Eystrahorn 16. tbl. 2013

Page 1

Eystrahorn

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Miðvikudagur 24. apríl 2013

16. tbl. 31. árgangur

Karlakórinn Jökull 40 ára Afmælistónleikar í Hafnarkirkju á sumardaginn fyrsta, 25. apríl kl. 20:00

„Það var um mitt ár 1972, að verulegur skriður komst á það áhugamál margra hér í sýslu, að stofnaður skyldi karlakór, með þátttöku manna úr sem flestum hreppum. Á bændafundi, sem haldinn var seinni part sumars það ár, var meðal annarra mála rætt um hvernig standa bæri að slíku, og var að lokum tilnefnd eða kosin nefnd manna, sem í var einn maður úr hverjum hreppi, til að athuga hvort nægur grundvöllur væri fyrir stofnun karlakórs, og þá sjá um undirbúning, ef svo reyndist vera. Í nefnd þessari áttu sæti Benedikt Stefánsson, bóndi Hvalnesi, sem var formaður nefndarinnar, Sigjón Bjarnason, Brekkubæ, Þórhallur Dan Kristjánsson Höfn, Sævar Kristinn Jónsson, Rauðabergi, Sr. Fjalarr Sigurjónsson, Kálfafellsstað og Sigurður Björnsson Kvískerjum. Það sem eftir var af árinu fór fram liðssöfnuður um alla sýslu og mátti um þær mundir heyra menn kyrja hátt og í hljóði, ýmist einn og einn, eða fleiri saman, því ekki var að vita nema í þeim sömu mönnum leyndist góð söngrödd, sem nota mætti í kórinn. Fór loks svo, að hinn 4. Janúar 1973 kl. 20 komu saman í safnaðarheimilinu á Höfn, 28 menn, og var tilgangurinn að stofna karlakór. Það gerðist að vísu ekki formlega í þetta skiptið, en kosnir voru þrír menn, þeir Benedikt Stefánsson, Kristján Gústafsson og Hermann Hansson, sem mynda ættu bráðabirgða stjórn og skyldu þeir semja drög að lögum fyrir kórinn og undirbúa formlegan stofnfund. Á þessum fundi kom fram að Sigjón Bjarnason var til í að taka að sér söngstjórn kórsins, sem hann og gerði. Laugardaginn 9, júní 1973 var svo haldinn stofnfundur kórsins og fór m.a. fram atkvæðagreiðsla um nafn á hann. Eftir all flóknar kosningar varð ofaná að hann skyldi heita „Jökull“. Síðan var kosin

stjórn, og hana skipuðu: formaður Benedikt Stefánsson, ritari Kristján Gústafsson og gjaldkeri Hermann Hansson. Fyrstu tónleikar kórsins voru svo haldnir í Sindrabæ 1. maí 1973. Á söngskrá voru 16 lög, sem sungin voru við mikinn fögnuð áheyrenda. Á öðru ári kórsins (1973 – 1974) var mikið um að vera. Kórinn hélt sína vortónleika, og auk þess var sungið á 1100 ára afmælishátíðinni á Höfn og við vígslu brúa á Skeiðarársandi. Voru 14 ný lög æfð það árið. Þegar á þriðja starfsári kórsins var ákveðið að auk hefðbundinna vortónleika skyldi farið í söngför og herjað á vestursýsluna. Voru tónleikar haldnir bæði í Vík og á Kirkjubæjarklaustri. Síðan þá hefur það nánast verið undantekning ef ekki hefur verið farið í ferðalag á vorin“. Kórinn hefur farið í margar ferðir og haldið tónleika víða um land, t.d. á Djúpavogi, Breiðdalsvík, Stöðvarfirði, Reyðarfirði, Norðfirði, Egilsstöðum, Vopnafirði, Akureyri, Húsavík, Dalvík, Siglufirði, Skagafirði, allt Snæfellsnesið, Borgarfjörður, Reykjavík, Selfoss, Vestmannaeyjum, Hvolsvelli, Vík, Klaustri og Hornafirði, þ.e. Höfn, Suðursveit og Öræfi. Sjö sinnum hefur kórinn tekið þátt í kóramótum : Í Reykjavík vegna 50 ára afmælis Sambands Íslenskra karlakóra 1978, á vegum Kötlu á Selfossi 1980, Keflavík 1985, Mosfellsbæ 1990, þá hélt Karlakórinn Jökull mótið með miklum myndarbrag á Höfn í Hornafirði 1995, í Reykjavík 2000, Landsmót karlakóra í Hafnarfirði 2005 og Kötlumót á Flúðum 2010. Kórinn fór í söngferð til Norðurlanda vorið 1980 og til Færeyja vorið 1982 og aftur 2003, til Ítalíu 1999 og síðan til Kanada 2011.

Karlakórinn Jökull hefur komið sex sinnum fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og var fyrsti áhugamannakórinn sem kom fram með henni. Kórinn hefur gefið út þrjá diska: Í jöklanna skjóli, Það kom söngfugl að sunnan og Hvít er borg og bær, einnig söng kórinn 2 lög inn á hljómplötu sem gefin var út á vegum Kötlu árið 1982. Eins og áður segir þá stjórnaði Sigjón Bjarnason kórnum með miklum myndarbrag til vorsins 1992 eða í 19 ár, Jóhann Morávek tók við af Sigjóni og hefur hann stjórnað kórnum, einnig með myndarbrag, eða í 20 ár. Guðlaug Hestnes hefur leikið undir hjá kórnum samfellt frá árinu 1975 eða í 38 ár. Þessu fólki verður seint full þakkað það fórnfúsa starf sem það hefur innt af hendi í þágu kórsins. Formenn Jökuls frá upphafi: 1973 – 1974, Benedikt Stefánsson 1975 – 1976, Fjalarr Sigurjónsson 1977 – 1980, Árni Stefánsson 1981 – 1982, Sævar Kristinn Jónsson 1982 – 1983, Sigfinnur Gunnarsson 1983 – 1984, Garðar Sigvaldason 1984 – 1985, Árni Stefánsson 1985 – 1986, Friðrik Snorrason 1986 – 1991, Örn Arnarson 1991 – 1992, Sigurður Örn Hannesson 1992 – 1995, Björn Kristjánsson 1995 – 1996, Snorri Snorrason 1996 – 1997, Magnús Friðfinnsson 1997 – 2002, Örn Arnarson 2002 – 2003, Sigurður Mar Halldórsson 2003 – 2013, Heimir Örn Heiðarsson Heiðursfélagar Karlakórsins Jökuls eru fimm, Bjarni Bjarnason, Eyjólfur Stefánsson, Fjalar Sigurjónsson, Benedikt Stefánsson og Árni Stefánsson.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.