Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 29. ágúst 2013
28. tbl. 31. árgangur
Yfirlýsing frá Hjalta Þór Vignissyni bæjarstjóra Síðastliðin níu ár hef ég gegnt ábyrgðarstarfi hjá Sveitarfélaginu Hornafirði, þar af síðustu sjö ár sem bæjarstjóri. Sá tími hefur verið skemmtilegur og viðburðaríkur. Öll þessi ár hef ég starfað með góðu fólki, bæði kjörnum fulltrúum og starfsfólki sveitarfélagsins. Eftir umhugsun síðustu vikur og mánuði komst ég að þeirri niðurstöðu að rétt væri að sækjast ekki eftir að gegna starfi bæjarstjóra að loknu yfirstandandi kjörtímabili. Það er mitt mat að ekki sé farsælt fyrir samfélagið að sami einstaklingur gegni starfi bæjarstjóra of lengi. Ætlunin var að starfa út kjörtímabilið en nýverið sá ég auglýsingu frá Iceland Pelagic ehf. um áhugavert starf. Í stuttu máli hefur félagið ráðið mig til starfa frá og með 1. nóvember nk. Þá læt ég af störfum
sem bæjarstjóri Hornafjarðar. Nýja starfið er spennandi, hjá fyrirtæki sem hefur byggst jafnt og þétt upp á síðustu misserum. Þar gefast tækifæri til að auka við þekkingu mína og færni. Það skipti ekki síður máli að starfstöðin er á Höfn, þar sem fjölskyldunni hefur liðið vel og við viljum búa áfram. Efst í huga er þakklæti til allra sem hafa starfað með mér og stutt mig í starfinu. Íbúar hafa frá fyrstu tíð verið hvetjandi og sýnt vináttu fremur en nokkuð annað. Það hafa verið forréttindi að gegna starfi bæjarstjóra Hornafjarðar. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka íbúum, starfsfólki og kjörnum fulltrúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar samfylgdina í öll þessi góðu ár. Hornafirði 27. ágúst 2013 Hjalti Þór Vignisson
Hjalti Þór lengst til vinstri ásamt bæjarfulltrúum við upphaf kjörtímabilsins.
Yfirlýsing frá Framsóknarmönnum í bæjarstjórn Hornafjarðar Við undirritaðir fulltrúar í meirihluta Framsóknarmanna í bæjarstjórn Hornafjarðar virðum ósk Hjalta Þórs Vignissonar bæjarstjóra um lausn frá störfum frá og með 1. nóvember 2013 og óskar honum góðs gengis á nýjum vettvangi með kæru þakklæti fyrir samstarfið. Aldrei hefur borið skugga á samskipti meirihlutans og bæjarstjóra í öllum þeim krefjandi verkefnum sem unnið hefur verið að á kjörtímabilinu, hópurinn hefur unnið saman sem einn maður í góðri samvinnu við fulltrúa annarra framboða í bæjarstjórn. Tímamótin ber brátt að og óðum
styttist í sveitarstjórnarkosningar sem verða vorið 2014. Meirihluti Framsóknarmanna er sammála um að Ásgerður K. Gylfadóttir, núverandi formaður bæjarráðs, taki við starfi bæjarstjóra út kjörtímabilið. Ásgerður hefur öðlast mikla reynslu af bæjarmálum frá því að hún settist í bæjarstjórn, sem forseti bæjarstjórnar ásamt því að gegna formennsku í skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd. Auk þess hefur hún mikla reynslu af starfi í heilbrigðisog öldrunarmálum sem og af stjórnun vegna starfa sinna sem hjúkrunarstjóri á hjúkrunarsviði Heilbrigðisstofnunar
Suðausturlands. Ásgerður mun taka tímabundið leyfi frá störfum sínum þar, fram að næstu kosningum. Framundan er undirbúningur að síðasta hluta kjörtímabilsins. Áherslur framboðsins verða þær sömu og áður, að halda fjárhag sveitarfélagsins í föstum skorðum, vinna að endurbótum mannvirkja eftir efnum og ástæðum og búa í haginn fyrir íbúa sveitarfélagsins á allan hátt. Reynir Arnarson, Ásgerður K. Gylfadóttir, Kristján S. Guðnason, Ásgrímur Ingólfsson.
Þjónustufulltrúi og gjaldkeri Starfsmannabreytingar eru þessa dagana í Ráðhúsi Hornafjarðar. Linda Hermannsdóttir er komin til starfa í stöðu þjónustufulltrúa en hún mun starfa í afgreiðslu Ráðhússins, taka á móti erindum, reikningum og starfa í skjalavinnslu sveitarfélagsins. Hrafnhildur Magnúsdóttir er tekin við starfi gjaldkera sveitarfélagsins en
hún hefur umsjón með reikningagerð fyrir sveitarfélagið og HSSA ásamt innheimtu reikninga og eftirfylgni innheimtu. Einnig hefur hún umsjón með greiðslu húsaleigubóta. Eru þær boðnar velkomnar til nýrra starfa en jafnframt er Lúcíu Óskarsdóttur þakkað fyrir störf sín í þágu sveitarfélagsins sem fráfarandi gjaldkeri.
Heimasíða sveitarfélagsins fær nýtt lén 1. september nk., hornafjördur.is rikivatnajoluls.is færist yfir á, Ríki Vatnajökuls ferðaþjónustu-, matvælaog menningarklasa, visitvatnajokul.is