Eystrahorn 7. tbl. 31. árgangur
Fimmtudagur 21. febrúar 2013
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Sindrabær 50 ára Nú eru liðin 50 ár frá því að Sindrabær var vígður. Eins og fram kemur í texta hér neðanmáls, sem er endurritaður úr Sögu Hafnar (Síðara bindi bls. 399 – 400), var vígsludagurinn 9. febrúar 1964. Væri ekki tilefni að gera þessum tímamótum skil á árinu? Af ýmsu er að taka s.s. tónlist, leikstarfsemi, bíómenningunni o.fl. Hér með er skorað á menningarmálanefnd sveitarfélagsins og hlutaðeigandi félagasamtök að ræða og skoða þessa hugmynd. „Árið 1946 ræddu kvenfélagið Tíbrá og Verkalýðsfélagið Jökull um að hafa samvinnu um byggingu fundar- og samkomuhúss en nokkur ár liðu án þess að málið væri reifað af alvöru. Atvinnuástand var bágborið á árunum 1946 – 1952 og þar af
leiðandi lítið fé aflögu til að ráðast í byggingu samkomuhúss. Síðan urðu mikil umskipti í atvinnulífinu og sennilega er það ekki tilviljun að einmitt þá fór umræðan af stað á ný. Snemma árs 1953 lagði aðalfundur kvenfélagsins Tíbrár til að Sindri, Jökull og hreppsnefnd
Hafnarhrepps auk Tíbrár kysi nefnd sem ynni að því að koma upp nýju húsi. Þetta varð til þess að sama ár tóku þessir aðilar, ásamt barnastúkunni Rósinni, höndum saman um verkefnið. Síðar fékk slysavarnardeildin Framtíðin, sem stofnuð var árið 1954, aðild að byggingunni. Húsinu var valinn staður við aðalgötuna í hjarta kauptúnsins. Vinna við húsgrunninn hófst vorið 1955 en seint gekk að ljúka þessari stóru og dýru byggingu. Fé var safnað með hlutaveltu, happdrætti og útgáfu skuldabréfa, auk þess sem almenn
fjáröflun fór fram. Einnig veitti félagsheimilasjóður ríkisins og, sýslunefnd Austur-Skaftafellssýslu og Kaupfélag Austur-Skaftfellinga fé til framkvæmdanna. Húsið var vígt laugardaginn 9. Febrúar 1963 að viðstöddu fjölmenni. Efnt hafði verið til samkeppni um nafn á húsið og fyrir valinu varð nafnið Sindrabær. Veislugestir gæddu sér á kaffi og meðlæti, hlýddu á ræðuhöld, söng og gamanmál og samkomunni lauk með dansleik. Daginn eftir var barnasamkoma í Sindrabæ og almennur dansleikur um kvöldið.“
Ragnar Björnsson var húsvörður í Sindrabæ um árabil. Hann var litríkur og minnisstæður persónuleiki og ekki ofmælt að hann hafi rekið félagsheimilið af dugnaði og festu. Ragnar hafði til dæmis sérstakt lag á að ná til sín vinsælum kvikmyndum og voru þær oft komnar á tjaldið í Sindrabæ skömmu eftir að sýningum lauk í Reykjavík.“ (Saga Hafnar, síðara bindi bls. 404). Því má svo bæta við að hann var dyggilega studdur af Ásu konu sinni sem starfaði með honum í Sindrabæ og dró ekki af sér við þrif og annað sem þurfti að gera.
Opið hús í Tónskólanum Tónskóli A-Skaft. býður upp á opið hús og tónleika laugardaginn 23. febrúar milli kl. 11:00 og 15:00. Dagur Tónlistarskólanna er síðasti laugardagur í febrúar og hafa tónlistarskólar um allt land haldið þennan dag hátíðlegan, en á Íslandi starfa um 90 tónlistarskólar og um 15.000 nemendur stunda nám í þeim. Tónskóli A-Skaft. hefur nokkur undanfarin ár verið með opið hús þennan dag þar sem gestir hafa fengið að labba um húsnæðið og skoðað námsefni með meiru. Nemendur tónskólans hafa svo spilað látlaust á sviðinu allan þann tíma enda 90 nemendur við skólann í einkakennslu auk öflugrar forskólakennslu hjá 2. og 3. bekk. Einnig er Kvennakór Hornafjarðar með æfingu í húsinu til kl. 12.00 og er öllum heimilt að koma og hlusta. Gestir mega koma hvenær sem er milli kl. 11:00 og 15:00 og staldra við eins og hentar hverjum og einum Hægt verður að sjá uppröðun á heimasíðu okkar rikivatnajokuls.is/tonskolinn hvenær hver nemandi leikur. Lúðrasveit Tónskólans mun selja veitingar.
Gunnlaugur Þröstur leiðbeinir nemendum á tónleikum.