Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 16. maí 2013
19. tbl. 31. árgangur
Íbúar taki höndum saman á Unglingalandsmóti Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Höfn í annað sinn um Verslunarmannahelgina nú í sumar. Fyrst var það haldið árið 2007 og tókst vel. Undirbúningur á vegum USÚ var viðamikill og framkvæmdir á vegum Sveitarfélagsins voru umfangsmiklar. Síðan þá hefur ný sundlaug risið og skammt er að minnast byggingar Bárunnar. Auk þess hafa félagasamtök haldið áfram að bæta aðstöðu á svæðum sínum, eins og golfvöllinn, mótocrossbrautina og svæði hestamanna við Stekkhól. Öll aðstaða býður því upp á að Unglingalandsmótið geti orðið okkur til sóma. Lykilatriði við framkvæmd fyrra landsmóts var umfangsmikið sjálfboðaliðastarf. Fjölmargir lögðu hönd á plóginn við ýmiss verk sem þarf að sinna á þessum fjölmenna viðburði, við umhirðu á keppnissvæðum og tjaldsvæðum, við ýmiss störf er tengjast öllum þeim
keppnisgreinum sem fara fram, ýmislegt er varðar afþreyingu fyrir þátttakendur og gesti og fleira. Þess vegna er óskað eftir því að íbúar fylki aftur liði líkt
og árið 2007 og stuðli að því að Unglingalandsmótið nú í sumar verði ekki síður eftirminnilegt en hið fyrra. Við þurfum um 500 sjálfboðaliða en von er á um 1500
keppendum. Áhugasamir eru beðnir að skrá sig hjá Þórhöllu á netfangið tjarnarbru1@simnet. is eða í síma 893-0475 sem fyrst til að hægt verði að undirbúa sjálfboðaliðastarfið tímanlega fyrir mótið. Viðkomandi eru beðnir að senda inn nafn, netfang og símanúmer. Í byrjun sumars verður haldin opinn fundur um Unglingalandsmótið 2013. Þá verður skipulag mótsins og helstu atriði við framkvæmd þess kynnt auk þess sem íbúar geta lagt fram sjónarmið og ábendingar um það sem huga þurfi að. Ekki þarf að fjölyrða um gildi þess fyrir okkur íbúa að halda Unglingalandsmót. Það er hvatning fyrir íþróttaiðkun barna og unglinga og staðurinn okkar fær góða kynningu. Framlag okkar allra skiptir máli til að mótið heppnist sem best. Fyrir hönd landsmótsnefndar, Matthildur Ásmundardóttir, formaður USÚ
Fótboltinn byrjaður að rúlla 2. deild karla
Bikarkeppni karla
Fyrsti alvöru leikurinn á nýju keppnistímabili fór fram sl. laugardag þegar Hamar úr Hveragerði kom í heimsókn. Það var svolítill vorbragur á leiknum eins og knattspyrnufólk segir gjarnan og fóru bæði lið varlega í aðgerðum sínum. Ágætis fótbolti sást á köflum þrátt fyrir að veðrið væri ekki ákjósanlegt en völlurinn lítur vel út. Sindramenn virkuðu sterkari aðilinn og voru meira með boltann en bæði lið fengu fá marktækifæri í fyrri hálfleik. Hilmar Þór Kárason skoraði gott mark fyrir Sindra á 55. mínútu en Hamarsmenn jöfnuðu fimm mínútum síðar úr vítaspyrnu sem var strangur dómur séður úr stúkunni. Sindramenn sóttu nokkuð stíft síðasta kafla leiksins og fengu nokkur markfæri til að gera út um leikinn en Hamarsmenn vörðust vel og markmaður þeirra stóð vaktina vel.
Sindramenn fengu lið Fjarðabyggðar í heimsókn á þriðjudaginn í fyrstu umferð bikarkeppninnar. Aðstæður til að leika knattspyrnu voru ekki auðveldar vegna norðvestan roks sem stóð á annað markið og gerði liðunum erfitt fyrir að spila boltanum. Sindramenn léku gegn vindinum í fyrri hálfleik og áttu í vök að verjast þar sem erfitt var að koma boltanum fram völlinn og gestirnir voru grimmari í öllum sínum aðgerðum. Með ákveðni uppskáru þeir fljótlega tvö mörk sem komu bæði eftir hornspyrnur. Sindramenn hresstust eftir því sem leið á hálfleikinn og skoruðu mark rétt fyrir lok hálfleiksins. Fljótlega í seinnihálfleik jöfnuðu okkar menn og komust yfir þrem mínútum fyrir leikslok. Fjarðamenn jöfnuðu á síðustu mínútu, þá orðnir tveimur leikmönnum færri. Í framlengingu var ekkert mark skorað og þurfti vítakeppni og bráðabana til að útkljá úrslitin þar sem okkar menn fara áfram í 32-liða úrslitin.
Hilmar Þór Kárason jafnar leikinn í 2-2.
Næsti heimaleikur meistaraflokks karla er gegn Reyni Sandgerði laugardaginn 18. maí kl. 15:00.