Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 21. ágúst 2014
27. tbl. 32. árgangur
Youth Port ungmennaverkefni
Þann 7. ágúst komu til landsins ungmenni frá Svíþjóð og hófst þá Youth Port verkefnið sem hefur verið lengi í undirbúningi hjá félagsmiðstöðinni Þrykkjunni og ungmennahúsi Söderhamn. Eins og sagt hefur verið frá áður þá fjallar verkefnið um jökla, hlýnun loftslags og áhrif þess á landslagið. Markmið verkefnisins er einnig að efla æskulýðsstarfið í ungmennahúsunum og gefa þátttakendum tækifæri til að læra á óformlegan hátt um náttúru og menningu annars lands. Þegar búið var að sækja sænska hópinn á Keflavíkurflugvöll var strax haldið austur á Hornafjörð. Hópurinn var þreyttur eftir langt ferðalag en tilhlökkunin mikil að hefja verkefnið daginn eftir. Um morguninn 8. ágúst hittust allir þátttakendur í Heppuskóla en hópurinn frá Svíþjóð gisti þar allan tímann. Strax var farið að keyra dagskrána og fyrst var haldinn kynningarfundur um Erasmus plús styrktaráætlunina og Evrópu Ungafólksins en það eru helstu styrktaraðilar verkefnisins. Eftir kynningarfundinn þá var farið í hópefli og kom þá strax í ljós að allir þátttakendur náðu mjög vel saman. Eftir hópefli var farið í göngutúr um bæinn en okkar ungmenni höfðu undirbúið kynningu um sögu bæjarins og helstu hús
og kennileyti. Að því loknu var Vöruhúsið skoðað hátt og lágt. Það var fyrirfram ákveðið að fyrsti dagurinn færi í það að láta hópinn kynnast og því var farið í sund og um kvöldið var smá skemmtun í Vöruhúsinu þar sem þau fóru í leiki af ýmsu tagi. Næstu fjóra daga eða frá 9. til 12. ágúst var stíf dagskrá þar sem unnið var í þema verkefnisins. Hér er upptalning á því sem meðal annars var gert: Siglt á Jökulsárlóni, unnið verkefni um lónið og bráðnun jökulsins, ísjakar í fjöru skoðaðir og dýralíf við lónið. Komið við á Þórbergssetri, bleikjueldi skoðað og fjósið á Hala. Hoffellsjökull og Hoffellslón skoðað og farið í heitu pottana. Farið í gönguferð frá Skálafellsjökli (frá brúnni) að Heinabergslóni. Víkingaþorpið skoðað og fjöruferð. Einnig voru haldnir vinnufundir og ráðstefna þar sem Helga Þórelfa Davids sérfræðingur hélt fyrirlestur um Vatnajökulsþjóðgarð og loftlagsbreytingar. Snævarr Guðmundsson landfræðingur hélt einnig fyrirlestur um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á erlenda og íslenska jökla. Við viljum þakka þeim fyrir fagleg og fræðandi erindi sem vöktu mikla athygli hjá hópnum. Á milli þess að vinna verkefni, fara í skoðunarferðir og sitja fyrirlestra þá var alltaf stutt í fjörið og
haldin voru skemmtikvöld og íþróttakvöld í Mánagarði og spilað og sungið við hvert tækifæri. Einnig voru krakkarnir duglegir að elda saman og fræðast um menningu og líf hvers annars. Það var því með trega sem íslensku þátttakendurnir kvöddu þau sænsku á planinu fyrir framan Heppuskóla og haldið var á Keflavíkurflugvöll með viðkomu á Geysi, Gullfossi og Þingvöllum. Næstu skef í Youth Port eru að okkar krakkar fara út til Söderhamn 16. ágúst þar sem skoðuð verða svæði þar sem löngu horfnir jöklar hafa mótað náttúruna. Það eru allir mjög spenntir í hópnum og hlakka til að takast á við næsta hluta verkefnisins. Við viljum þakka þeim fyrirtækjum sem hafa lagt okkur lið. Sérstaklega viljum við þakka útgerð Sigðurðar Ólafssonar fyrir fjárstuðning og fyrir að hafa gefið humar. Við viljum einnig þakka Kaffi Horninu, Þórbergssetri og Grunnskóla Hornafjarðar fyrir að hafa lánað okkur skólastofur og matreiðslustofu. Youth Port hópurinn mun halda áfram með fjáröflun á næstu vikum og þeir sem vilja leggja verkefninu lið er bent á að hafa samband við Vilhjálm eða Dagbjörtu Ýr tómstundafulltrúa. Áfram Youth Port. Þrykkjan
Blað sem eflir bæjarbrag og berst í sérhvert hús