Eystrahorn Fimmtudagur 17. febrúar 2011
7. tbl. 29. árgangur
www.eystrahorn.is
Láttu rödd þína heyrast! Mótum framtíðina sjálf
hannsson
Haukur Ingi Jó
Á fimmtudag í sl. viku hélt Haukur Ingi Jóhannsson lektor við verkfræði og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands kynningu á væntanlegu íbúaþingi sem verður laugardaginn 26. febrúar nk. Haukur Ingi kom að undirbúningi, skipulagningu og framkvæmd þjóðfundarins í Laugardalshöll 2009. Í kynningu sinni gerði Haukur Ingi grein fyrir tilurð og aðkomu sinnar að íbúaþinginu og skýrði vel vinnuferlið og markmið íbúaþingsins. Eftir kynninguna ræddi blaðamaður við hann. Í máli hans kom m.a. fram að íbúaþingið er samstarfsverkefni sveitarfélagsins, Háskólasetursins á Hornafirði og Háskóla Íslands.
Keppikefli að fá breiðan hóp Síðan sagði Haukur Ingi; „Ég hugsa að leitað hafi verið til mín vegna aðkomu minnar að þjóðfundinum 2009 en fram hefur komið að það hafi verið gefandi upplifun að koma á þann fund og taka þátt í lýðræðislegri tilraun og ákvörðunartöku. Það sem ég ætla að gera er að blanda saman aðferðum sem við notuðum á þjóðfundinum og einskonar stefnumótunarvinnu. Ég heyri að fólki er umhugað að það komi eitthvað áþreifanlegt út úr þessu. Fólk vill ekki aðeins falleg orð eða áhugaverðar hugmyndir heldur líka raunveruleg markmið til að keppa að fyrir samfélagið. Íbúaþingið mun ná fram metnaði þátttakenda og ég vona því að þau sem koma á fundinn verði ekki einsleitur hópur. Það er mjög brýnt að það komi fólk af öllum sviðum samfélagsins og þá er ég að tala um bændur og búalið, fólkið úr sjávarútveginum, ferðaþjónustunni, iðnaðarmenn, og sem víðast úr mennta- og heilbrigðiskerfinu svo og fólk sem hefur áhuga á atvinnumálum, samgöngumálum, og pólitíkinni. Það eina sem ég hef áhyggjur af er að ef hópurinn verður einsleitur að þá verði slagsíða á niðurstöðu fundarins. Ég held að það sé því keppikefli okkar allra að láta það ekki gerast heldur að fá breiðan hóp úr samfélaginu.“
Aðferðin þrautreynd „Aðferðin sem beitt verður á fundinum er þrautreynd. Hún er markviss og miðar að meitla fram metnað þátttakenda og raunhæfar leiðir til að ná þeim metnaði. Aðferðin er líka mjög skemmtileg og gefandi. Burtséð frá niðurstöðum og ákvarðanatöku geta þátttakendur lært að beita þessari aðferð hvar sem er, á vinnustöðum, í stofnunum og félagsstörfum. Það er verulega gaman og gefandi að taka þátt í því að læra sjálfa aðferðina. Þetta er tækni sem miðar að því að sjónarmið allra komi fram og síðan að draga þær
saman með markvissum hætti þannig að allir fái það á tilfinningunna eða geta verið vissir um að þeirra innlegg skipti máli. Það sem kemur svo út úr þessu er einkonar drög að stefnu fyrir byggðalagið. Ég heyri að mikill áhugi er á að nýta þessa vinnu vel og treysti því. Ég hefði ekki tekið að mér verkefnið nema af því að ég treysti að því verði fylgt eftir af þar til bærum aðilum. Það væri dapurleg niðurstaða ef það sem kemur út úr þessu myndi enda ofan í skúffu einhvernsstaðar. Minn metnaður er sá að sjá eitthvað gerast í framhaldinu.“
Allir fá tækifæri „Þátttakendum er skipt niður í hópa og við hvert borð verður fulltrúi fundarstjórans til að tryggja að umræður fari fram samkvæmt settum reglum. Ég vil segja við þá sem eru hikandi og reynslulitlir í svona verkefnum að aðferðin styður við óvant fólk til þess að taka þátt. Á hverju borði er fólk sem hefur það eina verkefni að hjálpa þátttakendum við borðið að gera sig gildandi og láta rödd sína heyrast. Það verður því tryggt að einhver einn segi ekki neitt og einhver annar við borðið tali allan tímann. Við munum leggja okkur fram um að fá alla til að skila sínu inn í umræðuna.“
Breiður aldurshópur mikilvægur „Allir sem hafa raunverulegan áhuga að taka þátt í íbúaþinginu eru velkomnir, þá skiptir aldur ekki máli. Þingið er opið fyrir áhugasamt fólk á aldrinum 14 ára og uppúr. Þeir sem treysta sér að koma og taka fullan þátt í störfum þingsins eru velkomnir og það er mikilvægt að breidd sé í aldri. Við sáum á þjóðfundinum 2009 að það var aðallega fólk á miðjum aldri sem kom, en við hefðum viljað fá mun meiri breidd.“
Framtíðin kemur hvort sem okkur líkar betur eða verr „Aðferðin tryggir að í gang fer áhugavert samtal milli ólíks fólks samfélagsins; fólks á ólíkum aldri, með ólíkan bakgrunn, mismunandi forsendur. Það veit sá sem reynir að það er mjög gefandi að fá tækifæri til að tala saman með svo uppbyggilegum hætti og þvert á alla flokkadrætti. Við lifum í sögulegu samhengi og framtíðin kemur hvort sem okkur líkar betur eða verr. Hér er tækifærið til að hafa raunverulega mótandi áhrif á framtíð samfélagsins ykkar, í staðinn fyrir að einhver annar ákveði fyrir ykkur hvað gerist. Þess vegna hvet ég alla til að koma og reyna að hafa mótandi áhrif á framtíð sína.“