Eystrahorn 39. tbl. 2013

Page 1

Eystrahorn 39. tbl. 31. árgangur

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Fimmtudagur 14. nóvember 2013

Nýr hjúkrunarstjóri á hjúkrunardeild HSSA

Þann 1. nóvember tók Valgerður Hanna Úlfarsdóttir hjúkrunarfræðingur við af Ásgerði Gylfadóttur sem hjúkrunarstjóri á hjúkrunardeild HSSA og mun leysa hana af fram á næsta vor. Hanna hefur starfað á stofnuninni í mörg ár en hún hóf störf sem ófaglærður starfmaður á Skjólgarði árið 1994, síðan starfaði hún sem sjúkraliði á hjúkrunardeildinni í stuttan tíma eða þar til hún færði sig yfir í Málefni fatlaðra en þar var hún í 3 ár. Síðan vorið 2011 hefur hún starfað sem hjúkrunarfræðingur hjá stofnuninni. Má því segja að Hanna sé vel kunnug starfsemi heilbrigðisstofnunarinnar og því vel undir það búin að taka við starfinu. Hanna er fædd 7. nóvember 1971 á Eyri í Fáskrúðsfirði en á ættir að rekja til Meðalfells í Nesjum og hefur búið á Hornafirði síðan árið 1994 ásamt eiginmanni og þremur sonum þeirra.

Alþjóðadagur sykursýki Sífellt fleiri greinast með sykursýki týpu 2 í heiminum. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) telur að 345 milljónir manna um heim allan séu með sykursýki í dag, og að þessi tala muni líklega tvöfaldast fyrir árið 2030 ef ekkert verður að gert. Sykursýki er efnaskiptasjúkdómur þar sem briskirtillinn hættir annars vegar að framleiða insúlín, og eða líkaminn hættir að nýta sér nægilega vel það insúlín sem líkaminn framleiðir og sykurmagn verður of hátt í blóði. Sykursýki týpa 2 eða áunnin sykursýki er lífsstílstengdur sjúkdómur að miklu leyti. Hreyfingarleysi, ofþyngd og óhollt mataræði gegna þar lykilhlutverki. Með því að ástunda heilbrigðan lífsstíl s.s.með reglubundinni hreyfingu , borða vel af grænmeti og lágmarka sykurneyslu má minnka líkurnar á að fá sykusýki týpu 2 til mikilla muna. Afleiðingar sjúkdómsins eru skemmdir í augnbotnum, nýrum og í fótum auk þess sem tíðni kransæðasjúkdóma og heilablóðfalla eru hærri en meðal þeirra sem ekki hafa sykursýki. Þá eru ótalin áhrif á daglega líðan, andlega getu og hreyfigetu meðal eldra fólks. Margir eru með sykursýki tegund 2 án þess að vita að því. Ert þú hugsanlega ein/n af þeim? Helstu einkenni sykursýki eru: Þorsti, tíð þvaglát, sjóntruflanir, kláði við þvagrás og þreyta. Ef þú finnur fyrir þessum einkennum ættir þú að hafa samband við lækni eða hjúkrunarfræðing á heilsugæslustöðinni og fá í kjölfarið mælingu á blóðsykri.

Hvert er þitt Suðurland? Hvert er þitt Suðurland?, er samstarfsverkefni Markaðsstofu Suðurlands og WOWair þar sem framhaldsskólanemar á Suðurlandi eru hvattir til að taka myndir af Suðurlandi eins og það birtist þeim. Um er að ræða leik þar sem nemendur taka ljósmyndir af umhverfi sínu og sýna með hvaða augum þau sjá Suðurland í gegnum samfélagsmiðilinn Instagram. Myndaleikurinn hefur fengið yfirskriftna Hvert er þitt Suðurland? og eru leikreglur afar einfaldar. Þeir sem vilja taka þátt gera það sér að kostnaðarlausu. Þeir þurfa aðeins að gerast fylgjendur Markaðsstofu Suðurlands á Instagram (@SouthIceland), taka myndir af því sem þeir telja sitt Suðurland og merkja myndina #WWSOUTH. Leikurinn er þegar byrjaður og stendur til 10. janúar 2014 og stuttu síðar verður besta myndin valin. Sigurvegarinn hlýtur flugmiða í boði WOWair, þannig það er til mikils að vinna. Myndir leiksins má sjá inn á vefsíðunni WinterWonderland.is/instagr/. Þátttakendur skulu leyfa hugmyndafluginu að ráða og sýna sitt Suðurland. Nánari upplýsingar veita: Davíð Samúelsson, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands (davidsam@south.is) og Guðmundur Fannar Vigfússon, Verkefnisstjóri Suðurland allt árið (gudmundur@south.is).

Kynningarfundir um fjárhagsáætlun Opnir kynningarfundir um fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Hornafjarðar og stofnana þess fyrir árin 2014-2017. Fundirnir eru haldnir á eftirfarandi stöðum: 19. nóvember á Hótel Smyrlabjörgum kl. 12:00 21. nóvember á Hótel Höfn kl. 12:00

Ásgerður K. Gylfadóttir bæjarstjóri mun kynna fyrirliggjandi fjárhagsáætlun. Fundirnir eru öllum opnir. Súpa, brauð og kaffi. Ásgerður K. Gylfadóttir, bæjarstjóri

Ester Þorvaldsdóttir, hjúkrunarstjóri á heilsugæslusviði HSSA

www.hornafjordur.is - samfélagsvefurinn okkar


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.