2 minute read

Börn og golf - grein úr tímaritinu Golf á Íslandi

Tíu ástæður af hverju börn ættu að leika golf

Foreldrar ættu að hrífast af golfinu vegna þeirra gilda sem þar eru höfð í heiðri. Hér eru tíu ástæður sem Páll Sveinsson formaður Golfklúbbs Selfoss skrifaði á sínum tíma í Golf á Íslandi:

1. Auðmýkt og virðing

Golfið fer fram á að iðkendur þess sýni hverjum öðrum virðingu, jafnt innan sem utan vallar. Auðmýkt fyrir náttúrunni, virðingu fyrir þér og öðrum með heiðarleika og kurteisi að leiðarljósi.

2. Stundvísi

Á hverjum degi leika hundruð iðkenda golfvelli landsins. Til þess að slíkt geti farið fram með eðlilegum hætti og án árekstra er farið fram á rástímaskráningu. Ef tímar skráningarinnar eru ekki virtir missir þú af þínum hring. Sama gildir um mót, ef þú mætir ekki á réttum tíma tekur þú ekki þátt.

3. Heiðarleiki

Börn læra heiðarleika af golfi, svindl líðst ekki og þátttakendur læra að taka ábyrgð á sinni hegðun og framkomu á golfvellinum.

4. Öryggi

Golfkylfur og boltar geta verið hættuleg tæki ef þeim er ekki rétt beitt. Lögð er áhersla á að iðkendur séu meðvitaðir um það og að þeir hugi að öryggi og gæti þess hið fyllsta við sína golfiðkun. Þetta læra iðkendur og heimfæra á aðra þætti lífsins.

5. Þögn

Golfíþróttin krefst mikillar einbeitingar. Svo slík einbeiting náist er nauðsynlegt að iðkendur fái næði til að einbeita sér á meðan golfhögg er slegið. Þá læra börn að sýna hverju öðru virðingu og tillitssemi.

6. Ímyndunarafl

Kylfingar læra að virkja ímyndunaraflið hvort sem það er daginn fyrir mót, í leik eða við æfingar. Fyrir hvert högg þarf að sjá hvaða afleiðingar val á verkfæri (kylfu) og hvernig það er framkvæmt hefur á útkomuna.

7. Vandamálalausnir

Tré, vindur, rigning, sandglompur og skurðir eru hluti af golfleiknum. Barn sem lærir að takast á við vandamál í leik er líklegra til að geta brugðist við vandamálum sem koma upp í hinu daglega lífi.

8. Einbeiting

Eins og áður hefur komið fram krefst golfið einbeitingar. Þrátt fyrir mikla einbeitingu er eðli golfíþróttarinnar þannig að auðvelt er að gera mistök. Golfið kennir sínum þátttakendum að mistök eru hluti af leiknum og þeim ber að taka af auðmýkt en ekki láta þau brjóta sig niður.

9. Æfing, þrautseigja og hlustun

Afar sjaldgæft er að árangur náist í golfi strax í upphafi. Til þess að ná árangri verða iðkendur að æfa mikið og halda æfingum stöðugum og til streitu ásamt því að vera opnir fyrir tilsögn. Börn sem tileinka sér þetta eru reiðubúin í áskoranir hins daglega lífs.

10. Tignarleiki

Í golfinu læra börn virðingu fyrir fullorðnum og hverju öðru. Í lok hvers golfhrings takast þátttakendur í hendur, barn (iðkandi) hlær ekki að óförum keppinautar né sýnir honum vanvirðingu á annan hátt.

This article is from: