Eystrahorn Fimmtudagur 14. febrúar 2013
6. tbl. 31. árgangur
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Myndir af fiskiskipum sem gerð hafa verið út frá Hornafirði Hafin er söfnun mynda af öllum fiskiskipum, stórum sem smáum, sem gerð hafa verið út frá Hornafirði. Einnig er leitað eftir myndum sem varpa ljósi á líf og starf sjómanna á hafi úti. Vitað er að skipa- og bátamyndir liggja víða: í albúmum, hanga uppi á vegg, geymdar í kössum, í tölvum o.s.frv. Það er því ósk undirritaðs að allir, sem telja sig eiga slíkar myndir í sínum fórum, hafi samband við hann, símar 861-3185 og 478-1479, netfang: stefan@hornafjordur.is. Myndirnar verða færðar yfir á tölvutækt form til varðveislu og þeim skilað að því verki loknu. Við varðveislu myndanna verður ljósmyndara/eigenda getið ef þeir eru þekktir. Myndirnar verða varðveittar hjá Héraðsskjalasafni. Ráðgert er að afraksturinn verði aðgengilegur almenningi en ekki hefur verið tekin ákvörðun um með hvaða hætti það verður.
Ingólfur SF 51. Eigandi var Rafnkell Þorleifsson
Jóna Eðvalds SF 200
Á humarveiðum á Ólafi Tryggvasyni
Samhliða þessu verkefni er einnig ætlunin að safna sögum og vísum sem fjalla um sjómenn og þeirra líf. Þar er reyndar rennt blint í sjóinn en þó er ljóst að margir sjómenn kunna frá ýmsu að segja bæði í bundnu og óbundnu máli. Stefán Ólafsson
VÍS gefur sjúkratösku í Báruna
Á dögunum færði Svava Kristbjörg Guðmundsdóttir þjónustustjóri VÍS veglegan og sérvalinn sjúkrakassa til að hafa í Bárunni. Gunnar Ingi Valgeirsson umsjónarmaður íþróttamannvirkja tók við gjöfinni og þakkaði fyrir. Drengirnir í 6. flokk í fótboltanum voru á æfingu þegar afhendingin fór fram og fengu að vera með á myndinni. Það er mikil ánægja með aðstöðuna í Bárunni og áberandi hvað betur er mætt á æfingar og sömuleiðis hefur þátttakendum á öllum aldri fjölgað.
Þórbergsmaraþon Í tilefni af því að 12. mars næstkomandi er 125 ára afmæli Þórbergs Þórðarsonar ætla Nýheimar að standa fyrir maraþonupplestri úr verkum hans á afmælisdaginn frá því klukkan 10 um morguninn og fram á kvöld. Upplesturinn fer fram í kaffistofunni í Nýheimum og er öllum frjálst að koma og lesa. Jafnframt verður bæjarbúum boðið upp á afmælistertu í tilefni dagsins. Þórbergsmaraþonið er skipulagt af Háskólasetrinu í samvinnu við Menningarmiðstöð Hornafjarðar, FAS og Grunnskóla Hornafjarðar og vonast er eftir öflugri þátttöku bæjarbúa í upplestrinum.Á bókasafninu í Nýheimum er hægt að skrá sig til leiks, þ.e. skrá nafn sitt við ákveðinn tíma ef það hentar, en einnig er hægt að mæta bara á svæðið og lesa uppáhaldskaflann sinn úr verkum Þórbergs þegar færi gefst. Fólk er hvatt til að koma og skrá sig sem fyrst!