Eystrahorn Fimmtudagur 21. nóvember 2013
40. tbl. 31. árgangur
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Ódýrt flug fyrir félagsmenn AFLs Afl Starfsgreinafélag hefur gert samkomulag við Flugfélagið Erni um ódýr flugfargjöld fyrir félagsmenn milli Hornafjarðar og Reykjavíkur. Verð fyrir aðra leið er 8.000 krónur og er nafn félagsmanns ritað á miðann við kaup á honum. Miðarnir verða seldir á skrifstofum AFLs á Hornafirði og Djúpavogi frá og með 25. nóvember n.k. Með samningi þessum vilja Flugfélagið Ernir og AFL Starfsgreinafélag vekja athygli almennings á flugsamgöngum til og frá Höfn í Hornafirði og hversu nauðsynlegar flugsamgöngur eru fyrir samfélagið í heild.
Íbúafundur í samstarfi við Landvernd Íbúafundur um umhverfismál var haldinn sl. þriðjudag. Um 70 íbúar mættu á fundinn. Þar var tekið á hvernig einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki geta haft áhrif á útlosun gróðurhúsaloftegunda. Þar var fjallað um úrgangsmál, loftlagsmál og mengun almennt. Landvernd er að hefja nýtt aðgerðamiðað loftslagsverkefni sem miðar að því að draga úr útlosun gróðurhúsalofttegunda í sveitarfélögum á Íslandi, byggt á danskri fyrirmynd. Verkefnið snýr að því að setja fram markmið og aðgerðaáætlun um samdrátt í útlosun. Sveitarfélagið samþykkti umhverfisstefnu, er að taka upp markvissari úrgangsflokkun og jafnvel hitaveitu, auk þess sem almenn uppbygging í tengslum við ferðaþjónustu hlýtur að líta mjög til umhverfisvænni samgangna, en átak sveitarfélagsins „bíllausir fimmtudagar“ eru gott dæmi um slíkt. Með tilvísan í ofangreint má sjá að í Sveitarfélaginu Hornafirði sé áhugi og metnaður til að takast á við umhverfismál. Þá telur Landvernd að sýna megi fram á árangur með verkefninu á tiltölulega skömmum tíma í sveitarfélaginu, en það er afar mikilvægt til að hvetja til þátttöku fleiri sveitarfélaga í
framhaldinu. Sveitarfélagið gæti því orðið fyrirmyndarsamfélag í loftslagsmálum á Íslandi sem hið fyrsta sem þátt tekur í verkefninu. Samband íslenskra sveitarfélaga er einnig samstarfsaðili að verkefninu og leggur til sérfræðiþekkingu. Verkefnið er styrkt af Umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Landvernd leitaði til Sambands íslenskra sveitarfélaga um val á sveitarfélagi til að þróa verkefnið. Nokkur sveitarfélög komu til greina, en samtökunum leist best á að leita til Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Þar koma til nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi eru ófá sveitarfélög á landinu þar sem íbúar finna jafn vel fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, samber hörfun jökla og áhrif þess á heimahaga fólks og mögulega á sjávarútveg, landbúnað og ferðaþjónustu á svæðinu. Í öðru lagi leitast Landvernd við að vinna að verkefnum sínum jafnt á höfuðborgarsvæðinu og úti á landsbyggðinni, eins og önnur verkefni samtakanna sýna (www.landvernd.is). Í þriðja lagi hafa ýmsar jákvæðar breytingar í umhverfismálum sveitarfélagsins átt sér stað eða eru í farvatninu.
Nýr afhendingarstaður Landsnets á Höfn Landsnet vinnur að uppsetningu á nýjum afhendingarstað raforku á Höfn í Hornafirði en verkefnið er liður í rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja. Verkið felst í stækkun tengivirkisins á Hólum og lagningu um 1,5 km langs 132 kV jarðstrengs milli Hóla og tengivirkis RARIK á Höfn. Strengurinn kemur til viðbótar við 132 kV línu sem þarna er og hefur hingað til verið rekin á 11 kV
spennu. Einstaka verkþættir voru boðnir út í sumar og haust. Framkvæmdir við strenglögn og í tengivirki hófust í september og ganga vel. Gerð undirstaða og jarðskauta í tengivirkinu á Hólum er lokið og uppsetning búnaðar að hefjast. Útdráttur jarðstrengs er hafinn og er áætlað að allri tengivinnu verði lokið um miðjan mánuðinn. Spennusetja á strenginn um áramótin.