Eystrahorn 41. tbl. 2011

Page 1

Eystrahorn

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Fimmtudagur 17. nóvember 2011

41. tbl. 29. árgangur

Árangurinn ekki tilviljun

Hornsílin með alla bikarana. F.v. Ísar Svan Gautason, Ragna Steinunn Arnarsdóttir, Gísli Þórarinn Hallsson, Elín Ása Heiðarsdóttir, Sunna Dögg Guðmundsdóttir, Brandur Ingi Stefánsson, Jóel Ingason, Birkir Fannar Brynjúlfsson, Arney Bragadóttir, Agnes Jóhannsdóttir og Eíríkur kennari.

Enn og aftur sigraði Grunnskóli Hornafjarðar í árlegri First Lego keppni íslenskra grunnskóla. Þetta er í fjórða skiptið á fimm árum sem skólinn vinnur þessa keppni og hafnaði í öðru sæti eitt árið. Skólinn sendir alltaf nýtt lið á hverju ári skipað 12 ára nemendum. Að þessu sinni kölluðu krakkarnir sig Hornsílin. Árangurinn getur ekki verið tilviljun og það er einn einstaklingur sem alltaf hefur verið með liðinu og undirbúið það fyrir keppnina, Eiríkur Hansson kennari. Auðvitað á hann mestan heiður af þessum einstaka árangri og er þá ekki verið að draga úr frábærri frammistöðu krakkanna. Það má bæta við að Hafnarskóli hefur sömuleiðis staðið sig sérstaklega vel í nýsköpunarkeppni skólanna og verið útnefndur nýsköpunarskóli ársins tvívegis með Eirík í fararbroddi sem kennari þeirra. Blaðamanni þótti orðið tímabært að ræða við Eirík en vitnað var í nemendur á síðast ári.

Mikill undirbúningur „ Ég er kannski eitthvað byrjaður að setja mig inn í málin í byrjun skólaársins, til dæmis að skoða í tölvuna. Það eru ótrúlega mörg lið út um allan heim að vinna að svona verkefnum og setja svo afraksturinn á You Tube en þau eru með sömu þrautir og verkefni og við. Aðeins 10 nemendur geta verið í hverju liði svo það geta ekki allir verið með sem hafa áhuga, því miður. Til að velja liðið höfum við farið þá leið að láta krakkana sækja skriflega um að komast í liðið. Þau fylla út umsóknareyðublað

þar sem þau verða m.a. að gera grein fyrir hvers vegna þau vilja vera með, á hvaða hluta verkefnisins þau hafi áhuga og hvað þau hafi til málanna að leggja. Sum hafa áhuga á að forrita, aðrir á skemmtiatriði o.s.frv. Við höfum alltaf sent til keppninnar nemendur úr 7. bekk þ.e. 12 ára og eru þau oft að etja keppni við eldri nemendur sem komnir eru í 10. bekk. Ég undirbý liðið þannig að reyna að þjappa hópnum saman og fá þau til að vinna saman sem lið en ekki sem einstaklinga. Við byrjuðum um miðjan september og hittumst reglulega einu sinni í viku til að byrja með en svo fjölgaði æfingum þegar nær dró keppninni.

Verkefnið fjölþætt Verkefnið er mjög fjölþætt. Nemendur þurfa að hanna og smíða róbót og forrita hann síðan til að leysa fyrirfram ákveðnar þrautir á þrautabraut. Þau hafa aðeins tvær og hálfa mínútu til að leysa eins margar þrautir og þau geta. Jafnframt vinna þau rannsóknarverkefni þar sem leita þarf upplýsinga hjá sérfræðingum á því sviði sem verkefnið fjallar um. Núna var þemað Food factor þ.e. fæðuöryggi. Okkar krakkar völdu að fjalla um fæðuöryggi héraðsins hér og hvað mundi gerast ef við einangruðumst vegna náttúruhamfara. Niðurstaða þeirra var mjög skemmtileg en þau komust m.a. að því að við gætum lifað vel á fjölbreyttum matvælum sem við framleiðum s.s. fiski og landbúnaðarvörum með ýmsu öðru úr

náttúrunni á svæðinu. Sem dæmi þá komust þau að því að hugsanlega þyrfti að veiða friðaða fugla til að hafa nægt fæðuframboð og jafnvel fella fleiri hreindýr en leyfilegt er. Svo þurfa þau að halda nákvæma dagbók og útskýra vinnuferlið fyrir dómurunum auk sem þau búa til skemmtiatriði. Við fengum verðlaun fyrir bestu lausn í þrautabraut, bestu hönnun og forritun vélmennis, bestu dagbókina og fyrir bestu liðsheildina auk þess að hljóta titilinn FLL Meistarar. Þetta er besti árangur sem við höfum náð hingað til. Það er erfitt fyrir mig að bera saman liðin í keppninni vegna þess að ég hef nóg að gera að fylgjast með mínu liði og frammistaða annarra fer því framhjá mér að mestu. „

Fulltrúar Íslands í fjórða sinn Grunnskóli Hornafjarðar verður fulltrúi Íslands á Evrópumótinu sem fram fer í Þýskalandi í júní nk. Áður hefur skólinn keppt í Bandaríkjunum, Danmörku og Hollandi. Ekki þarf að hafa mörg orð um hversu þroskandi er fyrir krakkana að fá tækifæri að vinna að svona verkefni en það kostar líka fjármuni sem þátttakendur og foreldrar þeirra verða að bera að mestu leyti ábyrgð á. Vonandi taka allir vel á móti þeim nú þegar fjáröflun þeirra fer af stað. Blaðið óskar Eiríki og Hornsílum hans til hamingju og óskar þeim góðs gengis í Þýskalandi.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.