Eystrahorn 26. tbl. 32. árgangur
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 14. ágúst 2014
Ljótt er ef satt er Á hverjum degi heyrum við fréttir um að meðalþyngd Íslendinga, félagsfælni og þunglyndi séu að ná nýjum hæðum. Búast má við að þetta gildi um okkur Skaftfellinga líkt og aðra og þó þetta sé ekki góðar fréttir þá er gott að vita til þess að það er hægt að breyta þessu ástandi. Ein besta leiðin er aukin hreyfing og þess vegna ætlum við að koma okkur Íform 2014. Við í undirbúningsnefndinni erum búin að hittast og höfum verið að ráða ráðum okkar um hvernig við getum spýtt í til að koma Hornfirðingum og öllum þeim sem treysta sér til að mæta á mótið í betra andlegt og líkamlegt form. Verið er að endurskoða verðskrána, heimasíðuna og ekki síst hvernig við getum aukið þátttökuna í lokakvöldinu. Frekari upplýsingar þegar nær dregur. Reiknað er með að hafa sömu greinar og verið hafa en plássleysi og tímaleysi koma í veg fyrir fjölgun greina. Vegna dræmrar þátttöku í drottningarboltanum fellur hann niður. Heimasíða mótsins er „iformi.is“ og við erum á Facebook. Íformi verður 5. og 6. september. Æfingar eru hafnar
eða að hefjast og þar sem við búum svo vel hér á Hornafirði þá getum við leyft okkur þann munað að vera annað hvort úti eða inni með æfingar í flestum greinum, allt eftir því hvernig viðrar. Golfarar nota völlinn óspart þar sem hann er alltaf opinn. Bridsspilarar hafa það fram yfir golfarana að þeir geta æft allan sólahringinn í tölvunni svo það er náttúrulega upplagt að spila brids á nóttunum og golf á daginn. Hjóna- og fjölskyldulíf verður jafnvel að víkja ef menn ætla að koma í sínu besta formi á mótið en gangið samt ekki fram af ykkur. Þegar fólk er komið í fínt form er kjörið að skrá sig í Gangnamannafélag Austur- Skaftafellssýslu. Það verða vonandi smalagöngur við allra hæfi í haust. Skráning er hjá Grétari Má Þorkelssyni á netfanginu gretar@bssl. is. Að elta rollur um fjöll og firnindi er góð líkamleg æfing og getur reynt á andlegu hliðina. Ekki er vitað til að neinn hafi sturlast við þann eltingaleik þó oft hafi látið nærri. Við hlökkum til að sjá ykkur. Nefndin
Örnefni í Mjóafirði -síðasta bók Vilhjálms á Brekku
Æfingatafla
Frjálsar............sunnud........................ kl. 17:00....Sindravellir Fótbolti............þriðjud. og fimmtud...... kl. 19:30....Báran Blak ................mánud. og miðvikud.... kl. 19:30....Strandvellir Brennibolti.......þriðjud. og fimmtud...... kl. 17:30....Báran Hnit.................þriðjud. og fimmtud...... kl. 17:00....Mánagarður
Á hraða íss frá jökli til sjávar
Þann 20. september næstkomandi hefði Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku í Mjóafirði orðið 100 ára. Af því tilefni kemur út hjá Bókaútgáfunni Hólum vandað rit eftir hann, Örnefni í Mjóafirði. Þar verður að finna á 320 blaðsíðum örnefnaskrá allra jarða við Mjóafjörð, ásamt frásögnum tengdum örnefnunum og öðrum fróðleik. Í bókinni verða einnig kort, litmyndir sem örnefni hafa verið merkt inn á og fjöldi annarra mynda. Þegar byrjað var að búa umrædda bók til prentunar sagði Vilhjálmur svo frá að „annaðhvort verður þetta afmælisrit eða minningarrit“. Því miður verður hið síðarnefnda ofan á. Aftast í bókinni verður Tabula memorialis (minningarskrá) og þar geta þeir sem heiðra vilja minningu Vilhjálms fengið nafnið sitt skráð og um leið gerst áskrifendur að bókinni sem kostar kr. 6.480- m/vsk og sendingargjaldi. Hægt er að panta bókina fram til 15. ágúst í netfanginu erna@holabok.is eða í símum 690-8595/587-2619.
Gelid Phase, visual sound performance, er samstafsverkefni milli sænskra hljóðlistarmanna og íslenskrar listakonu, Ragnheiðar Bjarnason. Verkið er sjónræn hljóðlist sem inniheldur hreyfingar, hljóðverk og myndbands-list. Verkið er sprottið upp úr hugmyndum um hraða nútíma samfélagsins og hvernig allt gerist á ljóshraða óháð formi. Sýningin vísar í bráðnun heimskautspólanna með ádeilu í mannanna verk er kristallast í loftslagsbreytingum og súrnun sjávar sem er án efa áhyggjuefni allrar heimsbyggðarinnar. Hópurinn verður á sýningarferð um Ísland í ágúst og mun sýna í Listasal Svavars Guðnasonar á Höfn í Hornafirði, Sláturhúsinu Egilstöðum og Dansverkstæðinu Skúlagötu, Reykjavík. Sýningar á Höfn verða 19. ágúst klukkan 12:15 og 20. ágúst klukkan 17:00. Allir velkomnir.
Bókaútgáfan Hólar
Starfsfólk Listasafns Svavars Guðnasonar
- Nútíma danssýning í Listasafni Svavars Guðnasonar 19. og 20. ágúst -