Eystrahorn 33. tbl. 31. árgangur
Fimmtudagur 3. október 2013
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Ánægjulegar breytingar í verslun Nettó
Ferðamönnum, sem leggja leið sína til Hornafjarðar hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Þess hefur ekki síst orðið vart á Höfn, sem á sívaxandi vinsældum að fagna meðal ferðamanna, innlendra sem erlendra. Ein afleiðinga þessarar ánægjulegu þróunar er vaxandi verslun í Miðbæ og er svo komið að Nettó hefur endanlega sprengt utan af sér húsnæðið. Húsnæðisþrengslin hafa í raun varað í rúm tvö ár og hafa reynst mikill álagstími fyrir starfsfólk verslunarinnar, einkum yfir sumartímann þegar mest reynir á hnökralaust vöruflæði og vöruúrval. Sannast sagna hefur ekki tekist sem skyldi
að viðhalda því þjónustustigi sem Nettó vill tryggja mikilvægustu viðskiptavinum sínum, íbúum Hafnar og nærsveita. Við þetta verður ekki búið öllu lengur.
Ný og glæsileg verslun Um áramót hefjast gagngerar endurbætur í verslun Nettó í Miðbæ. Verslunarrýmið verður aukið um 200 fermetra og verður Nettó í um eitt þúsund fermetrum að loknum endurbótum. Hluti innréttinga verður endurnýjaður, auk afgreiðslukassa og matvörufrysta. Þá verður nýtt rakakerfi tekið í notkun til að viðhalda enn betur ferskleika í ávöxtum og grænmeti auk þess sem
fyrirkomulag á starfsemi bakarísins breytist.
Bakarí verslunarinnar Um nýliðin mánaðamót hætti Hornabrauð starfsemi sinni í Miðbæ. Af því tilefni hafa þær breytingar verið gerðar að Nettó mun sjá um þá starfsemi sem tilheyrir vörum sem bakaðar eru á staðnum, bæði sætt og ósætt bakkelsi. Þá hefur Benedikt Áskelsson bakari tekið að sér að sjá um iðnaðarhluta bakarísins næstu misseri. Iðnaðarstarfsemi bakarísins verður þannig óbreytt næstu mánuði, eða þar til annað og hentugra húsnæði hefur verið fundið undir starfsemina.
Um skipulagsmál í Stafafellsfjöllum Að gefnu tilefni, vegna greinar um skiplagsmál í Stafafellsfjöllum í síðasta tölublaði Eystrahorns, telur undirritaður rétt að upplýsa lesendur um málsmeðferð skipulagsvinnunnar. • Landeigendur í Stafafellsfjöllum hafa um tíma sótt um að lóðum verði fjölgað í frístundabyggðinni þar. Bæjarstjórn Hornafjarðar hefur ítrekað fjallað um skipulagsmál í Stafafellsfjöllum og ávallt afgreitt þau samhljóða á sínum fundum. Fram að þessu hafa bæjarstjórn Hornafjarðar og landeigendur verið efnislega sammála um skipulag í Stafafellsfjöllum. • Deiliskipulag sem landeigendur fólu Steinsholt sf. að vinna var afgreitt af bæjarstjórn mótatkvæðalaust þann 7. júní 2012, og hafði þá tvívegis verið rætt sem sérstakur dagskrárliður í bæjarstjórn veturinn 2011-2012. Það deiliskipulag öðlaðist ekki gildi þar sem það braut í bága
við gildandi aðalskipulag. • Í kjölfarið óskuðu landeigendur eftir því við bæjarstjórn að aðalskipulagi fyrir sumarhúsasvæði í Stafafellsfjöllum yrði breytt. Í bókun bæjarstjórnar frá 4. október 2012 þar sem umsókn landeigenda var samþykkt samhljóða stendur m.a.: „Kom fram að sveitarfélaginu hafi borist ósk frá landeigendum jarðanna Brekku og Stafafells í Lóni um að gerðar verði breytingar á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Breytingin felur í sér stækkun á frístundasvæði...Umhverfisog skipulagsnefnd hefur þegar samþykkt framkomna umsókn á fundi sínum þann 3. október 2012. Gerð er tillaga um að bæjarstjórn samþykki ósk landeigenda. Forseti bar tillögu upp til atkvæða. Samþykkt samhljóða.“ • Í kjölfarið var unnið að breytingu á aðalskipulagi í samræmi við afgreiðslu
bæjarstjórnar um ósk landeigenda þann 4. október 2012. Bæjarstjórn tók lýsingu skipulagsverkefnis vegna breytinga á aðalskipulag í Stafafellsfjöllum fyrir þann 6. júní 2013 og afgreiddi hana samhljóða. • Þann 20. júní 2013 tók bæjarstjórn fyrir tillögu að breytingu á aðalskipulagi fyrir til fyrri umræðu þar sem samþykkt er með öllum atkvæðum að vísa málinu til síðari umræðu í bæjarstjórn. Samþykkt var að auglýsa tillöguna að lokinni athugun Skipulagsstofnunar. Nú er tillaga um breytingu á aðalskipulagi fyrir Stafafellsfjöll í kynningu og verður síðari umræða um aðalskipulagið að henni lokinni. • Ef aðalskipulagið verður samþykkt mun deiliskipulag í Stafafellsfjöllum verða tekið til umfjöllunar og afgreiðslu í bæjarstjórn Hornafjarðar og um það fjallað eins og lög og reglur gera ráð fyrir. Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri