Eystrahorn 14. tbl. 32. árgangur
Fimmtudagur 10. apríl 2014
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Almenn ánægja með þjónustu á HSSA Hjúkrunar- og dvalarheimili Í október 2013 var framkvæmd þjónustukönnun á hjúkrunarog dvalarheimili HSSA. Sambærilegar kannanir voru lagðar fyrir íbúa árin 2007 og 2011 af Landlæknisembættinu. Könnuninni var svarað af íbúum sjálfum, aðstandendum þeirra eða þeim saman. Alls bárust 20 svör af þeim 27 íbúum sem könnunin var lögð fyrir. Veita verður því athygli að þegar um er að ræða svo lítið úrtak og svörun hefur hver könnun töluvert mikið vægi og telst ekki tölfræðilega marktæk. Niðurstöður könnunarinnar fyrir árið 2013 eru í heild sinni mjög áþekkar þeim niðurstöðum sem fengust á árunum 2007 og 2011. Almennt má segja að íbúar á hjúkrunarog dvalardeild HSSA séu ánægðir með umönnun á heimilinu eða 95%, íbúar telja að komið sé fram við sig af virðingu og kurteisi og telja að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur. Það kom einnig fram að bæta má upplýsingagjöf til íbúa og aðstandenda við komu á heimilið varðandi ýmsa þætti. Spurt var um matinn á heimilinu en 84% íbúa eru ánægðir með matinn og enginn óánægja kom fram. Þegar spurt var um húsnæðið þá finnst íbúum og aðstandendum umhverfið á heimilinu vera vistlegt. Á hjúkrunardeildinni eru 24 hjúkrunarrými og eru einungis tvö af þeim einbýli sem deila með sér salerni, öll önnur rými eru tvíbýli þar sem margir nota sama salerni. Á dvalardeildinni eru 6 rými. Þar eru öll herbergi einbýli og íbúar sem búa þar deila með sér 2 salernum. Af þessum ástæðum upplifir fólk sig ekki hafa mikla möguleika á að hafa eigin muni hjá sér en 21% töldu sig hafa mikla möguleika, 42% nokkra og 37% töldu sig hafa litla eða enga möguleika á að hafa eigin muni hjá sér. Í skriflegum athugasemdum sem fólki gafst kostur á að setja inn kom nánast alltaf fram athugasemd á aðstöðuna, þ.e. íbúum finnst mikill ókostur að geta ekki verið í einbýli ásamt því að herbergin eru lítil og þröng. Nokkrar spurningar voru eingöngu fyrir lagðar fyrir ættingja. Aðstandendur virðast almennt ánægðir með starfsemi heimilisins, þeir telja samráðið vera gott og að aðgengi að upplýsingum um líðan íbúa sé mjög eða frekar gott og 95% aðstandenda telja að
starfsfólk komi fram við sig af virðingu og tillitsemi.
Heilsugæslustöðin Þjónustukönnunin var látin liggja á heilsugæslustöðinni í þrjár vikur í október mánuði 2013 og voru allir þeir sem komu á heilsugæslustöðina á þeim tíma gefinn kostur á að svara. Alls bárust 68 svör. Þessi könnun hefur tvisvar verið lögð fyrir þjónustuþega áður árin 2007 og 2011. Íbúar sveitarfélagsins eru ánægðir með þjónustuna á heilsugæslustöð HSSA eða 83% og er það betri niðurstaða en fékkst árin 2007 og 2011, 10% svarenda voru óánægðir. Meirihluti þeirra sem sækja þjónustu á heilsugæslustöðinni eru konur eða 69% og flestir eru á aldrinum 41-60 ára eða 37%. Flestir koma á stöðina vegna veikinda eða heilsuvandamála og flestir eiga pantaðan tíma. Það er ljóst að aðgengi að þjónustu er mjög gott og auðvelt er að fá tíma hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi með stuttum fyrirvara en 60% aðspurðra pöntuðu tíma samdægurs eða daginn áður. Aðgengi að tímum á heilsugæslustöðinni var mjög svipað á árunum 2007 og 2011. Það kemur í ljós að svarendur eru mjög ánægðir með viðmót starfsfólks á heilsugæslustöðinni en 95% svarenda fannst viðmótið mjög eða frekar gott. Flestir svarendur fengu úrlausn erindis síns eða 75%, 22% fengu úrlausn að hluta en aðeins 3% fengu ekki úrlausn erindis. Ánægja var með aðbúnað á heilsugæslustöðinni. Þegar spurt var um ánægju með framboð á
þjónustu kemur í ljós að fólk er ánægðara með framboð á þjónustu nú en árin 2007 og 2011 en 65% svarenda eru ánægðir. Einnig er fólk nokkuð ánægt með upplýsingagjöf eða 66% svarenda sem er svipað og hefur komið fram í eldri könnunum. Nokkuð margar skriflegar athugasemdir bárust og snéru þar nánast allar að því að fólk vill hafa ljósmóður í fastri stöðu á heilsugæslustöðinni og fastan heimilislækni. Ekki hefur verið fastur heimilislæknir búsettur á Höfn frá því að Baldur Þorsteinsson hætti og illa hefur gengið að fá heimilislækna til starfið á landinu öllu. Nú í vetur hefur þó verið nokkur stöðugleiki í læknamönnun með samningi við Heilsuvernd, nú koma alltaf sömu fjórir læknarnir einu sinni í mánuði og stoppa eina viku í senn. Elín Freyja Hauksdóttir hefur verið fastur læknir nú í nokkurn tíma en hún hefur verið í fæðingarorlofi frá því síðasta sumar en hún er nú komin til starfa aftur eftir fæðingarorlof. Varðandi ljósmóður stöðina þá hefur ekki tekist að ráði ljósmóður til starfa eftir að Áslaug Valsdóttir ljósmóðir lét af störfum síðastliðið haust. Auglýst hefur verið eftir ljósmóður nokkrum sinnum en það hefur ekki borið árangur. Það hefur að sjálfsögðu áhrif að erfitt getur reynst að fá atvinnu fyrir maka og það hefur mikil áhrif á það hvort fólk fáist til starfa. Áslaug hefur haldið áfram að þjónusta Hornfirðinga með mæðravernd en hún kemur þrisvar í mánuði. Við vonumst til þess að geta fengið fljótlega ljósmóðir í fast starf á heilsugæslustöðina. Frekari niðurstöður úr þjónustukönnuninni má lesa á hornafjordur.is undir HSSA.
Næstu 3 tölublöð koma út á miðvikudögum
Næstu þrír útgáfudagar eru allir á miðvikudegi en ekki fimmtudegi því það koma þrír fimmtudagar í röð sem eru frídagar, skírdagur, sumardagurinn fyrsti og 1. maí. Af þessari ástæðu þarf að skila efni og auglýsingum á mánudegi því blaðið verður prentað á þriðjudegi.