Eystrahorn 14. tbl. 2013

Page 1

Eystrahorn 14. tbl. 31. árgangur

Fimmtudagur 11. apríl 2013

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Ekki grís að Grease varð fyrir valinu Eins og Hornfirðingum er nú kunnugt um er unnið að uppsetningu Grease hér í bænum. Leikfélag Hornafjarðar og Framhaldsskólinn í Austur Skaftafellssýslu standa að sýningunni í samstarfi við Tónskóla A-Skaft. Flestir landsmenn þekkja söngleikinn Grease en hann er löngu orðinn heimsfrægur. Svo skemmtilega vill til að auk þess að vera settur upp á Höfn þá er nú unnið að uppsetningu verksins í Vestmannaeyjum og á Norðfirði. Vinsældir Grease hafa því greinilega lítið dalað frá því að kvikmyndin var sýnd árið 1978. Hér á Höfn hafa æfingar staðið yfir í rúman mánuð og nú styttist í frumsýningu. Sýningar fara fram í Mánagarði en þar hafa endurbætur farið fram og aðstaða fyrir leikara er nú til fyrirmyndar. Hægt er að panta miða á Grease hjá Svövu Kristbjörgu í síma 844-1493 eftir kl. 17:00 á daginn. Miðaverð er 2.500 kr. Ekki eru tekin kort. Nú gildir reglan „fyrstur kemur fyrstur fær“ því eingöngu verða 6 sýningar í boði. Þess vegna er um að gera að tryggja sér miða sem allra fyrst.

Frumsýning laugardaginn 13. apríl kl. 20:00 Önnur sýning sunnudaginn 14. apríl kl. 20:00 Þriðja sýning þriðjudaginn 16. apríl kl. 20:00 Fjórða sýning fimmtudaginn 18. apríl kl. 20:00 Fimmta sýning föstudaginn 19. apríl kl. 20:00 Síðasta sýning sunnudaginn 21. apríl kl. 20:00

Grease hópurinn er einstakur! Stefán Sturla Sigurjónsson var fenginn til að leikstýra verkinu. Hvernig skildi honum hafa fundist að vinna með ungum Hornfirðingum og hvað finnst honum um aðstöðuna sem boðið er uppá? „Oft þegar ég kem að leikstýra áhugaleikhópum er það þröngur hópur sem hefur ákveðið hvaða verkefni verður unnið. Bjartsýni og mikill áhugi drífur hópinn áfram. Þegar ég kom til Hafnar í lok febrúar, var þetta svona. Nokkrar stelpur og einn strákur ætluðu að setja upp GREASE. Bjartsýni? já mikil bjartsýni, en þannig gerast góðu hlutirnir. GREASE fjallar um samskipti stelpna og stráka, kærleika, vináttu og einlægni, allt sem margir flýja með yfirborðslegum stælum. Að mörgu leyti er GREASE erfitt verk. Það krefst góðra söngvara því mörg laganna eru erfið. Leikurinn krefst þess að leikararnir geti skapað heilstæðar persónur. Oft hefur maður séð þetta verk bara leikið með yfirborðslegum stælum, en þá vantar mótvægið, það sem skiptir mestu máli. Já þetta var því bjartsýni, að ætla að setja upp GREASE, krefst mikils. Og ekki gekk það átakalaust að fá fleiri stráka með í hópinn, en það gekk og æfingar hófust fyrir alvöru í byrjun mars. Langt páskafrí á æfingaferlinu er ekki uppáhaldsstaða leikstjóra. Ég lagði því hart að leikurunum og með samstilltri vinnu söng- og tónlistarstjórans Heiðars Sig. og leikhópsins vorum við komin ótrúleg langt í ferlinu þegar við fórum í páskafrí. Þá vissi ég að eitthvað virkilega spennandi var að gerast. Eitthvað sem ég hef ekki oft komið að með áhugaleikurum. Nú var bara að sjá hvernig hópurinn héldi utan um verkefnið í fríinu. Þegar við hittumst þriðjudaginn eftir páska, mætti ég hópi leikara og tæknifólks sem hafði unnið eins og atvinnumenn. Þau höfðu notað þessa daga til að vinna í hlutverkum sínum og öll umgjörð að verða klár. Framfarirnar ótrúlegar. Hornfirðingar eiga mikil efni, efni í góðar manneskjur, hörkuduglegt ungt fólk sem kann að vinna. En það

dugar skammt fyrir leiksviðið ef hæfileikana vantar. Ég get fullvissað ykkur sem þetta lesið að aldrei, og þá meina ég aldrei áður hef ég unnið með eins samstilltum og hæfileikaríkum hópi ungs fólks. Þetta skilar sér margfalt út í samfélagið. Það er svona fólk sem stendur uppúr í framtíðinni, ungt fólk sem þorir, vill og kann. En ekkert af þessu er hægt að gera nema vilji og aðstaða sé fyrir hendi. Ég er ekki viss um að það sé almennur skilningur um hversu mikils virði menningarlegt uppeldi barna og ungmenna er. Það er hins vegar frábært að koma hingað til Hornafjarðar og sjá hve vel er búið að þessum málum. Hvað varðar sviðslist þá er Mánagarður “menningarhús” sem býður uppá óendanlega möguleika. Öll aðstaða er þar til að vera með öflugt menningarstarf með sömu kröfur og áherslur og t.d. menningarhúsið Hof á Akureyri. Með því að sameina starfsemi íþróttahússins og gamla félagsheimilisins væri hægt að vera með gestasýningar frá atvinnuleikhúsunum, myndlistarsýningar í hliðarsölum, jöklasýningu í forsal, ljósmyndasýningar, tónlistaruppákomur, veislur og íþróttir... já bara allt það sem fram fer í vel skipulögðum menningarhúsum. Mánagarður er einmitt hin heppilega stærð til reksturs menningarhúss á landsbyggðinni. Öflugt menningarstarf er undirstaða öflugs atvinnulífs og frumsköpunar.“


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.