Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 22. nóvember 2012
41. tbl. 30. árgangur
Mælingar á Heinabergsjökli
Jöklamælingaliðið 2012.
Nemendur í jarðfræðiáfanganum NÁT113 fóru þann 24. október síðastliðinn í hina árlegu mælingu á Heinabergsjökli. Þó að kuldinn segði svolítið til sín var enginn vindur og hiti rétt yfir frostmarki. Núna hafa orðið töluverðar breytingar á svæðinu. Af myndum sem teknar hafa verið frá sama punkti frá ári til árs má dæma að fremsti hluti jökuls, sem áður var snarbrattur að þar er nú farin myndast geil og því erfitt að sjá jökulröndina þar sem hún liggur nánast við vatnsyfirborðið. Vegna þessa þurfti hópurinn að færa viðmiðunarpunktana til svo hægt sé að sjá jökulröndina. Þegar myndir frá fyrri árum eru skoðaðar sést greinilega að jökullinn er að lækka og þynnast. Mælt er frá tveimur
stöðum og frá báðum stöðum hefur jökullinn gengið miðað við mælingarnar á síðasta ári. Jökullinn virðist þó hafa gengið meira
fram austan megin í lóninu en samkvæmt mælingum hópsins hefur jökullinn gengið þar fram um 200 metra frá síðustu mælingum. Vestan megin í lóninu er framskriðið 9 metrar en þar eru alla jafna minni breytingar. Margir óvissuþættir eru í mælingunni og líklegt er að með nákvæmari mælingum reyndist framskriðið minna. Einnig má dæma af myndum í gegnum árin að gróður fer ört vaxandi á stórgrýttu landsvæðinu og fegurðin í návist jökulsins er óumdeilanleg hvernig sem viðrar. Fyrir hönd nemenda í NÁT113 Róslín Alma Valdemarsdóttir
Varða hlaðin á nýjum mælipunkti
Um safnamál og fleira Nokkur umræða hefur orðið um safnamál í sveitarfélaginu og blaðaskrif þar sem sitt sýnist hverjum. Aðallega hefur verið rætt um tvö söfn, það er jöklasafn og byggðasafn. Tillögur eru uppi um að hætta starfsemi þessara safna og er það miður. Nær væri að blása nýju lífi í söfnin, hugsanlega með einhverskonar aðkomu einstaklinga, en tvímælalaust er brýnt að sveitarfélagið komi af krafti að þessum rekstri. Vilji menn fá eitthvert vit í rekstur þessara safna verður að setja þau á þá staði sem þungi
ferðamanna heimsækir. Séu menn sammála um það er staðsetningin þjóðgarðurinn í Skaftafelli og/eða Jökulsárlón.
Á síðarnefnda staðnum verður að hraða uppbyggingu og finna leiðir til að höggva á þá hnúta sem koma í veg fyrir deiliskipulag og eðlilega uppbyggingu svæðisins. Sveitarstjórnin á að fá lögfræðiálit um mögulegar leiðir til lausnar þessa vandamáls. Meðan þetta ástand varir glatast á hverju ári stórkostleg tækifæri til framþróunar í ferðaþjónustu á svæðinu. Um Listasafn Hornafjarðar leika hins vegar ferskir vindar. Gjöf Ástu Kristínar Eiríksdóttur ekkju Svavars Guðnasonar hefur gefið safninu byr undir báða vængi
og er rekstur safnsins bæði áhugaverður og metnaðarfullur. Til að lyfta starfsemi Listasafnsins uppá víðara og hugsanlega alþjóðlegt plan ætti að gaumgæfa þá hugmynd að setja á fót stafrænt listasafn utan um höfundaverk Svavars Guðnasonar sem yrði aðgengilegt öllum á internetinu og myndi tvímælalaust vekja mikinn áhuga í hinum alþjóðlega listaheimi. Lausleg könnun á þessu sýnir að hægt er á tiltölulega stuttum tíma að koma á fót slíku listasafni. Knútur Bruun, Hofi, Öræfum
Ef dreifing á blaðinu bregst vegna veðurs er hægt er að lesa blaðið á www.eystrahorn.is