Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 16. júní 2011
24. tbl. 29. árgangur
Golfdagur fjölskyldunnar
Golfdagur fjölskyldunnar er á laugardaginn kemur. Af því tilefni býður Golfklúbbur Hornafjarðar fólki að koma á Silfurnesvöllinn milli kl. 13:00 og 16:00 og kynna sér þessa frábæru fjölskylduíþrótt. Leiðbeinendur verða á æfingasvæðinu og meðal leiðbeinenda verður Ragnhildur Sigurðardóttir margfaldur Íslandsmeistari. Boðið verður upp á pútt- og vippkennslu.
Ragnhildur Sigurðardóttir
Golfþrautir og hoppukastalar. Veitingar í golfskálanum í boði klúbbsins. Frítt er á völlinn og allir velkomnir. Fólk er hvatt til að nota þetta tækifæri til að kynnast góðri fjölskylduíþrótt. Ragnhildur Sigurðardóttir golfkennari verður svo með golfkennslu um helgina. Um er að ræða einkakennslu og nánari upplýsingar gefur Gísli Páll í síma 899 2436.
Opnun Listasafns Hornafjarðar Föstudaginn 24. júní nk. opnar nýr sýningasalur Listasafns Hornafjarðar við hátíðlega athöfn. Salurinn er til húsa í gömlu slökkvistöðinni og opnunarsýningin er á verkum Svavars Guðnasonar. Sýningar verða á verkum Svavars á sumrin en yfir vetrartímann verður fjölbreytt dagskrá innlendra og erlendra listamanna og til að mynda verður sýning á verkum Þorleifs Jónssonar frá Hólum á haustmánuðum. Svavar Guðnason fæddist á Hornafirði 18. nóvember 1909 og fór hann til náms til Reykjavíkur og síðar til Kaupmannahafnar þar sem hann kynntist konu
sinni, Ástu Eiríksdóttur frá Borgarfirði Eystra. Ásta helgaði líf sitt listamanninum og tryggði þeim lifibrauð. Svavar lést í júní 1988 og eftir andlát hans lagði Ásta mikla áherslu á að verkum hans yrði sýndur sá sómi sem þau eiga skilið. Ásta gaf heimasveit Svavars fjöldan allan af verkum og einnig bárust höfðinglegar gjafir úr dánarbúi Svavars og Ástu þegar hún lést í febrúar 2008. Hluti Listasafns Hornafjarðar verður tileinkaður Ástu í svonefndri Ástustofu. Menntamálaráðherra opnar nýja sýningasalinn og hefst athöfnin kl 16:00, allir velkomnir.
Svavar Guðnason, 1946, Gullfjöll. Olía á striga.