Eystrahorn 32. tbl. 2014

Page 1

Eystrahorn Fimmtudagur 25. september 2014

32. tbl. 32. árgangur

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Gróðurreitir FAS á Skeiðarársandi FAS hefur um langt skeið lagt á það áherslu að nemendur skoði náttúruna og tileinki sér öguð og skipuleg vinnubrögð. Þá er ekki síður mikilvægt að þeir séu færir um að meta þær breytingar sem verða og bera saman við fyrri gögn. Einn liður í svona vinnu er að skoða breytingar á gróðri á Skeiðarársandi. Strax á fyrstu dögum haustannar var ákveðið að vitja gróðurreitanna fimm sem FAS hefur umsjón með á sandinum en frá því haustið 2009 hefur verið farið með hópa nemenda þangað. Fyrir ferðina er nemendum skipt í hópa því allir fá ákveðið hlutverk. Það er að mörgu sem þarf að huga á vettvangi og mikilvægt að vinnan verði skipulögð og hnitmiðuð. Að þessu sinni kom Kristín Hermannsdóttir frá Náttúrustofu Suðausturlands með í ferðina og aðstoðaði í fjarveru Eyjólfs Guðmundssonar skólameistara, en hann er í námsleyfi í vetur. Þó mörgum virðist allt vera eins þegar keyrt er um sandinn eru ótrúlegar breytingar á honum frá ári til árs. Síðasta haust var t.d. mikið um sandfok og hefur það greinileg áhrif á gróðurþekjuna í sumar. Svæði sem voru mosavaxin í fyrra liggja nú þakin svörtum sandi og getur allt eins farið svo að sandurinn kæfi gróðurinn. Langflest tré sem voru mæld höfðu stækkað frá því síðasta haust. Þegar upplýsingar á milli ára eru bornar saman sést glögglega hve birkiplönturnar hafa stækkað. Haustið 2013 bar nokkuð mikið á lirfu ertuyglu. Hún var áberandi núna í öllum reitum og fannst

líka á mosa, þar sem engin tré eru. Þá var komin á nokkur tré önnur lirfa sem að öllum líkindum er birkifeti. Báðar þessar lirfur púpa sig svo í haust og bíða þannig næsta sumars en breytast þá í fiðrildi. Þessar lirfur eru algengar í birkiskógum. Í fyrra var líka skipt um merki á öllum plöntum hærri en 10 cm, í reitunum. Þá voru sett merki eins og sett eru í eyru á sauðfé. Þessi merki eru ljómandi góð og greinileg í umhverfinu og munu verða notuð áfram. Þó svo að allmikill sandur lægi á gróðrinum er mikil gróska á svæðinu. Þegar reitirnir voru skoðaðir kom í ljós að í öllum

nema einum eru nýjar plöntur að skjóta upp kollinum. Eru það bæði birki- og víðiplöntur. Þær verða þó ekki merktar fyrr en þær hafa náð 10 cm hæð en þá er talið líklegra að þær haldi áfram að vaxa. Reynslan í gegnum árin hefur sýnt að litlar plöntur geti verið horfnar á næsta hausti. Síðustu daga hafa nemendur svo unnið úr gögnunum sem söfnuðust. Líkt og fyrri ár verða niðurstöður ferðarinnar birtar á http://nattura.fas.is/ Hjördís Skírnisdóttir Kristín Hermannsdóttir

Áhrif á heilsufar og ráðleggingar um viðbrögð við SO2 frá eldgosum Frá eldgosinu í Holuhrauni losna gosefni út í andrúmsloftið, sem geta haft áhrif á heilsu manna. Algengustu gosefnin eru vatn( H2O), koldíoxíð(CO2) og brennsteinsdíoxíð (SO2). Auk þess losna önnur efni eins og brennisteinsvetni (H2S), vetni (H2), kolmónoxíð (CO), vetnisklóríð (HCl), vetnisflúoríð (HF) og helíum (He), en í minna magni. Aðaláhrif á heilsu manna eru af völdum SO2. Helstu einkennin er erting í augum, hálsi og öndunarfærum og við háan styrk getur fólk fundið fyrir öndunarörðugleikum. Ákveðið hefur verið að setja upp loftgæðamæla í sveitarfélaginu á Höfn og Öræfum. Einnig verða settir upp sambærilegir mælar á Djúpavogi og Kirkjubæjarklaustri og víða á landinu. Almennar ráðleggingar ef um mengun er að ræða • • • •

Andið sem mest með nefi Dveljið innandyra og lokið gluggum Slökkvið á loftræstingu ef móða er áberandi í umhverfi Lungna- og hjartasjúklingar hafi sín lyf tiltæk

Hægt er að nálgast upplýsingar um loftgæðamat á slóðinni www. loftgaedi.is og á vefsíðu Veðurstofunnar www.vedur.is/vedur/spar/ textaspar/oskufok . Einnig má finna upplýsingar um mengun á vef Umhverfisstofnunar www.ust.is .


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.