Eystrahorn 28. tbl. 28. árgangur
Fimmtudagur 12. ágúst 2010
Eystrahorn
Einstök fegurð allt árið
Bókaútgáfan Opna hefur gefið út bókina Jökulsárlón – árið um kring eftir Þorvarð Árnason. Þetta er fyrsta bókin í bókaflokknum Einstakir staðir á Íslandi. Jökulsárlón kemur úr í fjórum útgáfum; íslenskri, enskri, franskri og þýskri. Jökulsárlón á Breiðamerkursandi er einstakur staður og hefur á síðustu tíu árum eða svo orðið nokkurs konar táknmynd Íslands í augum umheimsins. Staðurinn hefur lengi verið þekktur meðal erlendra ferðamanna og núorðið fara fáir þeirra burt frá Íslandi án þess að hafa heimsótt Lónið. Aðdráttarafl þess er líka augljóst hverjum þeim sem þangað kemur, bæði Íslendingum og útlendingum, og ótrúlega fallegar
myndirnar hafa fangað þetta afl á einstakan hátt. Þær eru teknar yfir allt árið á ólíkum tíma dagsins og sýna vel fjölbreytileika lónsins í mismunandi veðri og birtu. „Jakarnir, jöklarnir og fjöllin, sjórinn, sandurinn, sólin og vindurinn – þessir þættir knýja einstakt samspil jarðfræðilegra fyrirbæra og krafta. Þetta samspil er síbreytilegt og því eru það ekki aðeins jakarnir sem eru stöðugt á hreyfingu, heldur öll ásýnd Lónsins. Við þessa kviku mynd bætist síðan lífið sjálft, því þessir sömu þættir skapa einnig skilyrði fyrir fjölskrúðugt og sérstakt lífríki“ segir höfundurinn í stuttum inngangi. Þorvarður Árnason hefur búið á Höfn í Hornafirði frá árinu 2006
og er forstöðumaður Fræðasetursins á Hornafirði og jafnframt sérfræðingur í umhverfismálum við Háskóla Íslands. Hann er doktor í umhverfisfræðum og einnig líffræðingur og kvikmyndagerðarmaður að mennt. Þorvarður hefur fengist við ljósmyndun og kvikmyndagerð um þriggja áratuga skeið, þegar
tækifæri hefur gefist frá öðrum störfum. Hann hefur haldið þrjár einkasýningar á ljósmyndum og einnig gert nokkrar stuttmyndir. Jökulsárlón – Árið um kring er fyrsta ljósmyndabók Þorvarðar. Fleiri myndir eftir hann má sjá á www.thorri.is.
Blað sem eflir bæjarbrag og berst í sérhvert hús