Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 21. október 2010
38. tbl. 28. árgangur
Listaverk
Vatnstankurinn í Hrossabithaganum hefur þótt fallegt mannvirki. Nú hefur Þorsteinn Sigurbergsson ljósameistari bætt um betur og sett upp ljósasýningu á mannvirkið. Óhætt er að segja að vel hafi til tekist og listaverkið Þorsteini til sóma. Ljósmynd: Maríus Sævarsson
Góðar móttökur og þakkir Nýverið voru á ferð um sveitarfélagið Hornafjörð leiðsögunemar frá Menntaskólanum á Egilsstöðum. Tilgangur ferðarinnar var að kynna sér þjónustu og afþreyingu sem er í boði hér á svæðinu og að sjálfsögðu til að læra og æfa sig fyrir komandi starfsvettvang. Nemendur hér eru fjórir og stunda námið í fjarnámi. Þeir tóku að sér að skipuleggja ferðina frá Djúpavogi að Jökulsárlóni. „Við fórum til móts við nema að austan á Djúpavog. Þar var okkur tekið sem höfðingjum, okkur sagt frá og sýnt það sem er að gerast hjá nágrönnum okkar á Djúpavogi og satt að segja þá vorum við hálf hissa hversu mikil orka, kjarkur og vilji er í þessu litla sveitarfélagi. Það hefur sannarlega ekki alltaf verið lens og oftar en ekki blásið hraustlega á móti á Djúpavogi eins og við hér á Hornafirði vitum svo ljómandi vel. Í þessu litla samfélagi sannast það enn og aftur að ef samstaða er góð meðal íbúa þá er bókstaflega allt hægt.
Þátttakendur á ferð á Djúpavogi.
Það hlýtur að hafa þurft grettistak eða tvö til að koma á fót öllu því sem þarna er í boði fyrir ferðafólk jafnt sem heimamenn. Við hvetjum alla sem þarna eiga leið um að gefa sér tíma til að sækja þessa frábæru nágranna okkar heim ,það verður enginn svikinn af því. Eftir heimsókn okkar fyrir austan var brunað um Hornafjörð og víða komið við. Auðvitað var reynt að kynna fyrir leiðsögumönnum framtíðarinnar allt sem í boði er
hér um slóðir. En auðvitað er það nú svo að eitthvað verður útundan þrátt fyrir góðan ásetning þegar tíminn er naumur, einn og hálfur dagur dugir hreint ekki til að komast yfir að skoða allt það sem við höfum uppá að bjóða hér. En það er skemmst frá því að segja að allsstaðar sem við komum var tekið á móti okkur með þvílíkum myndarbrag að við héðan úr Hornafirði urðum svo upppumpaðar af stolti að það jaðraði við mont. Það var
sama við hvern við töluðum, allir voru tilbúnir, þrátt fyrir miklar annir, að opna söfn, gefa okkur að smakka framleiðsluna sína, kynna starfssemina sem fram fer á hverjum stað, gera vel við okkur í mat og gistingu, sigla með okkur og þar fram eftir götunum. Það má ekki gleymast í þessari upptalningu hversu vel er að fjarnámi í FAS staðið, þar innan dyra leggjast allir á eitt að auðvelda okkur sem erum þarna á kvöldin að rembast við að ná okkur í menntun að gera okkur aðkomuna að náminu eins létt og mögulegt er og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Með þessum stutta pistli viljum við koma á framfæri bestu þökkum til allra sem gáfu sér tíma til að taka á móti okkur og það með þessum mikla myndarbrag. “ Með bestu kveðjum Laufey Guðmundsdóttir, Rut Guðmundsdóttir, Ragna Pétursdóttir og Harpa Særós Magnúsdóttir
Blað sem eflir bæjarbrag og berst í sérhvert hús