl. hélt hópur sjö Íslendinga á austurströnd Bandaríkjanna. Erindið var að kynna sér skipulag og starfsemi í bandarískum þjóðgörðum og að sækja ráðstefnu um náttúru- og menningarmiðlun. Ferðin var kostuð af Samfélagssjóði Alcoa (Alcoa Foundation) og skipulögð af The American-Scandinavian Foundation, en sá samfélagssjóður hefur að markmiði að efla samskipti Norðurlandanna og Bandaríkjanna. Af sjömenningunum voru þrír starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs, þau Agnes Brá Birgisdóttir, þjóðgarðsvörður á austursvæði, Helga Árnadóttir, aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar á norðursvæði og Guðmundur Ögmundsson, aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar á suðursvæði. Einnig var með í för Rannveig Einarsdóttir, formaður Ferðafélags A-Skaftafellssýslu og sumarlandvörður á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Aðrir í ferðinni voru Einar Ásgeir Sæmundssen frá Þingvallaþjóðgarði, Helga Garðarsdóttir frá Ferðafélagi Íslands og Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir frá Náttúrustofu Norðausturlands. Fyrstu tvær vikurnar dvaldi hópurinn í Harpers Ferry í Vestur-Virginíu. Harpers Ferry er sögufrægur bær, að hluta til friðlýstur og í umsjá Þjóðgarðsstofnunar Bandaríkjanna. Þjóðgarðsstofnunin rekur kennslumiðstöð í bænum og þar sat hópurinn ítarlega fyrirlestra um ýmsar hliðar á rekstri þjóðgarða. Helstu umfjöllunarefni voru skipulag verndaðra svæða í Bandaríkjunum, innra starf Þjóðgarðsstofnunarinnar, samstarf þjóðgarða og frjálsra félagasamtaka, rekstur þjóðgarðsverslana og fjáröflun fyrir þjóðgarða. Samhliða þessu fór hópurinn í heimsókn í nálæga þjóðgarða og verndarsvæði: Shenandoah National Park í Virginíu, Gettysburg Military Park í Pennsylvaníu, Catoctin Mountain Park í Maryland og Harpers Ferry National Historical Park í VesturVirginíu. Í öllum görðunum mættum við velvild starfsmanna sem voru boðnir og búnir að fræða okkur um starf sitt og svara spurningum um ýmis álitamál. Fyrir okkur Íslendingana var ómetanlegt að fá aðgang að þeim reynslubanka sem starfsmenn þjóðgarðanna eru. Þeir njóta þess að bandarískir þjóðgarðar byggja á langri hefð, en Yellowstone í Wyoming er fyrsti þjóðgarðurinn, stofnaður 1872, og Þjóðgarðsstofnunin var sett á laggirnar 1916. Þjóðgarðarnir hafa notið hylli almennings í landi þar sem eignarrétturinn er mjög sterkur, en hætt er við að tækifæri til útivistar væru færri ef þeirra nyti ekki við. Samtals er nærri þriðjungur lands í Bandaríkjunum í almannaeigu. Tímabilinu í Harpers Ferry lauk með dagsferð til höfuðstöðva Þjóðgarðsstofnunarinnar í Washington D.C. Þar var okkur kynnt
Hópurinn ásamt landvörðum í Shenandoah þjóðgarði, en þar var gengið að gistiskýli við Appalachian-gönguleiðina um leið og öryggismál voru rædd. Mynd: George Ivy.
umgjörð atvinnustarfsemi innan þjóðgarðanna, en tengsl atvinnulífs og útivistarsvæða hafa lengi verið sterk í Bandaríkjunum. Þjóðgarðar og vernduð svæði hafa gegnt því hlutverki að vera atvinnuskapandi vettvangur, t.d. í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar, en þá var fjöldi svæða færður undir Þjóðgarðsstofnunina, meðal annars til að skapa atvinnu við uppbyggingu á tímum atvinnuleysis. Er áratugurinn stundum nefndur „gullöld varðveislunnar.“ Frá Harpers Ferry lá leiðin til Hampton í Virginíu en þar dvaldi hópurinn þriðju og síðustu vikuna. Var Rannveig þar undanskilin en hún hélt heim til annarra erinda. Í Hampton var árleg ráðstefna samtakanna National Association for Interpretation, en þau samanstanda af áhugafólki um fræðslu og miðlun. Fjöldi fyrirlestra var í boði fyrir þátttakendur og var oft vandi að velja á milli. Koma Íslendinganna vakti nokkra athygli, ekki síst eftir að hópurinn söng „Á Sprengisandi“ á kvöldvöku. Vegna fjölda áskorana endurtók hópurinn leikinn tveimur kvöldum síðar, og var þá fleiri lögum bætt í dagskrána. Vakti það aftur mikla lukku. Það var mjög ánægjulegt að geta þakkað fyrir ánægjulega og lærdómsríka ferð með þessum hætti.
Svalbarði - Við enda ísbreiðunnar Síðastliðinn föstudag var opnuð ný sýning í fremra rými Listasafns Hornafjarðar og ber hún heitið Svalbard At the Ice Edge. Á sýningunni gefur að líta myndir af dýralífi á Svalbarða, þá sérstaklega ísbirni. Um 2000 ísbirnir hafast við á Svalbarða árið um kring og þar gefst einna besta tækifærið til þess að sjá þessi stórfenglegu dýr í sínu náttúrulega umhverfi. Á Svalbarða er mjög fjölbreytt dýralíf og má þar nefna hreindýr, ref, rostung og sel, fyrir utan gríðarstóra hópa fjölbreyttra fuglategunda á borð við svartfugl, máf og óðinshana. Myndirnar voru teknar í tveimur ferðum á Svalbarða, árið 2008 og 2012 og ljósmyndararnir að baki myndunum eru þau
Michael og Felicity Bullock, en þau eru mjög dugleg að ferðast og ljósmynda, þá aðallega dýralíf. Eftir fyrstu ferð sína hingað árið 2006 féllu þau Bullock hjón fyrir Íslandi og ákváðu í kjölfarið að byggja sér hús hér á Hvalnesi. Þau koma mjög reglulega til Íslands og ferðast mikið um til að mynda náttúru og dýralíf. Þau halda úti heimasíðunni www.icephotos.com þar sem gefur að líta fjölbreyttar myndir frá Íslandi af dýralífi og náttúru. Þetta er önnur sýning þeirra hjóna hjá Menningarmiðstöð, en árið 2010 var sett upp sýning á myndum þeirra af dýralífi í Kenýa. Sýningin mun standa til 12. mars og er sölusýning. Verðið á mynd er 4500 krónur og aðgangur er ókeypis.