Eystrahorn 9. tbl. 2014

Page 1

Eystrahorn Fimmtudagur 6. mars 2014

9. tbl. 32. árgangur

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Ógleymanleg helgi hjá krökkunum Knattspyrnuskóli Sindra fyrir börn og unglinga sem haldinn var um síðustu helgi tókst einstaklega vel. Óli Stefán þjálfari hjá Sindra og skólastjóri knattspyrnuskólans fór fyrir vösku liði heimamanna sem lögðu sig fram um að gera þessa helgi ógleymanlega fyrir þátttakendur. Vandað var val á kennurum og sjálfur landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson lagði á sig að vera hér með krökkunum þó hann þyrfti að fara til baka og með landsliðinu til Welsh. Með honum í för var Hermann Hreiðarsson sá frægi atvinnumaður og harðjaxl og setti hann skemmtilegan svip á æfingarnar með sinni hressilegu framkomu. Lýstu þeir félagar yfir sérstakri ánægju og hrifningu yfir aðstöðunni og hversu vel var staðið að öllum málum kringum skólann. Allir þjálfarar Sindra tóku virkan þátt í kennslunni ásamt Auðuni Helgasyni, Emblu Grétarsdóttur, Þrándi Sigurðssyni og Alex Frey Hilmarssyni. Farið var yfir lykilþætti knattspyrnunnar bæði á æfingum í Bárunni og svo með fyrirlestrum í Nýheimum. Það voru nákvæmlega 100 iðkendur skráðir í skólann og rúmlega 30 af þeim komu frá öðrum félögum. Í viðtali við Eystrahorn sagði Óli Stefán; „ Þetta verkefni tókst í alla staði mjög vel og því er ekki síst að þakka mikilli hjálp sem við fengum frá öllum sem leitað var til, þjálfurum, foreldrum og góðum stuðningsmönnum Sindra. Kunnum við þeim öllum bestu þakkir fyrir. Til þess að svona viðburður geti gengið upp þurfum við öll að leggjast á eitt eins og gert var í þessu tilfelli og ekki væri þetta möguleiki nema að hafa þessa framúrskarandi aðstöðu sem Báran er. Útkoman var einstök helgi með krökkum á aldrinum 10-16 ára sem fóru öll skælbrosandi heim. Það er ljóst að eftir ár verður knattspyrnuskóli Sindra 2015.“

Tungumál eru lyklar að heiminum - Viðurkenning til Grunnskólans Þann 28. febrúar var haldið málþing í Norræna húsinu í tilefni af Alþjóðlega móðurmálsdagsins. Málþingið var á vegum stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og UNESCO nefndarinnar. Í vikunni voru ýmsir viðburðir til að minna á mikilvægi þess að viðhalda móðurmálinu og hve mikill auður liggur í þeim einstaklingum sem tala mörg tungumál. Eins og segir á vef Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur eru tungumálin einn af hornsteinunum í menningu mannkyns og sá menningarlegi margbreytileiki sem þeim tengist. Jafnframt hafa alþjóðasamskipti og samvinna þjóða og menningarsvæða aldrei skipt meira máli en á okkar tímum. Grunnskólar landsins voru einnig í brennidepli og leitað var að þeim tungumálaforða sem þeir búa að. Gaman er

að geta þess að Grunnskóli Hornafjarðar var fyrsti skólinn sem komst á kortið en innan hans rúma alls 13 tungumál hvorki meira né minna. Grunnskóli Hornafjarðar var einnig einn af þremur skólum á landinu sem fékk sérstaka viðurkenningu fyrir að vera hluti af tungumálaforðanum og viðurkenningin var bókin Eitt þúsund tungumál. Sveitarfélagið Hornafjörður átti einnig beinan þátt í kynningu í móðurmálsvikunni því veggspjald sem unnið var af Vilhjálmi Magnússyni og Magnhildi Gísladóttur var notað í bókasöfnum höfuðborgarinnar til að vekja athygli á mikilvægi þess að lesa á móðurmálinu. Magnhildur Gísladóttir verkefnisstjóri um málefni innflytjenda og grunnskólakennari veitti viðurkenningunni móttöku fyrir hönd Sveitarfélagsins.

www.hornafjordur.is - samfélagsvefurinn okkar


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.