Eystrahorn 31. tbl. 30. árgangur
Fimmtudagur 13. september 2012
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Af landbúnaði
Nú er sumar senn á enda og haustið farið að minna hressilega á sig (með 25 metrum á sekúndu þegar þetta er skrifað). Uppskerustörfum sumarsins að mestu lokið og göngur hafnar. Sumarið var misgott til landbúnaðar eftir svæðum á landsvísu og fóru bændur í Austur – Skaftafellssýslu ekki varhluta af því. Miklir þurrkar fram eftir vori gerðu það að verkum að gróður fór seint af stað, bæði í ræktarlöndum og eins í úthaga. Gefa þurfti fé lengur fram eftir vori en áður þar sem gæsin hreinsaði vorbeitina af túnum víða. Heyskapur byrjaði seinna en vant er og eru sumir að ljúka heyskap núna. Heyfengur var misgóður eftir hreppum hér í sýslu en heilt yfir má segja að uppskera sé um 30% minni þó kannski síst í Nesjum og Öræfum. Talsvert af túnum brann einnig í sumar vegna þurrka og þá hvað mest í Lóni og á Heinabergsaurum í Suðursveit og einnig á Mýrum. Eins og sjá má á myndinni hér að ofan sem tekin er á Heinabergsaurum 20. júlí er ekkert gras komið og túnið algult. Á einu túni í Lóni þar sem vanalega fást á milli 80 og 90 rúllur komu einungis 19 í sumar. Var það tún slegið svo grasið sem komið var brynni ekki. Ágætis heyskapur var víða í Nesjum en þar er moldar- og mýrarjarðvegur sem ekki er eins viðkvæmur fyrir þurrkum og aurajarðvegur. Kartöfluupptöku í sýslunni er að mestu lokið og var uppskera með mesta móti þrátt fyrir tíðarfarið. Sömu sögu er ekki að segja annarstaðar af landinu og þá helst norðanlands.
Hefurðu áhuga á að fara í göngur? Nú eru smalanir að hefjast og sýnast bændum lömbin ágæt. Venjulega fara margar vinnustundir í göngur og réttir hér í sýslu og landið miserfitt yfirferðar. Hjá flestum bændum er þetta skemmtilegur tími þar sem gaman getur verið að ganga um fjöll eftir fénu og ekki síst þegar vel gengur. Það er hinsvegar svo að ekki tekst að manna allar göngur þar sem oft er smalað á mörgum stöðum sömu dagana. Því var það að frumkvæði stjórnar Ungmennafélagsins Sindra að kalla saman fund með forsvarsmönnum UMF Sindra, Björgunarfélagsins og Ferðafélagsins til að ræða möguleikana á því hvort að áhugi væri hjá bændum á að fá aðstoð við smalanir. Þá gæfist bæjarbúum sem áhuga hafa á að ganga um fjöll að fara með bændum til smalanna. Hafa ber í huga að ekki er nóg að geta gengið um fjöll heldur þarf að kunna að smala en það lærir engin nema fara í fyrsta skiptið. Hugmyndin er sú að hafa einn tengilið sem skráir niður þá sem áhuga hafa á að komast í göngur og hefur yfirsýn yfir fyrirhugaðar göngur í sýslunni. En þar sem liðið er á haustið hefur þetta ekki komist í gagnið en stefnt er að því að gera þetta að ári. Þó geta bændur og þeir sem áhuga hafa á þessu haft samband við undirritaðan eða Þóreyju Bjarnadóttur á netföngin thorey@bssl.is og gretar@bssl.is.
Gestum fjölgar í sundlauginni Gestir í sundlaug Hafnar fyrstu 8 mánuði ársins 2012 voru 40.009 sem eru 5.135 gestum fleiri en fyrstu 8 mánuði ársins 2011. Mesta aukning í sund milli ára var í maí, júlí og ágúst. Einnig hafa sést hér fleiri ferðamenn en í fyrra, hvort sem það eru íslenskir eða erlendir gestir og erum við mjög ánægð með það. Að gefnu tilefni viljum við minna á það að ÓHEIMILT er að fara í sund eða sundlaugargarðinn eftir lokun. Bendum við því á að verði einhver uppvís að slíku athæfi verður það tafarlaust kært til lögreglu. Viljum við ennfremur benda á að garðurinn og sundlaugin eru vöktuð með myndavélum.
Sund, vatn og vellíðan • Sundlaug Hafnar
Túnkort og heyforði Nú styttist í kornþreskingu en ljóst er að uppskera verður misjöfn sökum veðurfars og þá er einnig óljóst hversu mikið mun fara í fugla, en það er stór þáttur varðandi uppskeru. Jarðabótaúttektir fara fram með hefðbundnu sniði og fara þær að hefjast. Þó er ein breyting á þeim en hún er sú að nú er bændum skylt að hafa túnkort. Margir eru þegar komnir með túnkort og sumir með túnkort í vinnslu hjá ráðunautum. Einnig er nægjanlegt að fyrir liggi beiðni um túnkort og er hægt að hafa samband við undirritaðan vegna þess. Í jarðabótaferðunum mun undirritaður einnig kanna heyforða eftir sumarið, hvort vöntun sé á heyi. Undirritaður vill biðja þá sem aflögufærir eru með hey að hafa samband þar sem ljóst er að einhver vöntun verður á heyi. Bjargráðasjóður mun bæta heykaup til þeirra sem ekki hafa nægan heyforða sökum uppskerubrests sbr. Reglur um Bjargráðasjóð. Hreindýrin hljóta að fara láta sjá sig og hvetur undirritaður bændur um að skrá niður hjá sér upplýsingar um hreindýr sem verða á beit hjá þeim í vetur, hvar þau eru og hve mörg eftir atvikum. Þá er einnig gott að taka myndir af þeim. Að lokum vonar undirritaður að haustlægðirnar fari mildum höndum um sveitirnar svo kornuppskera og smalanir gangi að óskum. F.h. Búnaðarsambands Austur-Skaftfellinga Grétar Már Þorkelsson