Eystrahorn Fimmtudagur 22. september 2011
33. tbl. 29. árgangur
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Hornafjörður – heilsueflandi bær
Miðvikudagskvöldið 5. október næstkomandi verður haldið íbúaþing í Mánagarði með yfirskriftinni „Hornafjörður – heilsueflandi bær“. Íbúaþingið stendur yfir frá kl. 18-22 og verður þátttakendum boðið upp á léttan kvöldverð áður en vinnan hefst. Þingið er opið öllum Hornfirðingum, frá 14 ára aldri og upp úr. Fyrirkomulag þess verður með svipuðu sniði og á stóra íbúaþinginu í febrúar síðastliðnum. Megintilgangur þingsins er að skapa vettvang fyrir heildstæða umræðu um lýðheilsu- og forvarnarmál í samfélaginu okkar hér á Hornafirði. Þar verður m.a. leitað svara við spurningunum: Hvar við stöndum í dag, hvert við viljum stefna í nánustu framtíð og
hvað þurfum við – bæði hvert og eitt og sem samfélag – að gera til að komast þangað? Háskólasetrið heldur utan um íbúaþingið í samvinnu við fjölmarga aðila sem til samans mynda bakhóp þess: FAS, Grunnskólann, Tónskólann, Krakkakot, Lönguhóla, Sindra, HSSA , Sveitarfélagið og Forvarnarhópinn. Allir ofangreindir aðilar hafa einsett sér að nýta niðurstöður þingsins bæði til þess að efla eigið starf að heilsu- og forvarnarmálum og til þess að geta samþætt það starf enn frekar við það sem aðrir aðilar í samfélaginu eru að gera. Frumkvæði að íbúaþinginu kemur frá Forvarnarhópnum en s.l. vor komu fulltrúar hans á fund Háskólasetursins og óskuðu
eftir liðsinni setursins við að skipuleggja þing um forvarnarmál í sveitarfélaginu. Eftir því sem umræðan þróaðist lengra og fleiri aðilar komu að henni varð niðurstaðan sú að leggja megináhersluna á almenna lýðheilsu hjá íbúum sveitarfélagsins en þar skipta forvarnir að sjálfsögðu miklu máli ásamt næringu, hreyfingu, geðrækt, samveru og fleiri þáttum. Skráning á þingið hefst fimmtudaginn 22. september 2011 í síma 470-8000 frá kl. 9-15 eða hjá ardis@hornafjordur.is og lýkur föstudaginn 30. september 2011. Hornfirðingar eru hvattir til þess að fjölmenna á þingið og láta rödd sína heyrast.
Blað sem eflir bæjarbrag og berst í sérhvert hús