6 minute read

Vestfirðir: Öflugt kvennastarf á Ísafirði

Bjarney Guðmundsdóttir og Ásdís Birna Pálsdóttir nýta hverja stund til þess að spila golf

Bjarney Guðmundsdóttir og Ásdís Birna Pálsdóttir hafa á undanförnum árum tekið golfíþróttina föstum tökum. Þær eru báðar virkir félagar í Golfklúbbi Ísafjarðar og nýta hverja stund sem gefst til þess að leika golf á Tungudalsvelli. Golf.is brá sér í heimsókn til Ísafjarðar í júlí sl. þar sem rætt var við þær stöllur um ýmislegt sem tengist golfíþróttinni. Kraftmikið kvennastarf á Ísafirði hefur dregið að sér fleiri konur og bætt æfingaaðstaða yfir vetrartímann hefur einnig gert golfíþróttina aðgengilegri fyrir fleiri en áður.

Veðurblíðan var einstök þegar viðtalið var tekið á sólpallinum við golfskála GÍ, 20 stiga hiti, logn og sól. „Svona hefur þetta veður verið í sumar, alveg einstakt, og við höfum svo sannarlega reynt að njóta þess,“ segir Bjarney þegar við tyllum okkur við borðið með kaffibollann. Bjarney hefur leikið golf í tæplega tvo áratugi og leikur lykilhlutverki í félagsstarfi GÍ. Ásdís Birna hefur tekið miklum framförum á golfsumrinu 2019 og lækkað forgjöfina um tæplega 20 högg. Hún er ánægð með þá ákvörðun sína að byrja að leika golf og sér fram á skemmtilega tíma á golfvellinum um ókomin ár.

En hvernig og af hverju byrjuðuð þið í golfi?

Bjarney:

„Maðurinn minn, Óli Reynir Ingimarsson, byrjaði í golfi töluvert langt á undan mér og það var allt í lagi mín vegna. Ég hafði ekki áhuga og langaði ekki í golf. Á meðan hann var í golfi fór ég oft út í garð að hugsa um blómin og slíkt. Svo kom að því að ég fékk nóg af að hugsa bara um garðinn og vera ein í þessu. Þegar þessi tilfinning kom yfir mig þá var ég tilbúin að prófa golfið. Maðurinn minn stakk upp á því að við færum saman í golfferð erlendis. Ég ákvað að slá til og það vildi þannig til að á sama tíma var golfskóli fyrir konur á staðnum sem við fórum á. Ég fór í skólann, gerði þetta fyrir mig og á mínum forsendum og ég datt bara rækilega í golfið og fannst þetta æðislega gaman.“

Ásdís Birna:

„Ég hafði aldrei stundað golf áður en ég byrjaði sumarið 2015. Ég var mikið í blaki og strandblaki á sumrin. Golfið var aldrei inni í myndinni hjá mér þegar ég var krakki á Seyðisfirði. Ég var bara í öðrum íþróttum. Ég byrjaði aðeins að spila sumarið 2015 og aðeins meira árið 2016 en ekki mjög mikið. Áhuginn hefur aukist til muna og ég hef verið mjög virk hér hjá GÍ síðustu þrjú árin. Sagan mín er mjög svipuð og hjá Bjarneyju. Maðurinn minn var búinn að reyna að draga mig með sér í þetta í langan tíma. Hann var eiginlega búinn að gefast upp á því þegar ég ákvað sjálf að fara af stað og byrja. Það var ekkert erfitt að byrja en þessi íþrótt var ekki eins auðveld og ég hélt, þetta var miklu flóknara en það,“ segir Ásdís og vinkonurnar fara báðar að hlæja.

„Það sem vantar helst hjá okkur hér á Ísafirði er meira aðgengi að golfkennara. Auðunn Einarsson kemur af og til hingað frá Noregi. En það líður of langur tími á milli heimsókna hans.“ Bjarney segir að ný og glæsileg inniæfingaaðstaða á Ísafirði hafi gert mikið fyrir hana.

Bjarney:

„Klúbburinn á núna hús niðri í bæ. Þar erum við með fína aðstöðu, golfhermi og aðstöðu til að pútta, vippa eða slá í net. Mér finnst þetta frábær aðstaða. Áður fyrr var ekki neitt slíkt til staðar. Þá byrjaði maður á vorin nánast upp á nýtt og lagði síðan kylfunum að hausti til. Núna getur maður haldið sveiflunni við og mætt betri til leiks að vori. Ég reyni að spila eins lengi fram á haustið og veðrið leyfir. Ásdís og Vilhjálmur V. Matthíasson eiginmaður hennar eru duglegri við að nýta sér milt vetrarveður til þess að tvinna saman útiveru og golfíþróttina. ÁBP: „Tíðin var mjög góð sl. vetur og við nýttum okkur það talsvert oft. Við fórum m.a. í golf á jóladag í fyrra í 10 stiga hita. Það var reyndar aðeins blautt en við létum okkur hafa það.

Ásdís

Ásdís segir að öflugt kvennastarf auðveldi nýliðum að komast inn í golfveröldina.

„Þetta er fyrsta sumarið mitt þar sem ég tek þátt í öðrum mótum en innanfélagsmótum. Þar má nefna Sjávarútvegsmótaröðina hér á Vestfjörðum. Framfarirnar hafa því verið töluverðar. Ég byrjaði sumarið með 50 í forgjöf en er í dag með 31,5. Markmiðið er að komast í 28 í sumar en það er sú forgjöf sem ég fæ hvort sem er í mótum. Mér hefur gengið best að slá upphafshöggin með drævernum en ég þarf að fá meiri stöðugleika í annað í mínum leik. Hér á Ísafirði finnst mér frjálsræðið vera kostur hvað varðar að gengi að Tungudalsvelli. Hér þarf aldrei að panta rástíma. Við mætum bara og spilum. Hópurinn blandast því vel saman. Hér eru um 16 konur mjög virkar af rúmlega 100 félagsmönnum. Sumar þeirra keppa ekki en hafa samt gaman af því að spila.

Bjarney

„Ég reyni að keppa í þeim mótum sem eru í boði hér á svæðinu. Við þræðum Sjávarútvegsmótaröðina þar sem mótin fara fram víðsvegar hér á svæðinu. Það er alveg ömurlegt að keyra vegina yfir til Bíldudals og á Patreksfjörð. Við látum okkur hafa það en þetta er ekki skemmtilegt ferðalag. Ef samgöngurnar væru betri þá er ég ekki í vafa um að golfíþróttin fengi meiri slagkraft á Vestfjörðum. Samgangurinn á milli klúbbfélaga á Vestfjörðum yrði einfaldari og aðgengið betra.“ Líkt og allir kylfingar hafa þær Bjarney og Ásdís sett sér markmið fyrir komandi misseri.

Bjarney:

„Kvennastarfið er að mínu mati mjög öflugt hjá okkur. Við hittumst alltaf á þriðjudögum kl. 17, í hverri einustu viku. Vissulega er misjafnt hversu margar mæta. Við notum samfélagsmiðilinn Facebook til að halda utan um hverjar ætla að mæta og þar fara öll slík samskipti fram. Það mætir stór hópur kylfinga eftir vinnu síðdegis og það fer eftir ýmsu hvort við leikum 9 eða 18 holur.“

Bjarney hefur á undanförnum árum lagt sig fram við að styðja við mótahald hjá golfklúbbum á Vestfjörðum. Ásdís er enn að feta þá leið og keppir mest á innanfélagsmótum hjá GÍ.

Bjarney:

„Ég stefni alltaf að því að lækka forgjöfina. Ég er með 19,2 í forgjöf og er alltaf að reyna að ná þessum „góða keppnishring“. Hann kemur yfirleitt fyrir eða eftir mót þegar ég er að æfa mig. Markmiðið hjá mér er að vera stöðugri í leik mínum. Þá yrði ég voðalega glöð. Mér finnst ég oft vera ansi nálægt þessu og er vongóð um að það takist. Stöðugleiki er það sem ég sækist eftir. Það sem stendur upp úr á golfferlinum fram til þess er allt þetta yndislega fólk sem ég hef kynnst í gegnum golfið. Golfvinir okkar eru fjölmargir. Við ferðumst mikið saman og höfum það gaman saman. Ég segi alltaf við þá sem ætla að byrja í golfi þegar þeir eru orðnir nógu gamlir að tíminn til að byrja er núna, ekki bíða of lengi. Við ferðumst líka innanlands og förum víða til að leika aðra velli. Upplifa eitthvað nýtt, fá nýjar áskoranir. Við tökum þátt í hjóna- og parakeppnum á Akureyri og í Stykkishólmi. Þau mót eru mjög skemmtileg.“

Ásdís stefnir á að ná meiri stöðugleika í sínum leik - slíkt myndi gera hana enn glaðari úti á vellinum. Ásdísi Birnu finnst gaman að ferðast um landið og leika golf.

Ásdís:

„Við höfum ferðast víða um Ísland undanfarin ár og spilað golf samhliða því. Í fyrra fórum við á Snæfellsnesið. Spiluðum á Bárarvelli í Grundarfirði og í Stykkishólmi á Víkurvelli. Við fórum í vor á Hamarsvöll í Borgarnesi og á Garðavöll á Akranesi. Planið er að fara í sumar á Katlavöll á Húsavík og á Ekkjufellsvöll á Egilsstöðum, jafnvel Neskaupstað.“

This article is from: