Eystrahorn 20. tbl. 32. árgangur
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 22. maí 2014
Ný göngubrú á Hólmsá Mynd: Kristín Hermannsdóttir
Síðastliðinn föstudag var ný göngubrú yfir Hólmsá við Fláajökul formlega vígð. Verkefnið var styrkt af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og er hluti nýrrar gönguleiðar sem hefur verið nefnd Jöklaleið eða Jöklavegur. Leiðin mun liggja meðfram suðurjaðri Vatnajökuls. Ferðaþjónustan í Hólmi og Ferðaþjónusta bænda á Brunnhóli í samvinnu við sveitarfélagið höfðu frumkvæði að verkefninu. Göngubrúin er hengibrú yfir Hólmsá eins og sést á myndinni og opnar hún aðgengi að Fláajökli og að austurhluta Heinabergssvæðis sem eru hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Með göngubrúnni aukast bæði tækifæri til útivistar og atvinnusköpunar innan Vatnajökulsþjóðgarðs og greið leið opnast inn á mjög áhugavert svæði þar sem finna má óspilltar jökulminjar, bergmyndanir og áhugaverða gróðurframvindu. Svæðið er orðið vinsæll áfangastaður og hefur aðsókn vaxið jafnt og þétt og mun örugglega aukast nú.
Kiwanis- og Lionsklúbbar styðja skólastarfið Grunnskóli Hornafjarðar hefur metnaðarfulla stefnu varðandi það að nýta tæknina sem best til að auka fjölbreytni í kennslu. Síðastliðið haust var hafin innleiðing á spjaldtölvum í kennslu og í sumar fara flestir kennarar skólans á 20 klst. námskeið í tölvuleikjaforritun. Á námskeiðinu verður veitt innsýn í heim tækninnar og möguleika hennar í gegnum tölvuleikjaforritun og er markmið námskeiðsins að þátttakendur fái kynningu á undirstöðuatriðum forritunar og þeim jákvæðu áhrifum sem forritunarkennsla getur haft á börn og unglinga. Einnig verða á námskeiðinu umræður um það hvernig forritun getur nýst í hefðbundnum námsgreinum. Skólinn telur mikilvægt að þjálfa nemendur í að nýta tölvur og tækni sem vinnutæki því í þessum geira felast ómæld tækifæri til náms og uppbyggilegrar vinnu. Tækniframfarir eru mjög örar og er því nauðsynlegt að kennarar hafi tækifæri til að fylgjast með þeim og efla sína fagmennsku með námskeiðum sem þessu. Fyrirtækið SKEMA mun senda hingað kennara og halda þetta námskeið en fyrirtækið sérhæfir sig í kennslu og rannsóknum og hefur sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði að leiðarljósi í starfi sínu. Námskeið sem þessi eru kostnaðarsöm en skólinn er svo heppinn að í samfélagi okkar eru félagasamtök sem hafa trú á því að tæknina sé hægt að nýta til góðs í almennri menntun og hana sé einnig hægt að nýta sem öfluga forvörn. Kiwanisklúbburinn Ós og Lionsklúbbur Hornafjarðar hafa tekið höndum saman um að styrkja skólann með veglegri peningaupphæð
til að halda þetta námskeið svo hefja megi kennslu í þessum fræðum í haust. Klúbbarnir hafa áhyggjur af neyslu ungmenna á tölvutækni, bæði drengjanna sem gjarnan týnast inn í heim tölvuleikjanna og stúlknanna sem festast frekar á spjallsíðum margskonar. Klúbbarnir vilja með þessu reyna að hafa jákvæð áhrif á þróunina og breyta neyslu í sköpun. Fyrir hönd skólans þá þakka skólastjórarnir kærlega fyrir þennan frábæra stuðning.
Íslandsmótið í knattspyrnu laugardaginn 24. maí
Sindravellir..................... kl. 14:00......... 2. deild karla.................. Sindri – KF (Fjallabyggð) Sindravellir .................... kl. 16:30......... 1. deild kvenna.............. Sindri – ÍR Mánavöllur..................... kl. 11:30......... 3. flokkur karla............... Sindri – Grótta
Borgunarbikar karla þriðjudaginn 27. maí
Sindravellir..................... kl. 19:15......... Meistaraflokkur.............. Sindri – KV (Vesturbæingar)
Skil á efni og auglýsingum í næsta blað eru í síðasta lagi kl. 12:00 mánudaginn 26. maí.