Eystrahorn 32. tbl. 30. árgangur
Fimmtudagur 20. september 2012
Strákarnir „okkar” upp í 2. deild
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Stelpurnar „okkar” áfram í Útsvari
Regína Hreinsdóttir, Soffía Auður Birgisdóttir og Jóna Benný Kristjánsdóttir.
Óli Stefán Flóventsson þjálfari Sindra var kampakátur þegar Eystrahorn hafði samband við hann eftir að félagið hafði tryggt sér sigur í úrslitaleik 3. deildar og unnið sér keppnisrétt í 2. deild að ári og sagði: „Við erum ótrúlega ánægðir með þennan sigur. Það var lögð mikil áhersla á að vinna úrslitaleikinn þó að við værum komnir upp. Það er eðli sigurvegara að vilja vinna til verðlauna og það var ljóst að strákarnir mættu til leiks til að verða meistarar. Við höfum verið mjög sannfærandi í sumar og það má segja að við höfum síðan toppað í úrslitakeppninni. Í sumar fórum við í gegnum mjög sterkan riðil þar sem við skorum 4.3 mörk að meðaltali í leik og fáum á okkur 0.95. Í úrslitakeppninni erum við með markatöluna 19-5 sem sýnir styrk okkar á mjög mikilvægum tíma þar sem mikið var undir. Ég er mjög stoltur af strákunum sem hafa lagt gríðarlega vinnu á sig til að ná þessum árangri. Þeir hafa æft mjög vel og í raun æfa þeir eins og liðin gera í efstu deild. Þeir hafa þurft að fórna fyrir fótboltann en fá nú ríkulega
borgað til baka. Þetta er þriðja ár mitt með liðið og er þetta því uppskera þriggja ára vinnu okkar. Ég er heppinn því þetta eru meira og minna sömu drengir og byrjuðu með mér í október 2010. Einnig höfum við verið mjög heppnir með þá leikmenn sem við höfum bætt í hópinn. Stjórnin hefur gert vel í því að búa til umgjörð sem við getum verið stolt af. Við vinnum saman að 5 ára markmiðum og við erum í góðum farvegi núna. Það eru fleiri en ég sem koma að liðinu og teymið sem vinnur með mér á hrós skilið. Sindri Ragnarsson hefur unnuð mikið og óeigingjarnt starf fyrir klúbbinn í 10 ár. Hann er mjög stór hlekkur í uppgangi fótboltans hér á Höfn. Eins hafa Cober og Óli Jóns verið okkur ómetanlegir. Ég get ekki annað en minnst á stuðningsmenn okkar sem hafa verið frábærir í ár og sérstaklega stigu þeir fram í úrslitakeppninni. Í úrslitaleiknum töluðum við um að það væri bara ekki hægt að tapa fyrir framan þetta fólk okkar og sú varð raunin.
Lið Hornafjarðar í spurningakeppni sjónvarpsins Útsvari sigraði lið Dalvíkurbyggðar í fyrstu umferð. Keppendur Hornafjarðar voru Auður Soffía Birgisdóttir, Jóna Benný Kristjánsdóttir og Regína Hreinsdóttir. Þær höfðu þetta segja um keppnina þegar blaðið hafði samband við þær: „Við vorum ákveðnar í því að hafa gaman af þessu og höldum að það hafi skilað sér ágætlega. Satt að segja reiknuðum við alls ekki með því að vinna, andstæðingarnir þaulreyndir. Við höfðum líka heppnina með okkur, t.d. þegar við grísuðum á „Grease“ og Halldór Ásgrímsson. Það hefði náttúrlega verið skandall að klikka á Halldóri og kannski tapa á því! Það tekur smá tíma að læra tæknina, til dæmis að hlusta vel. Við vissum ekkert hvað var verið að spyrja um í spurningunni um Elvis Aron Prestley og Biblíuna og að hlaupa fyrr af stað t.d. í athyglisspurningunni. En samsetningin er góð, landfræðingur, bókmenntafræðingur og lögfræðingur sem er líka íþróttanörd! Okkur leist ekki á blikuna þegar flokkarnir komu upp, stjórnmál og diskó er hvorugt á áhugasviðum okkar. En mismæli Soffíu í byrjun: "Aðalatriðið er að vinna" setti tóninn og nú höfum við það að mottói í framhaldinu.“ Blaðið óskar þeim til hamingju og góðs gengis í næstu umferð.
Véladagar í Hólmi
Dagana 22. og 23. september verða véladagar í Hólmi á Mýrum frá klukkan 13:00 til 17:00. Til sýnis verða eldri vélar, mótorar og traktorar. Allir eigendur gamalla véla eru velkomnir með vélar sínar í Hólm og geta sent póst á holmur@eldhorn.is eða hringt í Magnús í síma 8615959. Sömuleiðis má vekja athygli á að Húsdýragarðurinn er opinn alla daga frá 10:00 til 17:00 en hann hefur notið mikilla vinsælda hjá öllum aldursflokkum.
Blað sem eflir bæjarbrag og berst í sérhvert hús