Eystrahorn 39. tbl. 2011

Page 1

Eystrahorn

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Fimmtudagur 4. nóvember 2011

39. tbl. 29. árgangur

Hreindýr og girðingar Vegna frétta um hreindýr á Mýrum í Hornafirði vill bæjarráð Hornfjarðar koma því á framfæri að ríkur vilji er til þess að leita allra leiða til að tryggja velferð dýranna en jafnframt að takmarka eins og kostur er tjón bænda vegna ágangs þeirra. Sú girðing sem hreindýr hafa flækst í nú í haust er frá árinu 2007 og hefur gengið úr lagi vegna ágangs þeirra. Í landi Flateyjar á Mýrum og nærliggjandi svæðum voru að staðaldri 20 – 30 dýr í sumar og á haustdögum um 200 dýr. Það er þekkt að girðingar stöðva ekki dýrin og þau valda oft verulegu tjóni á girðingum og ræktarlandi. Kostnaður sem af þessu hlýst lendir óbættur á landeigendum. Áréttað er að bændur fjarlægi ónýtar girðingar sem ekki gegna lengur sínu hlutverki og að gengið verði þannig frá öðrum girðingum að þær valdi hreindýrum sem minnstri hættu.

Ljósmynd: Þorri

Nemendafélag FAS á ferðinni Sunnudaginn 23. október lögðu nokkrir nemendur FAS, ásamt félagsmálafulltrúa skólans, land undir fót. Farið var í hringferð um landið og skoðaðir framhaldsskólar sem svipaðir eru FAS að stærð. Ferðalagið var hluti af verkefninu Sjálfbært og lýðræðislegt félagslíf í FAS en það snýst um, eins og nafnið gefur til kynna, að koma á sjálfbæru og lýðræðislegu félagslífi nemenda. Hópurinn sem hélt í hringferðina saman stóð af fjórum nemendum auk Söndru Bjargar félagsmálafulltrúa, en þeir voru Sigfinnur forseti nemendafélagsins, Símon Rafn varaforseti nemendafélagsins, Róslín Alma fulltrúi ljósmynda- og leiklistarklúbbs og Sólveig Valgerður fulltrúi heilsu- og skemmtanaklúbbs. Eins og fram hefur komið var lagt af stað á sunnudegi og gist fyrstu nóttina á Akureyri. Á mánudagsmorgni var haldið yfir til Ólafsfjarðar og Menntaskólinn á Tröllaskaga skoðaður. Sá skóli hefur einungis verið starfræktur í tvö ár og hefur þess vegna unnið samkvæmt nýrri námskrá framhaldsskólanna frá upphafi. Gefur sú námskrá aukna möguleika á fjölbreyttu námi og má nefna sem dæmi að hafi nemendur áhuga á að þróa námskeið eftir kúnstarinnar reglum þá er það mögulegt. Eitt slíkt dæmi er áfangi MTR í kvikmyndagerð en nemendur fundu námsefni og kennara og lögðu fyrir skólameistara sem samþykkti námskeiðið. Kennsla í kvikmyndagerð mun því standa nemendum til boða á næsta skólaári. Að loknum hádegisverði með nemendum Menntaskólans á Tröllaskaga var haldið yfir á Sauðárkrók og Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra heimsóttur. Þar voru nemendur í

óða önn að skipuleggja svokallað Menningarkvöld en þar er nemendum jafnt og öðrum íbúum á Sauðárkróki boðið að taka þátt í skemmtidagskrá sem inniheldur að þessu sinni meðal annars keppni í Body-paint, drag-show, tónlistaratriði frá hljómsveitinni Úlfur Úlfur og uppistand Steinda jr. og Bent. Ræddu stjórnir nemendafélaganna saman og voru umræðurnar um margt áhugaverðar og lærdómsríkar að mati FAS nemenda. Eftir stutt stopp í Skaffó og Ólafshúsi lá leiðin á Snæfellsnesið þar sem hópurinn gisti seinni nóttina. Þriðjudagurinn hófst á heimsókn í Fjölbrautarskóla Snæfellinga þar sem hópurinn fékk góða kynningu á skólanum sem og nemendafélagi. Áhugavert var að kynnast fyrirkomulagi kennslu í skólanum en þar eru einungis þrjár eiginlegar kennslustofur, annars er kennt í opnum rýmum þar sem allt að þrír ólíkir áfangar eru kenndir í einu og sama rýminu. Nemendur spjölluðu einnig vel og lengi um félagslíf skólanna og eins og í hinum skólunum voru umræðurnar áhugaverðar og skemmtilegar. Um hádegisbilið lá leiðin aftur heim í Hornafjörðinn. Hópurinn kom því sáttur og sæll heim seint á þriðjudagskvöldi eftir stutt stopp í Borgarnesi, Reykjavík og á Selfossi. Ferðin tókst í alla staði mjög vel og var bæði lærdómsrík og skemmtileg. Nemendur FAS voru jákvæðir og hressir alla ferðina og voru skólanum svo sannarlega til sóma. Sandra Björg Stefánsdóttir, félagsmálafulltrúi FAS


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.