Eystrahorn Fimmtudagur 19. ágúst 2010
29. tbl. 28. árgangur
Eystrahorn
Handverksmaður ársins 2010 Ragnar Arason frá Borg var valinn handverksmaður ársins 2010 á Handverkssýningunni á Hrafnagili um daginn. Eystrahorn ræddi við Ragnar sem hafði þetta að segja um áhuga sinn og smíðina; “Það var til heimasmíðaður rennibekkur heima á Borg sem Hálfdán á Bakka smíðaði og við strákarnir vorum að fikta við. Kannski byrjaði áhuginn þar. Þegar leið að starfslokum á vinnumarkaði fór ég að hugleiða hvað ég gæti gert ef heilsan leyfði, vildi vera undirbúinn fyrir þessi tímamót. Um þetta leyti sá ég auglýsingu um námskeið í rennismíði og ákvað að sækja það. Eftir námskeiðið fór ég svo að æfa mig og fann að þetta átti vel við mig. Síðan fór ég aftur á annað námskeið hjá Kristjáni Jóhannssyni í Kópavogi og þá var ekki aftur snúið. Ég hef aðstöðu í bílskúrnum þar sem ég hef bæði stóran rennibekk og annan lítinn sem ég get tekið með mér til dæmis upp í Ekru þar sem ég hef félagsskap meðan ég er að renna smærri hluti. Fólk sem kom í heimsókn og sá hlutina sem ég var að renna fór að falast eftir hlutum og því lá beinast við að koma þeim í sölu í Handraðanum. Það hefur gengið bara ágætlega að selja þar miðað við hvernig handverk selst almennt. Það var fyrir hvatningu að ég hef farið á
hina árlegu handverkssýningu á Hrafnagili í Eyjafirði. Ég hef farið þangað síðustu tíu ár með tveimur undantekningum. Sýningin er góður vettvangur til að koma sér á framfæri. Þetta er menningarleg samkoma og fjölbreytt handverk til sýnis þarna. Já, ég vinn mest úr íslenskum viði birki, reyniviði og gullregni sem er í mestu uppáhaldi hjá mér en það er erfiðara að útvega sér það. Sömuleiðis nota ég ösp sem er meðhöndluð á sérstakan hátt. Ég þurrka hana ferska í örbylgjuofni og þá helst hún hvít og falleg. Ég fæ efnið úr ýmsum áttum meðal annars fékk ég mikið af reynivið úr kirkjugarðinum á Stafafelli. Svo færir fólk mér tré en harðviðinn þarf ég að kaupa. Mest renni ég af alls konar skálum, eggjabikurum, eftirlíkingum af mjólkurbrúsum, mjólkurfötum og strokkum. Sömuleiðis töluvert af pennum og taflmenn líka. Ég hef mesta ánægju af að renna hluti sem þarf útsjónarsemi við og er svolítil áskorun.”
Sveinbjörg og Einar Ásgeir í landsliðið Frjálsíþróttafólkið okkar í USÚ, Sveinbjörg Zophoníasdóttir og Einar Ásgeir Ásgeirsson, hefur verið valið í unglingalandslið Íslands sem keppir á Norðurlandameistaramótinu sem fram fer að þessu sinni á Akureyri 28. - 29. ágúst nk. Einar keppir í 1500 m hlaupi og Sveinbjörg í langstökki og
4x100 m boðhlaupi. Ísland og Danmörk mynda sameiginlegt lið en hin Norðulöndin, Finnland, Noregur og Svíþjóð sem eru miklar frjálsíþróttaþjóðir mæta hver með sitt lið. Hér er um að ræða mjög sterkt mót enda Norðurlandaþjóðirnar með mikla hefð og gott uppbyggingarstarf hjá börnum og ungmennum.
Blað sem eflir bæjarbrag og berst í sérhvert hús