Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Miðvikudagur 28. maí 2014
21. tbl. 32. árgangur
Dúxarnir Trausti og Dóra.
Laugardaginn 24. maí s.l. fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni voru útskrifaðir 20 stúdentar og einn af B stigi vélstjórnar. Nýstúdentar eru: Anna Regína Heiðarsdóttir, Daníel Guðmundsson, Dóra Björg Björnsdóttir, Fjóla Ósk Ögmundsdóttir, Guðlaug Jóna Karlsdóttir, Heiða Vilborg Sigurbjörnsdóttir, Hulda Björg Sigurðardóttir, Ingvi Þór Sigurðsson, Júlían Bent Austar Egilsson, Kjalar Þór Jóhannsson, Margrét Vignisdóttir, María Birkisdóttir, Maríus Sævarsson, Nejra Mesetovic, Rannveig Einarsdóttir, Siggerður Aðalsteinsdóttir, Símon Rafn Björnsson, Trausti Sævarsson, Valur Zophoníasson og Þorkell Óskar Vignisson. Vélstjóri af B stigi er Ágúst Jónsson. Að þessu sinni voru það tveir nemendur sem náðu bestum árangri. Það voru þau Dóra Björg Björnsdóttir og Trausti Sævarsson. Eystrahorn óskar útskriftarnemendum til hamingju með áfangann og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.
Samþykkjum ekki unglingadrykkju! Mánudaginn 19. maí s.l. var haldinn fundur með foreldrum í Nýheimum þar sem fjallað var um áfengis- og vímuefnanotkun barna og ungmenna á Hornafirði. Skemmst er frá því að segja að á fundinum hafi verið fámennt en fundargestir sýndu málefninu áhuga og sköpuðust skemmtilegar umræður. Vitaskuld er mikið að gera hjá foreldrum þessa dagana og foreldrar þurftu að skera einhverja fundi niður og sýnum við því að sjálfsögðu skilning og reynum að tímasetja næsta fund okkar betur. Umræðuefni fundarins verður ekki endurtekið hér í þessari stuttu grein en hins vegar viljum við vekja athygli á því að þetta sumar merkir ákveðin tímamót í hugum 10. bekkinga sérstaklega en þetta er sumarið sem mörg þeirra byrja að neyta
áfengis reglulega. Rannsóknir sýna að neysla unglinga á áfengi rúmlega tvöfaldast sumarið milli grunnskóla og framhaldsskóla og breytist meira úr fikti yfir í reglulega neyslu. Hægt er að bera kennsl á ákveðna viðburði sem eru hvað stærstu áhættuþættirnir varðandi ölvun og eru það Hrossó og Sjómannadagshelgin, Humarhátíðin og Verslunarmannahelgin. Þessar helgar eru þær helgar í sumar sem sérstaklega þarf að vera vakandi fyrir áfengis- og vímuefnaneyslu barnanna okkar. Sér í lagi er vert að benda á að næstkomandi helgi er sú helgi sem mörg börn taka fyrsta sopann og er hér með skorað á foreldra að fylgjast með því sem fram fer í Hrossó en starfsfólk skólans hefur orðið vart við meiri titring hjá börnum 10. bekkjar nú
en oft áður fyrir helginni. Þá skal einnig á það bent að undanfarin misseri hefur fikt og neysla kannabisefna s.s. marijuana og hass, verið töluvert áberandi í sveitarfélaginu og er ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri þróun. En þrátt fyrir allt er það svo að skv. rannsóknum verða flest ungmenni ölvuð í fyrsta skipti í heimahúsi og því ber einnig að vara við því að þegar við leyfum börnunum okkar að halda eftirlitslaus partý heima fyrir erum við oft á tíðum að samþykkja neyslu þeirra en einnig að bjóða öðrum börnum upp á vettvang til að neyta áfengis, gjarnan í fyrsta skipti. Verum vakandi í sumar og samþykkjum ekki áfengisneyslu ungmenna. Aðgerðahópur í lýðheilsu og forvörnum.
Þín rödd okkar vinna