Eystrahorn 37. tbl

Page 1

Eystrahorn 37. tbl. 28. árgangur

Fimmtudagur 14. október 2010

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

„Ætlum að halda okkar striki eins og kostur er“

Frá starfsmannafundi HSSA á dögunum. Ljósmynd: Ásgerður Kristín Gylfadóttir.

Mikil umræða hefur verið um fjármál sveitarfélaga og niðurskurð á fjárlögum til heilbrigðismála. Eystrahorn leitaði til Hjalta Þórs Vignissonar bæjarstjóra og innti hann eftir hvernig þessi mál snéru að sveitarfélaginu hér.

Staða bæjarsjóðs „Staða bæjarsjóðs er góð þrátt fyrir að tekjur hafi dregist saman. Bæjarstjórn hefur gætt aðhalds á undanförnum árum og lækkað skuldir sem styrkir mjög stöðu okkar núna þegar harðnar á dalnum. Við vorum að samþykkja endurskoðaða fjárhagsáætlun fyrir árið 2010 núna á mánudaginn sem gerir ráð fyrir betri útkomu en við upphaflega áætlun. Nú förum við af stað fyrir alvöru að undirbúa fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 sem verður að mörgu leyti vandasamara en áður og við viljum vanda okkur vel við þá vinnu. “

Niðurskurður á HSSA „Niðurskurðurinn bitnar hart á stofnuninni. Gert er ráð fyrir niðurskurði upp á næstum 60 m.kr. sem er um 16% af fjárveitingum til stofnunarinnar. Við höfum verið að skoða það núna síðustu daga hvernig við tökumst á við niðurskurðinn. Vil þó geta þess að við erum afar óhress með þessi vinnubrögð og það samráðsleysi sem einkennir þessa tillögugerð. Ég hafði samband við heilbrigðisráðuneytið í lok ágúst til að fá upplýsingar um stöðu mála og hafði þá auðvitað í huga hvort við þyrftum að undirbúa okkur fyrir niðurskurð. Þar fékk ég upplýsingar um að búast mætti við minni fjárframlögum, en það var aldrei hægt að túlka þau orð þannig að um grundvallarbreytingu væri að ræða á fjárframlögum. Þetta kom okkur því mjög á óvart. Það sem hjálpar okkur núna er hversu HSSA hefur verið vel

rekin undanfarin ár sem mildar höggið að einhverju leyti. Við ætlum að bíða með að gefa út nokkrar yfirlýsingar um í hvaða aðgerðir við þurfum að ráðast fyrr en við sjáum fjárlagafrumvarpið lagt fram eftir umfjöllum fjárlaganefndar sem verður væntanlega í nóvember. Við förum á fund heilbrigðisráðherra, fjárlaganefndar og þingmanna Suðurkjördæmis núna á miðvikudaginn þar sem við förum fram á leiðréttingar og sýnum að boðaður niðurskurður gangi mjög nærri velferðarþjónustu á Hornafirði. “

Fjárlög 2011 „Fjárlög ríkisins fyrir árið 2011 bera þess auðvitað merki hversu staða ríkissjóðs er erfið og ekki margir góðir kostir í stöðunni til að skera niður. Mér finnst samt auðvitað alltof hart gengið fram í að skera niður heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Fleiri stofnanir fá lægri fjárveitingar á fjárlögum en áður, s.s. eins

og Framhaldsskólinn og sýslumaðurinn. Þar ekki um eins mikinn niðurskurð að ræða en hefur auðvitað áhrif. “

Hvað er framundan? „Núna í vikunni er fjármálaráðstefna sveitarfélaga þar sem við fáum m.a. að vita um framlög jöfnunarsjóðs til sveitarfélagsins á næsta ári og í nóvember vitum við endanlega hvernig fjárlög ársins 2011 líta út. Ég hef metið það svo að þá séum við komin með góða mynd af því hvernig opinberum aðilum á Hornafirði, ríkisstofnunum og sveitarfélaginu mun reiða af í eftirmála hrunsins. Íslenska þjóðarbúið er auðvitað í afar erfiðri stöðu en ef við horfum út frá aðstæðum okkar hér á Hornafirði hef ég vonir um að afleiðingarnar fyrir okkur íbúa á Hornafirði verði ekki eins miklar og sum staðar annarsstaðar á landinu. Við erum með í undirbúningi framkvæmdir á næsta ári og ætlum að halda okkar striki eins og kostur er. “

Blað sem eflir bæjarbrag og berst í sérhvert hús


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.