Eystrahorn 34. tbl. 29. árgangur
Fimmtudagur 29. september 2011
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Heilsueflandi framhaldsskóli FAS er þátttakandi í verkefninu „Heilsueflandi framhaldsskóli“ sem er átaksverkefni á vegum Landlæknisembættisins. Markmið þess er að bæta heilsu og velferð nemenda og starfsfólks skólans. Alls taka 24 skólar þátt í þessu verkefni en það nær yfir fjögur ár. Áhersla er lögð á næringu fyrsta árið en síðar verður hugað að hreyfingu, geðrækt og lífsstíl. Síðastliðinn miðvikudag kom Kristján Þór Magnússon verkefnisstjóri í FAS og kynnti nemendum og starfsfólki verkefnið. Hann leggur mikla áherslu á breiða þátttöku innan skólans og að hver og einn nemandi hugsi um sína heilsu. Að erindi loknu klöppuðu nemendur fyrir frábærri kynningu. Settur hefur verið á laggirnar stýrihópur sem nemendur og kennarar eiga sæti í og mun hópurinn gera tillögur að breytingum sem stuðla að bættri næringu og um leið vellíðan nemenda. Verkefninu verður hrundið formlega af stað á næstu dögum . Einnig munu fulltrúar skólans taka þátt í íbúaþingi um heilsueflingu, sem sagt var frá í síðasta blaði. Alen Haseta nemandi í fjölmiðlafræði í FAS
Öflugt starf hjá Félagi eldri Hornfirðinga Haustfundur Félags eldri Hornfirðinga var haldinn sunnudaginn 25. september sl. í Ekru. Margt var um manninn á fundinum þegar stjórn félagsins greindi frá því sem í boði verður í starfi félagsins á komandi vetri. Björn Kristjánsson, formaður félagsins, greindi frá því helsta sem verður á boðstólum í félags- og tómstundastarfi hjá félaginu í vetur. Fjölbreytnin í starfi félagsins er mikil og nægir í því sambandi að nefna gönguhóp, snóker, spilakvöld og fleiri samverustundir. Einnig verður boðið upp á vatnsleikfimi, boccia og handavinnu og margt fleira. Starf Félags eldri Hornfirðinga er öflugt um þessar mundir og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í starfseminni. Stjórn félagsins vill hvetja alla, sem áhuga hafa á starfinu og eiga rétt á að taka þátt í því, til þess að kíkja við í Ekru og taka þátt í starfi félagsins.
Starfið í Þrykkjunni komið í fullan gang Nú er starfið í Þrykkjunni að komast á fullt skrið. Opið hús hefur verið vel sótt af öllum bekkjum. Búið er að kjósa í Þrykkjuráð sem mun halda utan um starfsemina í Þrykkjunni í vetur ásamt starfsmönnum. Í Þrykkjuráði sitja úr 8. bekk Hákon Logi Stefánsson og Sigrún Salka Hermannsdóttir, úr 9. bekk eru Hafþór Snorrason og Sigmar Þór Sævarsson og úr 10. bekk sitja Helgi Björn Hjartarson og Regianne Oliveira Rodrigues. Á fyrsta fundi sínum samþykkti Þrykkjuráð stundatöflu fyrir opið hús í Þrykkjunni, sem birt er hér í blaðinu. Starfsmenn Þrykkjunnar í vetur verða Árni Rúnar Þorvaldsson og Sigurður Þ. Magnússon. Næsta föstudag stefnir hópur ungmenna frá Hornafirði úr 9. og 10. bekk að því að fara á hið árlega Fjarðaball sem að þessu sinni verður haldið á Eskifirði. Þrykkjuráð og starfsmenn vonast til að hitta sem flesta í vetur og að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi í starfi Þrykkjunnar.
Blað sem eflir bæjarbrag og berst í sérhvert hús