Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 28. apríl 2011
17. tbl. 29. árgangur
Flugslysaæfing á Hornafjarðarflugvelli - Nauðsynlegt að njóta aðstoðar sjálfboðaliða -
Frá flugslysaæfingu 2006.
Laugardaginn 7. maí nk. mun Isavia ásamt almannavarnadeild ríkislögreglustjóra standa fyrir flugslysaæfingu við Hornafjarðarflugvöll. Sett verður á svið atvik þar sem farþegaflugvél hlekkist á við lendingu með þeim afleiðingum að hún brotlendir og fjöldi fólks slasast. Verður það svo verkefni viðbragðsaðila á Höfn að koma þolendum til bjargar skv. viðbragðsáætlun sem unnin hefur verið, vernda vettvang og rannsaka tildrög líkt og um raunverulegt slys væri að ræða. Að lausn verkefna æfingarinnar munum koma allir neyðarþjónustuaðilar á Höfn;
lögregla, slökkvilið, HSSA, Björgunarfélag Hornafjarðar, Hornafjarðardeild RKÍ ásamt fleirum auk þess viðbúnaðar sem virkjaður er í Reykjavík skv. viðbragðsáætluninni, þ.m.t. landhelgisgæslan, Landspítali háskólasjúkrahús, rannsóknarnefnd flugslysa o.fl. Ljóst er að æfing sem þessi mun gagnast neyðarþjónustuaðilum í mun fleiri tilvikum en flugslysum. Þarna mun reyna á alla að starfa eftir skipulagi almannavarna, en það er skipulag sem unnið er eftir við margskonar vá sem steðjað getur að, t.a.m. sjóslys, náttúruhamfarir, hópslys í umferðinni o.fl.
Til að æfingin verði sem gagnlegust fyrir þá aðila sem að henni koma er nauðsynlegt að njóta aðstoðar sjálfboðaliða og er þess óskað að íbúar á svæðinu leggi neyðarþjónustunni lið með því að skrá sig sem sjálfboðaliða. Hlutverk sjálfboðaliða verður að leika slasaða á æfingunni, aðstandendur slasaðra og til að aðstoða við förðun þeirra sem leika slasaða. Lögreglan á Höfn tekur að sér að skrá sjálfboðaliða og er áhugasömum bent á að hafa samband í síma 470 6145 eða með tölvupósti á logreglan.hofn@tmd.is