Eystrahorn 36. tbl. 2012

Page 1

Eystrahorn

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Fimmtudagur 18. október 2012

36. tbl. 30. árgangur

Þrír mánuðir – þrjú ár Nú eru liðin um þrjú ár frá því að núverandi útgefandi Eystrahorns endurvakti blaðið. Upphaflega gerði útgefandi ráð fyrir þriggja mánaðar tilraunaútgáfu og síðan í eitt ár. Blaðið er ekki stórt í sniðum og það er ekkert launungamál að útgefandi hefði kosið að hafa blaðið efnismeira. Blaðið getur ekki kallast fréttablað í hefðbundnum skilningi og frá upphafi hefur það verið skilgreint sem skilaboðaskjóða til að miðla upplýsingum milli íbúa héraðsins. Reynt er að birta aðsent efni eftir því sem það rúmast í takmörkuðu plássi í blaðinu. Aftur á móti er ekki hægt að sinna t.d. frambjóðendum í prófkjöri eða landsmálapólitíkinni því ómögulegt er fyrir ritstjóra að gera upp á milli flokka eða frambjóðenda. Þessir aðilar geta fengið auglýsingar birtar eins og aðrir. Bara með stækkun um tvær blaðsíður mundi strax hlaðast upp skuldir sem mundu fljótlega skipta milljónum króna og útgáfan stöðvast sjálfkrafa. Útgáfan verður að sníða sér stakk eftir vexti og þess vegna er blaðsíðufjöldinn

í samræmi við auglýsingatekjur í hverri viku. Skipta má tekjunum í fimm nokkuð jafna parta, auglýsingar frá sveitarfélaginu, Nettó, Skinney-Þinganesi, samanlagðir aðrir auglýsendur og svo vildaráskrift. Hátt hlutfall auglýsinga stundum er m.a. vegna þess að mörg félagasamtök og góðgerðarfélög greiða ekki fyrir auglýsingar, smáauglýsingar eru fríar og margir litlir atvinnurekendur fá afslætti. Útgefandi telur mikilvægt að reyna að stilla kostnaði í hóf til að sem flestir geti nýtt sér þessa möguleika. Í staðinn treystir útgefandi á velvild lesenda og þá rúmlega 100 aðila sem greiða vildaráskriftina sem skiptir sköpum varðandi grundvöll útgáfunnar. Stundum þarf að vinna tap á einu blaði með því næsta með háu hlutfalli auglýsinga. Útgefandi hefur ekki uppi áform um að hætta útgáfunni meðan grundvöllurinn er óbreyttur og vonar að lesendur hafi skilning á því umhverfi sem blaðið býr við og þeim takmörkuðu möguleikum sem eru fyrir hendi. Útgefandi þakkar öllum sem hafa sýnt blaðinu velvild og stuðning.

Eystrahorn er lesið víðar en á Hornafirði. Ljósmynd: Skúli Andrésson, Djúpavogi.

Köld svæði fara halloka

Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga birti Þóroddur Bjarnason stjórnarformaður Byggðastofnunnar fremur nöturlega staðreynd. Þrjú svæði á landinu hafa um langt árabil glímt við stöðuga fólksfækkun. Kreppan þar kom ekki 2008 heldur hafa breytingar á atvinnuháttum og samfélagsþróun leitt þetta af sér. Svæðin sem um er rætt eru Vestfirðir, hluti Norðausturlands og dreifðar byggðir Suðausturlands. Þau eiga það sameiginlegt að jarðhita er ekki að finna og húshitunarkostnaður því íþyngjandi fyrir fjölskyldur og fyrirtæki.

Jöfnum húshitunarkostnað! Loforð um jöfnun húshitunarkostnaðar var gefið á fundi ríkisstjórnar á Vestförðum síðast liðið vor. Önnur verkefni sem ákveðið

var að ráðast í á þeim fundi hafa hins vegar farið framar í forgangsröðunina eins og útboð á strandsiglingum. Það er mikilvægt mál en til að taka af allan vafa að þá er jöfnun húshitunarkostnaðar eitt brýnasta hagsmunamál íbúa á köldum svæðum. Aðgerða í þeim efnum er beðið með óþreyju ekki síst vegna þess að bilið milli heitra og kaldra svæða hefur aukist á síðustu árum. Auk þess vofir enn frekari hækkun yfir.

Skýrar tillögur Í desember síðastliðnum skilaði starfshópur á vegum iðnaðarráðherra inn tillögum um hvernig jafna mætti kostnað við húshitun. Hópurinn skildi ekki eftir óskrifað blað um hvernig fjármagna ætti niðurgreiðslurnar. Það átti að gera með fjármagnstilfærslum

innan orkubúskapsins sjálfs. Þegar þessar skýru tillögur lágu fyrir vöknuðu vonir um að nú yrði tafarlaust ráðist í smíði frumvarps um jöfnun húshitunarkostnaðar. Ennþá er beðið – nærri ári eftir að tillögurnar voru settar fram. Svör sem Steingrímur J. Sigfússon, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, gaf við fyrirspurn um þetta efni á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga gefa vonir um að úr þessu verði bætt. Stjórn Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, mun áfram berjast fyrir að loforð verði efnd – íbúum á þessum svæðum til hagsbóta. Bæjarstjórarnir Hjalti Þór Vignisson, Kristinn Jónasson og Ómar Már Jónsson eru höfundar þessarar greinar..

Blað sem eflir bæjarbrag og berst í sérhvert hús


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.