Eystrahorn
Gleðilega páska
Miðvikudagur 27. mars 2013
12. tbl. 31. árgangur
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Alltaf næg verkefni Eystrahorn hafði samband við Hjalta Þór bæjarstjóra og innti frétta; „Undanfarið hefur nokkuð mikill tími farið í safnaog menningarmál. Við höfum unnið talsvert í starfsmannamálum og fengið Völu Garðarsdóttir til okkar sem nýjan forstöðumann yfir söfnin. Með tilkomu hennar verður meiri áhersla lögð á miðlun menningararfsins okkar með margvíslegum hætti. Við stefnum að opnun sýningar í Skreiðarskemmunni á sjómannadaginn og eins að gera meira fyrir verbúðina í Miklagarði. Þá verður spennandi að skoða nýjar leiðir í miðlunarmálum með haustinu“, segir Hjalti. Á sýningunni í Skreiðarskemmunni verða sýndir gripir, uppsettir fuglar og sagt frá ýmsu sem tengist sjósókn eins og Birni Lóðs, lífsbjörg sem fólk sótti í fjörðinn og afurðum sem unnar eru í héraðinu. Unnið er að
aðalskipulagi á vegum sveitarfélagsins þar sem meðal annars verða lagðar línur um framtíðaruppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Umræður hafa verið um nýjar hótelbyggingar en Hjalti sagði að tekið yrði á ýmsum málum er það varðar í aðalskipulaginu. Jafnframt er lögð áhersla á sýn er varðar uppbyggingu áfangastaða í ljósi væntinga um fjölgun ferðamanna. Aðalskipulagið verður kynnt eftir páska. „Það vantar óneitanlega að byggja upp sterkari innviði fyrir ferðaþjónustuna. Tekin hafa verið skref hér á Höfn í þá veru og það var mikilvægt að fá fjármuni til að byggja göngubrú yfir Hólmsá nú í vetur. Ég sat síðan mjög góðan aðalfund Búnaðarsambands Austur-Skaftfellinga í síðustu viku þar sem við ræddum um að setja sameiginlega stefnu um eflingu byggðar í sveitum sem stefnt er að fullklára með vorinu.“
Lífsdans og Samstíga Miðvikudaginn 27. mars opna tvær sýningar í Listasafni Hornafjarðar. Í fremri sal safnsins opnar sýning Guðrúnar Ingólfsdóttur, Lífsdans. Í aðalsal safnsins opnar sýningin Samstíga, en á sýningunni er sjónum beint að abstraktlist og þeim nýju straumum sem Svavar Guðnason og samferðamenn hans einbeittu sér að uppúr miðri síðustu öld, þar sem myndbygging, litir og form eru allsráðandi. Svavar fæddist á Hornafirði og áhugavert fyrir heimamenn að sjá Svavar og verk hans í samhengi við það sem samferðamenn hans voru að fást við. Á þessari sýningu eru sýnd verk sjö listamanna; Eyborg Guðmundsdóttir (1924-
1977), Guðmunda Andrésdóttir (1922-202), Guðmundur Benediktsson (1920-2000), Hörður Ágústsson (1922-2005), Karl Kvaran (1924-1989), Nína Tryggvadóttir (1913-1968), Svavar Guðnason (1909-1988). Sýningin er unnin í samstarfi Listasafns Íslands, Listasafns Árnesinga og Listasafns Hornafjarðar. Verkin eru flest í eigu Listasafns Íslands en einnig eru verk úr safneign Listasafns Hornafjarðar á sýningunni. Sýningarnar verða opnar til 2. júní á opnunartíma Ráðhússins, alla virka daga klukkan 9:00 - 12:00 og 13:00 - 15:00. Opið verður á skírdag, laugardag fyrir páska, páskadag og annan í páskum klukkan 13:00 17:00. Aðgangur er ókeypis.
Helga Árnadóttir ráðin hjá Vatnajökulsþjóðgarði Helga Árnadóttir, 33 ára líffræðingur, hefur verið ráðin í nýja stöðu sérfræðings hjá Vatnajökulsþjóðgarði. Helga mun hafa aðsetur í Gömlubúð á Höfn og sjá um rekstur gestastofunnar ásamt því að sinna fleiri verkefnum á suðursvæði þjóðgarðsins. Helga hefur starfað hjá Vatnajökulsþjóðgarði frá stofnun hans árið 2008, fyrst sem landvörður í Jökulsárgljúfrum og síðar sem aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar á norðursvæði. Hún hefur mikla reynslu af fjölbreyttum og krefjandi verkefnum í störfum sínum
fyrir þjóðgarðinn. Áður starfaði hún m.a. sem sérfræðingur á rannsóknarstofu Lyfjaþróunar og sem líffræðingur á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði
á Keldum. Helga er uppalin á Hellu á Rangárvöllum og útskrifaðist af náttúrufræðibraut Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Hún lauk síðan Bs prófi í sameindalíffræði og meistaraprófi í heilbrigðisvísindum frá Háskóla Íslands og hefur hlotið viðurkenningar fyrir kynningar á verkefnum sínum. Hún hefur tekið landvarðanámskeið hjá Umhverfisstofnun og fyrir áramót lauk hún 20 daga námskeiði í þjóðgarðafræðum í Bandaríkjunum. Helga er gift Stefáni Viðari Sigtryggssyni og eiga þau son á öðru aldursári.
Útivist og líkamsrækt eru helstu áhugamál þeirra hjóna og hafa þau tekist á við ýmis áhugaverð verkefni, saman eða í sitthvoru lagi. Má þar nefna fjallgöngur, gönguskíðaferðir og bakpokaferðalög í náttúru Íslands, hjólaferð til Evrópu, ásamt keppni í maraþonum, almenningshlaupum og þríþrautum. Hjónin eru því afar spennt fyrir því að fá tækifæri til að kynnast einstakri náttúrufegurð svæðisins og stefna á að vera iðnir notendur íþróttamannvirkja á svæðinu!