Eystrahorn 20. tbl. 2012

Page 1

Eystrahorn

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Miðvikudagur 16. maí 2012

20. tbl. 30. árgangur

Góð auglýsing og mikil áskorun

Mikilvægt að heimamenn taki þátt í verkefninu

Hugmyndir og tillögur að framtíðarskipulagi Heppu- og Hafnarvíkursvæðisins. Gamlabúðin er á leiðinni á fornar slóðir en sjálfsagt þarf að bíða einhver ár þar til allt svæðið verður endurbyggt. Það er þakkarvert ef svæðið fær smá andlitslyftingu núna með verkefninu sem lýst er hér á síðunni.

Eins og fram kom í auglýsingu í síðasta tölublaði Eystrahorns stendur til að gera mikið átak í umhverfi hafnarsvæðisins og reyndar sem víðast í bænum. Um er að ræða samvinnuverkefni heimamanna (Matís, Ríki Vatnajökuls og Sveitarfélagið) og Ríkissjónvarpsins. Þórhallur Gunnarsson hjá sjónvarpinu hefur umsjón með og stjórnar verkefninu. Í samtali við blaðið sagði hann m.a.: „Við komum með hönnuði en yfirhönnuður er Sigurður Þorsteinsson iðnhönnuður hjá Design Group Italia og með honum starfa Dagný Bjarnadóttir, Örn Smári Gíslason og Egill Egilsson. Á aðeins tveimur dögum 15. og 16. júní munu Hornfirðingar og fremstu hönnuðir landsins ráðast í umfangsmiklar breytingar á hafnarsvæðinu og vonandi víðar í sveitarfélaginu. Á þessum tveimur dögum verða hús máluð, götur, gangstéttir og garðar endurhannaðir og skemmdir lagfærðar. Auð hús fá nýtt hlutverk fyrir menningarog listastarfssemi. Áhersla verður lögð á sérstöðu bæjarfélagsins, samstöðu bæjarbúa og þau gæði sem sveitarfélagið og samfélagið hafa upp á að bjóða. Settur verður upp markaður sem býður upp á matvæli úr

byggðarlaginu, listmuni og hönnun. Vonandi verður þetta skemmtilega samstarfsverkefni til þess að allir íbúar sveitarfélagsins taki sig saman um að fegra, mála, snyrta og lagfæra auk þess sem þeir skemmta sjálfum sér og öðrum. Í lokin er gert ráð fyrir að bæjarbúar fagni árangrinum með vinum og velunnurum og haldi veglega veislu við undirleik tónlistarmanna af svæðinu. Allt verður þetta tekið upp af sjónvarpsfólki og afraksturinn sýndur á RÚV í sumar í nýjum 50 mínútna hönnunarþætti. Framkvæmdir hefjast föstudaginn 15. júní og lýkur kl. 16.00 á laugardegi með matarveislu fyrir bæjarbúa. Hönnuðir þáttarins í samvinnu við íbúa munu leggja mesta áherslu á hafnarsvæðið og umhverfi þess. Vonast er til að fjöldi fólks taki þátt í þessum framkvæmdum auk þess sem listamenn bæjarins skemmti báða dagana. Stór matarmarkaður með afurðum úr héraðinu verður settur upp á laugardeginum. Umsjónarmenn þáttarins munu fylgjast með þessum miklu breytingum, ræða við bæjarbúa, kynnast menningar- og listastarfsemi bæjarfélagsins og bragða á þeim sælkeramat sem verður á boðstólunum.“ Að lokum lagði

Þórhallur áherslu á að árangur og gæði sjónvarpsþáttarins byggðist á að íbúarnir væru tilbúnir að taka þátt í verkefninu og fjölmenntu á svæðið. Vigfús Ásbjörnsson hjá MATÍS hafði þetta segja um fundinn sem haldinn var sl. föstudag; „Fundurinn heppnaðist virkilega vel. Klárlega kom í ljós mikill áhugi hjá framleiðendum handverks og matvæla á svæðinu á að nýta sér varanlega bása í framtíðinni og einnig þegar heimildarmyndin um Hornafjörð verður tekin upp í sumar. Fjölmargir aðilar hafa skráð sig á lista yfir þá sem mikinn áhuga hafa á að nýta sér þetta. Fram kom á fundinum að margir eru búnir að vera bíða eftir þessu tækifæri. Fólk skiptist á hugmyndum þarna á fundinum og kom þá í ljós að hér er til staðar fólk sem hefur reynslu og þekkingu til að vinna að verkefninu. Ákveðið var að mynda starfshóp til að fylgja málinu eftir með m.a. fulltrúum matvælaframleiðenda og handverksfólks.“ Nú er bara að sjá hvernig Hornfirðingar bregðast við og taka þessari áhugaverðu og skemmtilegu áskorun sem gæti orðið ómetanleg auglýsing fyrir samfélagið ef vel tekst til.

38 dagar til Humarhátíðar


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.