Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 4. október 2012
34. tbl. 30. árgangur
Nemar á ferð Dagana 8. -12. október verða um 60 nemendur frá Háskóla Íslands í námsferð á Hornafirði. Þessir nemendur eru í landfræði og ferðamálafræði og er ferðin hluti af námi þeirra. Þar fá þeir þjálfun í að vinna rannsóknarverkefni sem felast meðal annars í að safna ýmiss konar gögnum á vettvangi. Íbúar Hornafjarðar mega því eiga von á því að þeir verði beðnir um að svara spurningalistum eða taka þátt í viðtali við rannsakendur. Að sögn Þorvarðar Árnasonar, forstöðumanns Háskólasetursins, er þetta þriðji nemendahópurinn frá Háskóla Íslands sem heimsækir Hornafjörð nú í ár. "Um síðustu helgi voru 25 nemendur í Umhverfis- og auðlindafræði hér á námskeiði um Vatnajökulsþjóðgarð en slíkt námskeið er nú haldið á hverju ári og nýtur mikilla vinsælda. Alls munu sjö nemendahópar heimsækja Háskólasetrið á þessu ári og koma sumir langt
Glaðbeittir nemar í Umhverfis- og auðlindafræði fyrir framan Skaftafellsjökul um síðustu helgi
að, til dæmis kom einn hópur alla leið frá Vancouver í Kanada. Gróflega má áætla að þessar ferðir skili samtals um 400500 gistinóttum inn á svæðið og svo bætast kannski 100 gistinætur við vegna ráðstefna og vinnufunda, mest allt utan háannar." Þessi þáttur í starfsemi Háskólasetursins leiðir því til
nokkurs konar "menntatúrisma" sem getur verið töluverð búbót fyrir ferðaþjónustuna, segir Þorvarður, þótt megintilgangur námsferðanna sé auðvitað að upplifa og læra."Nemendurnir eru að koma hingað til að fræðast um stórbrotna náttúru, sérstæða menningu, samfélag eða sögu en verða um leið
ferðamenn. Í ferðum sem þessum kvikna oft hugmyndir að námsverkefnum, þannig er t.d. búið að skrifa fimm mastersritgerðir um Vatnajökulsþjóðgarð á allra síðustu árum. Við gætum eflaust fjölgað slíkum námsferðum töluvert ef við hefðum meiri tíma og mannskap - það er a.m.k. enginn skortur á áhugaverðum rannsóknaog kennsluverkefnum hér á Hornafirði!" Sem dæmi nefnir Þorvarður að það er sennilega hvergi í heiminum auðveldara - eða nærtækara - að læra um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra en einmitt hér. Námskeið um áhrif loftslagsbreytinga á hornfirska jökla hefur verið á teikniborðinu hjá Háskólasetrinu um töluverða hríð og verður vonandi að veruleika innan tíðar en samhliða því hefur Setrið líka áhuga á að auka upplýsingaflæði til ferðamanna um þau mál, segir Þorvarður að lokum.
Er innanlandsflugið í hættu? Sveitarfélög á landsbyggðinni létu vinna fyrir sig skýrslu um áhrif flugvallar í Reykjavík og færslu hans til Keflavíkur. Í skýrslunni segir að ef innanlandsflug flyst frá Reykjavík leggist flug til Hornafjarðar nánast af og öryggi sjúklinga stefnt í hættu vegna aukinnar fjarlægðar í sjúkrahúsin í Reykjavík. Skýrslan er unnin af KPMG og byggir á viðtölum við fjölmarga aðila til að fá ólík sjónarmið. Þar kemur fram að ef þessar breytingar á innanlandsflugi verða að veruleika þá er talið að fækkun flugfarþega verði allt að 40%. Fækkun farþega stafar af lengri ferðamáta, fólk velur sér að fara frekar með bílum og þá hækki verð fargjalda í kjölfarið. Fækkun flugfarþega verður of mikil og nýting sæta ekki nægjanleg til að flug geti haldið áfram til Hornafjarðar og fleiri staða á landsbyggðinni. Verð á farmiðum gæti hækkað töluvert, sem hefur aftur áhrif á farþegafjöldann. Einnig kemur fram að hægt sé að halda áfram með flug til Hornafjarðar ef það verði ríkistyrkt, en þá geti flugferðum fækkað til að halda ásættanlegri sætanýtingu. Þá kemur fram að slíkt geti haft þau neikvæðu áhrif að endanlegur farþegafjöldi verði ekki
nægjanlegur til að bera flugleiðina. Sýnt er fram á að sjúkraflug verði ekki jafn öruggt og það er í dag ef flugvöllur í Vatnsmýrinni leggst af. Þá þurfi að gera ráð fyrir slíkri þjónustu í Keflavík og jafnvel gera ráð fyrir að byggja nýtt hátæknisjúkrahús nær Keflavík til að auka öryggi landsbyggðarinnar. Þá er sýnt fram á að öll fagleg þjónusta við landsbyggðina geti verið í hættu og erfiðara verði að fá fagfólk af höfuðborgarsvæðinu í ýmsar stytti ferðir eins og gestakennslu, fyrirlestra og ráðstefnur vegna aukins kostnaðar. Einnig er hætta á hækkun á rekstarkostnaði hjá fyrirtækjum sem nýta sér ýmsa sérfræðiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu sem gæti leitt til fækkunar fyrirtækja á landsbyggðinni.
Óvissa ríkir um ferðaþjónustu þar sem Keflavíkurflugvöllur gæti skapað tækifæri til að flytja ferðamenn beint á landsbyggðina. Bent er á að flestir ferðamenn sæki í höfuðborgarsvæðið og gætu því ýmsar dagsferðir með flugi þaðan lagst af. Þrátt fyrir að flugfarþegum hafi fjölgað um Hornarfjarðarflugvöll síðust ár þá er sýnt fram á að farþegum fækkar ef flutningur flugvallar verður að veruleika. Landbyggðin verði afskekktari, erfiðara verður að sækja menningu og aðra þjónustu, heilbrigðisþjónusta verði enn dýrari og geti haft áhrif á búsetuval fólks til lengri tíma litið.