Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 1. september 2011
30. tbl. 29. árgangur
Þorri í Ríki Vatnajökuls
Nú fer í hönd síðasta sýningarvika á ljósmyndasýningu Þorvarðar Árnasonar Veturinn í Ríki Vatnajökuls. Sýning Þorra er sú fyrsta sem sett er upp í nýrri afgreiðslu Ráðhúss Hornafjarðar sem jafnframt þjónar sem móttaka og forsalur fyrir Listasafn Svavars Guðnasonar. Sýningin er opin milli kl. 09:00-12:00 og 13:00-15:30 alla virka
daga. Þorri sagði tilgang sýningarinnar vera tvíþættan: Annars vegar að sýna úrval mynda sem hann hefur verið að taka í ferðum sínum vítt og breitt um Hornafjörð s.l. 4-5 vetur og hins vegar að vekja athygli á einstakri fegurð svæðisins í vetrarbúningi og frábærum útivistarmöguleikum þar, jafnvel í svartasta skammdeginu.
„Hornafjörður er sannkölluð paradís fyrir ljósmyndara allan ársins hring og jafnvel enn frekar að vetrarlagi því birtan og litirnir á jöklunum og himninum geta verið hreint ótrúlegir.“ bætti ljósmyndarinn við. Sýningin er sett upp í samvinnu við Menningarmiðstöð Hornafjarðar og með styrk frá Menningarráði Suðurlands
Skin og skúrir í fótboltanum Vonbrigði Það voru vonsviknir leikmenn og áhorfendur sem gengu frá Sindravöllum á þriðjudagskvöldið. Eftir að meistaraflokkur karla hafði unnið sannfærandi útisigur á KB í úrslitum 3. deildar með 3 mörkum gegn 1 en töpuðu síðan heimaleiknum 3 – 0. Það var ljóst í fyrrihálfleik að leikmenn áttu ekki sinn besta dag og náðu sér ekki almennilega á strik í öllum leiknum. Nú er draumurinn um að fara upp um deild úr sögunni í ár en það góða uppbyggingarstarf sem Óli Stefán þjálfari hefur unnið tvö undanfarin ár verður að halda áfram. Fótboltinn er vinsælasta íþrótt víðast hvar í heiminum m.a. vegna þess að úrslit eru oft óvænt eins og nú sannaðist. Nú þurfa strákarnir að byrja að undirbúa næsta tímabil og setja stefnuna áfram á að fara upp um deild, það kemur með þolinmæði.
Góður árangur yngri flokka Stúlkurnar okkar í 4. flokki kvenna urðu Íslandsmeistarar í 7-manna bolta og fengu verðlaun sín afhent á Sindravöllum á þriðjudaginn í hálfleik meistaraflokks karla. Þessar stúlkur og aðrir stúlknaflokkar hafa sýnt að framtíðin er björt í kvennafótboltanum hjá Sindra.
Á þessari mynd er 3. flokkur karla sem varð í öðru sæti á Íslandsmótinu í 7-manna bolta. Úrslitakeppnin fór fram á Sindravöllum um helgina. Hreinn úrslitaleikur var í lokin milli Sindra og Snæfellsnes. Leikurinn var frábær skemmtun fyrir áhorfendur, hraður og spennandi allt til loka. Leiknum lauk með jafntefli en það dugði Snæfellingum til sigurs í mótinu þar sem þeir höfðu einu marki betur í heildina.