Eystrahorn 29. tbl. 2014

Page 1

Eystrahorn 29. tbl. 32. árgangur

Fimmtudagur 4. september 2014

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Flugeldasýning á Jökulsárlóni í fjórtánda sinn! Flugeldasýningin á Jökulsárlóni er löngu orðin að árvissum viðburði og var hún haldin laugardagskvöldið 23. ágúst s.l. í fjórtánda sinn. Sýningin sem var glæsileg að vanda stóð yfir í um 40 mínútur og mættu um 1700 manns til að upplifa sjónarspilið. Rútuferðir voru frá Höfn, Skaftafelli og Klaustri sem allar voru vel nýttar enda er viðburðurinn mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Var eftirtektarvert í ár hve mikið erlendum ferðamönnum hefur fjölgað á sýningunni. Sýningin er samstarfsverkefni á milli ferðaþjónustunnar Jökulsárlóni, Björgunarfélags Hornafjarðar og Ríkis Vatnajökuls en upphaflega hélt Einar Björn á Jökulsárlóni hana fyrir starfsfólkið sitt um verslunarmannahelgar til þess að þeir gætu gert sér dagamun eins og aðrir þá helgi. Hratt barst hróður þessarar flottu flugeldasýningar og fljótlega fór annað heimafólk að mæta á sýninguna auk þess sem gestir á nærliggjandi svæðum í Suðursveit og Öræfum mætti einnig til að upplifa ljósadýrðina. Með auknum fjölda jókst þörfin á vörslu á svæðinu og er henni nú sinnt af Björgunarfélagi Hornafjarðar sem einnig leggur til flugelda sýningarinnar. Ferðaþjónustan Jökulsárlóni leggur metnað í að stilla sýningunni sem

Ljósmynd: Stephan Mantler.

flottast upp og Ríki Vatnajökuls kynnir viðburðinn innanlands sem utan svo sem flestir fái notið. Aðgangseyrir sýningarinnar rennur óskiptur til Björgunarfélagsins og kemur sér vel við þau fjölmörgu verkefni sem sveitin tekur að sér. Ber sveitin öllum sem að

sýningunni komu og öllum þeim fjölmörgu gestum sem mættu á viðburðinn bestu þakkir fyrir stuðninginn. Árdís Erna Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Ríkis Vatnajökuls.

Hólmar Hallur aflahæstur á landinu

Hólmar Hallur Unnsteinsson trillukarl á Huldu SF var aflahæstur á landinu af strandveiðimönnum. Í viðtali við hann kom m.a. fram; „Veiðarnar í sumar hafa gengið sæmilega, en oft var erfitt að finna þorskinn. Það er ekki hægt að ganga að honum vísum eins og var hægt hérna fyrir nokkrum árum. Veðrið í sumar var einstaklega gott og hægt að stunda veiðarnar af krafti. Þrátt fyrir gott veður þurftum við hér á Hornafirði ansi oft að nota allan okkar tíma sem okkur er skammtaður til veiðanna. Hver veiðiferð

má ekki standa lengur en 14 klst. frá höfn í höfn og oft náðist skammturinn ekki á þeim tíma. Skammturinn er 650 þorskígildi, en það jafngildir 774 kg af óslægðum þorski, eða 944 kg af ufsa.Fiskurinn var mjög góður, uppistaðan í aflanum hjá mér var þorskur (rúm 27 tonn) og ufsi (15 t). Verðið var lágt í byrjun sumars, en þegar leið á hækkaði það og þá aðallega vegna brælu á miðunum annarsstaðar á landinu. Það eru nú engin helstu mið, menn róa yfirleitt á þau svæði þar sem veður er gott. En svæðið sem við höfum verið að veiða á er frá Ingólfshöfða og langleiðina að Papey og því stundum ansi langt að sækja skammtinn. Mig grunar að afkoma trillukarla sé mjög misjöfn. En ef menn stunda þetta krafti og leggja sig alla fram þá ætti þetta alveg að geta gengið.“

Slær gömlu körlunum við Til gamans má geta þess að Hólmar er fjórði ættliður trillukarla sem allir eru ennþá að; „Já, Sigurður Jónsson (Siggi Bessa) langafi minn gerir út bátinn Glað SU á net og handfæri frá Djúpavogi. Þráinn Sigurðsson afi gerir út

bátana Emily SU á handfæri, Birnu SU á net og Amöndu SU nýjan 31 Cleopatra netabát. Unnsteinn Þráinsson faðir minn gerir út bátinn Sigga Bessa sem er Cleopatra 38 á línu og handfæri. Svo er ég með Huldu SF á handfærum.“

Heildarafli strandveiðibáta á Hornafirði í sumar Kg. Róðrar Hulda............................43.310.............. 55 Örn II............................36.912.............. 55 Sæunn...........................36.498.............. 52 Auðunn.........................30.191.............. 44 Herborg........................27.143.............. 40 Von SF..........................26.879.............. 45 Jökull............................26.782.............. 43 Uggi..............................25.542.............. 41 Húni..............................20.718.............. 49 Stígandi........................15.998.............. 30 Rún..................................7.318.............. 15 Staðarey..........................4.695.............. 18 Lundi..............................4.003................ 9

www.hornafjordur.is - samfélagsvefurinn okkar


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.
Eystrahorn 29. tbl. 2014 by Héraðsfréttablaðið Eystrahorn - Issuu