Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Föstudagur 3. maí 2013
17. tbl. 31. árgangur
Vel heppnaður íbúafundur
Mánudaginn 22. apríl stóð skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd í samvinnu við grasrótarhóp um heilsueflingu og forvarnir fyrir íbúafundi vegna endurskoðunar á stefnu sveitarfélagsins í þessum málaflokki. Mikil áhersla var lögð á að íbúar tækju þátt og kæmu skoðunum sínum og hugmyndum á framfæri sem framlag inn í stefnuna. Skemmst er frá að segja að fólk brást einstaklega vel við. Á fundinn mættu 54 fyrir utan hópstjóra og aðra starfsmenn sem voru 10 talsins. Afar
ánægjulegt var að sjá mikla þátttöku ungs fólks. Íbúaþingið hófst með setningu síðan flutti Sabína Steinunn Halldórsdóttir erindi um forvarnarverkefni UMFÍ. Í kjölfarið hófst hópavinna sem stóð sleitulaust frá kl. 17:00 til kl. 20:00 með 20 mínútna matarhléi. Þarna var aflað dýrmætra hugmynda sem settar verða inn í nýja stefnu. Í framhaldinu verður unnið úr hugmyndunum og samin stefnudrög sem sett verða á vef sveitarfélagsins til að íbúar geti áfram komið með ábendingar og
hugmyndir. Stefnudrögin verða einnig send félagasamtökum til umsagnar. Við viljum þakka íbúum sveitarfélagsins fyrir þátttökuna og hlökkum til að eiga áframhaldandi samvinnu við þá um þetta verkefni. F.h. Skóla-, íþrótta- og tómstundanefndar, Arna Ósk Harðardóttir, Ragnhildur Jónsdóttir f.h. Grasrótarhóps um heilsueflingu og forvarnir, Matthildur Ásmundardóttir, Kristján S.Guðnason
Lagði upp frá Óslandsbryggju Guðni Páll Viktorsson, ungur kajakræðari, sem ætlar að róa umhverfis landið á kajak ýtti úr vör við gömlu Óslandsbryggjuna á þriðjudagsmorgun. Guðni Páll flýtti brottför um einn dag vegna veðurútlits. Það er ekki laust við að svolítill hrollur færi um blaðamann við tilhugsunina að fólk rói á svona bátsskel á hafi úti og í þeim kulda sem nú er. Svo ætlar hann að sofa í tjaldi við landtökur. Guðni Páll gerir ráð fyrir að ferðin taki sex til átta vikur en það er háð veðri og vindum. Aðspurður hvers vegna að byrja og enda á Hornafirði sagði hann að illu væri best aflokið. Hann rær réttsælis kringum landið og erfiðasti kaflinn er suðurströndin. Hann vonast til að loka hringnum á humarhátíðinni. Meðan á ferðinni stendur er áheitum safnað til styrktar Samhjálp. Hægt er að finna upplýsingar bæði um ferðina og söfnunina á www.aroundiceland2013.com og www.styrktarfelagid.is.
Blað sem eflir bæjarbrag og berst í sérhvert hús