Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 27. október 2011
38. tbl. 29. árgangur
Viðhorf og þátttaka foreldra hefur áhrif í forvörnum Í Viku 43 – vímuvarnaviku 2011 (vvv. is) er yfirskriftin: „Virðum rétt barna til lífs án neikvæðra afleiðinga áfengis- og vímuefnaneyslu“. Foreldrar og aðrir fullorðnir eru börnum fyrirmyndir og ungt fólk lærir af því hvernig fjölskyldan fagnar sigrum eða bregst við áföllum og spennu af einhverju tagi. Í hegðun og framkomu hinna fullorðnu felast skilaboð til ungmenna um hvað er álitið viðeigandi. Fái börn þau skilaboð frá foreldrum sínum að neysla áfengis eða annarra fíkniefna sé í lagi fyrir ungt fólk undir tvítugu aukast líkurnar á neyslu þessara efna. Það er því óumdeilanlegt að viðhorf hinna fullorðnu skipta máli í forvörnum. Rannsóknir sýna að ölvun ungmenna eykst mjög mikið frá því nemendur stunda nám í 10. bekk grunnskóla þar til þeir hefja nám í efstu bekkjum framhaldsskóla. Mikill munur er á niðurstöðum á 10. bekk í grunnskóla eða efri bekkjum framhaldsskóla þegar spurt er um ölvun undanfarna 30 daga. Hlutfallið fer úr 9% hjá þeim sem eru í 10. bekk í 43% hjá 16 til 17 ára nemendum í framhaldsskóla. Foreldrar geta haft áhrif á þessar tölur með því að styðja við börn sín og hjálpa þeim að standast markaðssetningu og þann hópþrýsting sem er um áfengisneyslu á framhaldsskólastiginu. Foreldrar setja barni sínu mörk með skilboðum um hvað sé ásættanlegt og hvað ekki. Með áfengis- og vímuefnalausum samverustundum með fjölskyldu og vinum styrkjum við ungmennin í þeirri ákvörðun að neyta ekki áfengis eða vímuefna undir aldri. Vel upplýstir og virkir foreldrar í skólasamfélaginu eru mikilvæg forvörn og gera skólann og samfélagið að betri stað fyrir ungt fólk að þroskast í. Foreldrar sem setja markið hátt vegna barna sinna, t.d. í námi, íþróttum eða öðrum viðfangsefnum, styrkja viðnámsþrótt þeirra gegn fíkniefnaneyslu. Hvert ár sem hægt er að fresta byrjunaraldrinum skiptir máli. Komið hefur fram í rannsóknum að í skólum þar sem er virkt foreldrasamstarf og þar sem foreldrar þekkjast innbyrðis, hittast og þekkja félaga barna sinna eru minni líkur á áfengisneyslu og meiri líkur á góðum námsárangri. Þessi árangur er óháður því hvort foreldrar hvers barns
sé virkt í foreldrahópnum því þátttaka í foreldrasamstarfi skilar sér ekki einvörðungu til þeirra barna sem eiga foreldra sem eru virkir heldur til alls nemendahópsins. Þannig er það oft foreldrahópurinn sem dregur vagninn öllum nemendunum til heilla. Þetta dregur úr líkunum á að einstaka nemendur stundi óæskilega hegðun og hafi neikvæð áhrif á hópinn. Jákvætt eftirlit foreldra, tengsl foreldra við börnin sín, stuðningur þeirra og samvera foreldra og barna eru allt þættir sem minnka líkurnar á
því að unglingar fari út í óæskilega hegðun og stuðlar jafnframt að því að þeim líði vel. Foreldrar framhaldsskólanema þurfa að vera á tánum og vel vakandi fyrir því sem er í gangi í vinahópi unglingsins. Gott er að hafa samband við forvarnarfulltrúa viðkomandi framhaldsskóla og stjórn foreldrafélagsins vilji foreldrar leggja sitt af mörkum til foreldrasamstarfsins. Það hefur áhrif. Helga Margrét Guðmundsdóttir Tómstunda - og félagsmálafræðingur
Blað sem eflir bæjarbrag og berst í sérhvert hús