Eystrahorn 19. tbl. 2014

Page 1

Eystrahorn 19. tbl. 32. árgangur

Fimmtudagur 15. maí 2014

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Ungmennaskipti Söderhamn – Hornafjörður Hugmyndin að stofna til ungmennaskipta á milli ungmenna frá Svíþjóð og Íslandi kviknaði eftir að fulltrúar sveitarfélagsins og Nýheima heimsóttu bæinn Söderhamn árið 2012. Í Söderhamn er starfrækt öflugt ungmennahús sem heitir Verkstäderna. Í þessu ungmennahúsi er unnið mjög öflugt starf og öll aðstaða til fyrirmyndar og mikið lagt upp úr því að ungmennin séu virk í allri ákvarðanatöku tengdri skipulagningu rýma og starfinu sjálfu. Í ungmennahúsinu er m.a. að finna tónleikasal, danssal, hljóðver, keilusal, ljósmyndaog myndbandsgerðarstúdíó og margt annað. Í september 2013 fóru tveir starfsmenn á vegum Þrykkjunnar í könnunarferð til Söderhamn eftir að hafa fengið styrk frá Evrópu unga fólksins. Í ferðinni kom strax í ljós góður vilji til samstarfs á milli starfsfólks ungdómshúsanna og ungmennaskiptaverkefnið Youth Port varð til. Í kjölfarið var auglýst eftir þátttakendum í báðum ungdómshúsunum og um 25 krakkar sóttu um að taka þátt og hafa þessir krakkar verið að kynnast á samfélagsmiðlum og vinna að undirbúningi ungmennaskiptaferðanna. Youth Port er þemaverkefni þar sem ungmennin kynna sér

bráðnun jökla á Íslandi og skoða ummerki eftir horfna jökla í Svíþjóð. Mikið er lagt upp úr að þátttakendur læri í gegnum reynslu og skili af sér lokaniðurstöðum sem hægt er að miðla á aðgengilegan hátt. Einnig er verkefnið gert til þess að efla ungmennahúsin og gefa þátttakendum tækifæri til að kynnast menningu annarra ungmenna í öðru landi. Á næstu vikum munu krakkarnir okkar hér á

Hornafirði leita til fyrirtækja um styrki til þess að geta lokað fjármögnun verkefnisins. Sótt hefur verið um styrk til Evrópu unga fólksins eða Erasmus + eins og það kallast núna en sú fjármögnun er c.a 60% af heildarkostnaði. Ungmennin í Söderhamn eru einnig að leita eftir styrktaraðilum í sínum heimabæ. Með von um góðar viðtökur Youth Port krakkarnir

„Nei sko, er ekki smá Svavar í þessari“ Óskar Guðnason opnar málverkasýningu í Pakkhúsinu sunnudaginn 25. maí n.k. Óskar hafði þetta að segja í tilefni sýningarinnar; „Nei sko, er ekki smá Svavar í þessari sagði maður sem var að skoða málverk hjá mér. Jú, sýningin er í anda frænda míns Svavars Guðnasonar en nú eru 95 ár frá fæðingu hans. Svavar fæddist í Heklu á Höfn en hann var einn af merkustu listamönnum Íslands og var einn fárra sem þekktur var fyrir utan landsteinana enda kenndur við Cobrahópinn sem í voru róttækir listamenn þess tíma. Ég er fæddur árið 1951 á Höfn og ólst upp í Heklu sama húsi og Svavar og var oft í pössun hjá Kristínu Björnsdóttir ömmu og Óskari afa frystihússtjóra „Gamla Ljóninu“ eins og hann var stundum kallaður. Afi var bróðir Svavars en Kristín var systir Höskuldar Björnssonar listmálara. Ég man að í stofunni hjá afa og ömmu var stórt expressjónískt málverk eftir Svavar með sterkum rauðum lit í miðjunni eins og hjarta úr risaeðlu sem ég glápti á löngum stundum auk annarra verka hans. Ekki fundust mér síðri fuglamyndir Höskuldar Björnssonar og man vel eftir æðakollunum og rjúpunum enda er Höskuldur sennilega þekkastur fyrir vatnslitamyndir sínar. Margt hefur á daga mína drifið en ég er sjálfmenntaður í málverkinu. Þetta er mín þriðja einkasýning, sú fyrsta var í Canberra í Ástralíu árið 1994 og síðan var sýning í Menningarstofnun Bandríkjanna árið 1995. Verk eftir mig eru í eigu nokkurra stofanna, fyrirtækja og einstaklinga á Íslandi og reyndar líka í útlöndum en ég hef auk abstract listar málað tónlistarmenn þar sem tónlistin hljómar alltaf í eyrunum, svo er nú það. Sýningin verður opnuð sunnudaginn 25. maí kl. 16:00 í Pakkhúsinu á Höfn og stendur yfir í a.m.k. tvær vikur. Allir eru velkomnir á opnunina og ég mun ekki senda út boðskort. Þetta er sölusýning og við opnunina verða léttar veitingar í boði og stutt tónlistaratriði, vonandi óvænt uppákoma.“

www.hornafjordur.is - samfélagsvefurinn okkar


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.