Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 27. febrúar 2014
8. tbl. 32. árgangur
Stúlkurnar í FAS stóðu sig vel í PetroChallenge í London
Þann 24. janúar héldu þær Dóra Björg Björnsdóttir, Siggerður Aðalsteinsdóttir og Vigdís María Borgarsdóttir nemendur í Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu til London til að taka þátt fyrir hönd Íslands í lokakeppni í olíuleit. Gefum þeim orðið um ferðina og keppnina; „Auk okkar voru mætt lið frá Grænlandi, Færeyjum, Noregi, Danmörku, Bretlandi og Kanada. Lið frá Bandaríkjunum ætlaði að taka þátt í gegnum netið en veðrið vestanhafs var svo slæmt keppnisdaginn að bæði rafmagn og
netsamband var ótryggt og að auki mikil ófærð. Því varð liðið að hætta við þátttöku. Lokakeppnin fór fram í Imperial College sem er þekktur og virtur skóli í London. Keppnin öll fór mjög vel fram, allir voru komnir til þess að gera sitt besta og finna mikið af olíu. Á leiðinni á keppnisstað veltum við fyrir okkur að við hefðum ákveðna sérstöðu. Þegar aðrir keppendur töluðu saman á sínu tungumáli náðum við að skilja
eitthvað hjá öllum. Að vísu ekki þegar talað var hratt. PetroChallenge er tölvuleikur þar sem huga þarf að mörgu í einu og samvinna því mikilvæg. Í byrjun þarf að skoða ýmiss konar kort og finna reiti þar sem líklegt er að sé olía. Liðunum er úthlutaður reitur en til þess að það sé mögulegt að athuga hvort það sé „raunveruleg“ olía til staðar fer í gang ferli þar sem þarf að fá önnur lið til þess að fjárfesta í sér. Þess vegna þurftum við að vera duglegar að standa upp og spjalla við krakkana í hinum liðunum. Þannig náðum við líka að kynnast hinum krökkunum. Þegar náðst hafði að mynda hlutafélag um olíuvinnslu hófst síðan borunarferli þar sem öllu máli skipti að reyna að finna olíu. Okkur gekk ágætlega framan af en þegar leið á leikinn fundu Kanadamenn gjöfular olíulindir og náðu góðu forskoti. Liðin frá Bretlandi, Noregi og Íslandi skiptust á að vera í 2. – 4. sæti. Lokamínúturnar voru mjög spennandi þar sem 2. – 4. sæti breyttist mjög ört Í lokin enduðum við í 4. sæti. Við vorum þó mjög sáttar með hversu vel gekk og bara það tækifæri að fá að taka þátt í eins stórri og flottri keppni og þetta í raun og veru er. Í gegnum keppnisferlið hér heima og úti í London höfum við lært mikið um samvinnu, því í leiknum skiptir máli að hafa manneskjur sem hægt er að treysta svo allt gangi upp. Einnig skiptir máli að vera snöggur að hugsa og geta lesið úr upplýsingum á sem gagnlegastan hátt eins og ýmiss konar jarðlagakortum og átta sig á hafdýpi. Að lokum viljum við þakka öllum þeim sem gera þessa keppni mögulega fyrir okkur.”
Dagur tónlistarskólanna - Opið hús og tónleikar í Tónskóla A-Skaft. laugardaginn 1. mars kl. 11:00 - 15:00 Dagur Tónlistarskólanna er síðasti laugardagur í febrúar og hafa tónlistarskólar um allt land haldið þennan dag hátíðlegan, en á Íslandi starfa um 90 tónlistarskólar og um 15.000 nemendur stunda nám í þeim. Tónskóli A-Skaft. hefur nokkur undanfarin ár verið með opið hús þennan dag. Í ár ætlum við að færa okkur til um eina helgi og verður því opið hús laugardaginn 1. mars, þá geta gestir gengið um húsnæðið og skoðað námsefni með meiru. Nemendur tónskólans verða með tónleika allan tímann á sviðinu enda 85 nemendur við skólann í einkakennslu auk öflugrar forskólakennslu hjá 2. og 3. bekk. Gestir mega koma hvenær sem er milli kl. 11:00 og 15:00 og staldra við eins og hentar hverjum og einum. Hægt verður að sjá uppröðun á heimasíðu okkar hornafjordur.is/tonskoli hvenær hver nemandi leikur. Lúðrasveit Tónskólans mun selja veitingar.