Eystrahorn 20. tbl. 31. árgangur
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 23. maí 2013
Humarhátíð á 20 ára afmæli - kallar eftir heimagerðum atriðum Frá Humarhátíð 1995.
Vonir standa til að brottfluttir og íbúar Hornafjarðar eigi eftir að skemmta sér og sínum saman þessa helgi. Undirbúningur fyrir hátíðna er nú þegar hafinn. Kristín Kristjánsdóttir hefur verið ráðin verkefnisstjóri humarhátíðar og er komin með skrifstofuaðstöðu í Ráðhúsi bæjarins. Fundir humarhátíðarnefndar hafa verið fjölmargir og margar góðar hugmyndir komnar í loftið. Nefndin leggur áherslu á blandaða viðburði og skemmtiatriði og þá helst úr samfélaginu Hornafirði. Allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til að hafa samband og vera með. Þeir sem hafa áhuga á að koma fram eða vilja vera með uppákomur víðs vegar um bæinn er bent á að hafa samband við Kristínu í síma 470800 eða á netfagnið humarhatidarnefnd@ hornafjordur.is. Einnig er fyrirtækjum og einstaklingum bent á að hafa samband við Kristínu ef viðburðir á þeirra vegum eiga að vera í dagskrá hátíðarinnar.
David Moyes kom líka til Hornafjarðar Einn mest umtalaði einstaklingur í knattspyrnuheiminum þessa dagana er David Moyes nýr knattspyrnustjóri Manchester United. Íslenskir fjölmiðlar hafa að undanförnu greint frá tengslum hans við land og þjóð. Það vill svo til að David heimsótti Hornafjörð árið 1978 ásamt vini sínum Stewart. Ritstjóri Eystrahorns var þá formaður knattspyrnudeildar Sindra og þjálfari allra flokka. “Ég hafði upphaflega kynnst David Moyes eldri þegar ég var þjálfari unglingalandsliðs Íslands og hafði farið með liðið í æfingabúðir til Skotlands. David skipulagði ferðina og tók þátt í æfingum með okkur enda var hann mjög góður þjálfari sjálfur. Eftir það fór ég allmargar ferðir með lið til Skotlands bæði á vegum FH og Sindra. Í öll skiptin skipulagði David ferðirnar og sinnti hópunum af sérstakri umhyggju allan tímann og David yngri aðstoðaði hann á ýmsan hátt. Við þessi samskipti sköpuðust vinatengsl og í einni Íslandsheimsókn þeirra feðga flaug David yngri ásamt Stewart austur til okkar Ástu í heimsókn í nokkra daga. Þeir aðstoðuðu mig á æfingum og fóru í keppnisferð með yngri flokkunum austur á land. Við keyrðum síðan með þá til Reykjavíkur og sýndum þeim helstu ferðamannastaðina á leiðinni. Því miður var myndavél ekki með í för í því ferðalagi en ein mynd fannst úr ferðalaginu austur á land. Hún er tekin við Djáknadys í Álftafirði þar sem áð var eins og við gerðum gjarnan og köstuðum steinum í dysina. Það vill svo til að David snýr baki í myndavélina og er að teygja úr sér sem ekki var vanþörf á eftir setu í litlu rútunum; hossandi á malarvegunum. Stewart situr á steini við hliðina á honum. Skotlandsferðirnar voru lærdómsríkar og juku áhuga á knattspyrnunni hér á Hornafirði og þátttöku á upphafsárunum. Moyesfjölskyldan á því kannski svolítinn þátt í uppbyggingu og farsælu starfi knattspyrnudeildarinnar sem getur ekki annað en talist skemmtilegt fyrir okkur Sindramenn.”
Það þekkja sig einhverjir á þessari mynd í stúkunni hjá Glasgow Rangers í Skotlandsferð fyrir allmörgum árum. David Moyes eldri er efstur til hægri í brúnum jakka. Áð við Djáknadys. Knattspyrnustjórinn teygir úr sér en þessa stellingu má sjá enn í dag þegar mikið gengur á í leikjum.
Næsti heimaleikur er: Borgunarbikar karla, Sindri – Ýmir miðvikudaginn 29. maí kl. 19:15.