Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 2. október 2014
33. tbl. 32. árgangur
Systkinin stóðu sig vel í Útsvari Það vakti nokkra athygli að þrjú systkini Friðbjörn, Vala og Friðrik (börn Garðars Sigvaldasonar og Sveinbjargar Friðbjarnardóttur) voru fulltrúar Hornafjarðar í spurningakeppni sjónvarpsins Útsvari. Sömuleiðis systir þeirra Þura Sigríður sem var símavinurinn. Frammistaða þeirra var með miklum ágætum og sérstaklega vakti athygli hvað þau leystu látbragðsþáttinn vel. Ritstjóri hafði samband við Völu og ræddi við hana í léttum dúr um þáttinn. „Það var nú þannig að hún Bryndís Bjarnason upplýsingaog gæðastjóri Sveitarfélagsins hafði samband við mig og spurði hvort ég væri til í að taka þátt. Ég hugsaði það aðeins og í kjölfarið benti ég á bræður mína sem liðsfélaga ef það vantaði í liðið! Því var vel tekið og þannig fór sú saga. Þar sem við búum á víð og dreif og mikið flakk á bræðrum mínum náðum við lítið að undirbúa okkur. Við hittumst aðeins kvöldið áður og fórum yfir kerfi fyrir látbragðsleikinn, það var vel til fundið enda gekk okkur mjög vel. Í keppninni var ég frekar stressuð svona til að byrja með en það rjátlaði af manni svona eftir því sem tíminn leið. Ég vona að ég verði yfirvegaðri í næsta þætti og ekki eins fljótfær. Bræður mínir voru heldur rólegri svona á yfirborðinu, enda held ég að þeir myndu aldrei viðurkenna að finna fyrir stressi. Við þekkjum hvort annað
auðvitað mjög vel og vorum búin að undirbúa okkur með eitthvað, eins og ég nefndi áðan, kvöldið fyrir Útsvar. Það kom sér vel, en burt séð frá því þá átti Frikki bróðir gott kvöld og skilaði af sér afburða látbragði ef ekki leiksigri, svei mér þá ef ekki leynist í honum leikari af guðs náð. Framundan er svo bara hið hefðbundna, við reynum auðvitað öll að vera vakandi yfir fréttum og því sem er að gerast í heiminum í dag. Svo verður maður
að grípa í sögubækurnar oftar en vanalega áður en maður leggst á koddann og lesa sér til og rifja upp. Þetta er auðvitað fyrst og fremst skemmtun en öllu svona fylgir auðvitað spenna, ég fer allavega í alla leiki og öll verkefni til að gera vel og helst vinna, en hitt verður svo að koma í ljós hvort af því verði. Ég mun allavega taka því sem hverju öðru hundsbiti ef við töpum.“ Svo óskum við þeim góðs gengis í næstu umferð
Kirkjan máluð Nú er lokið við málun utanhúss og viðgerð á Hafnarkirkju og mikill munur að sjá. Þrátt fyrir mjög þröngan fjárhag var nauðsynlegt að ráðast í þessar framkvæmdir til að koma í veg fyrir frekari skemmdir á byggingunni. Eins og áður hefur komið fram voru sóknargjöld skert meira en almennt gerðist með sambærilegar stofnanir. Til að forðast misskilning er rétt taka fram að laun presta eru ekki greidd af sóknarnefndum svo að sóknargjöld renna óskipt til að standa undir rekstri, viðhaldi kirknanna og safnaðarstarfinu almennt. Vegna fjárskorts hefur sóknarnefnd beitt miklu aðhaldi varðandi allan rekstrarkostnað og hefur það m.a. komið niður á viðhaldi utan- og innanhúss svo og viðhaldi pípuorgelsins. Það hefur leyst brýnustu þarfirnar að kirkjan hefur notið velvildar ýmissa safnaðarmeðlima eins og svo oft áður og er þakkað fyrir enn og aftur. Sem dæmi má nefna að ágóðinn af síðustu jólatónleikum, sem rann til kirkjunnar, hjálpaði mikið til svo hægt var að ráðast í viðgerð og málun utanhús. Þetta nægir samt ekki til að gera upp alla reikninga og þess vegna er er vakið máls á þessu hér. Ef einhverjir hafa áhuga á að taka þátt í að styðja við þessar framkvæmdir eða starfsemina þá er í Landsbankanum sparisjóðsbók ( 172 – 5 – 61552 kt. 5901697309 ) þar sem styrkir eru lagðir inná. Inn á heimasíðunni bjarnarnesprestakall. is er hægt að fá ýmsar upplýsingar um starfsemi safnaðanna í sýslunni og meðal annars ársskýrslu Hafnarsóknar þar sem gerð er grein fyrir rekstrinum og fjárhag hennar. Albert Eymundsson, formaður Sóknarnefndar Hafnarsóknar
www.hornafjordur.is - samfélagsvefurinn okkar