BLAÐ MENNINGARMIÐSTÖÐVAR ÞINGEYINGA 44. ÁR - 2024
Forsíðumynd:
Maður með orf og ljá er Axel Jónsson afi systkinanna í Neslöndum í Mývatnssveit. Hópur barna frá vinstri: Vilhjálmur Manfreðsson, Axel Stefánsson, Stefanía Stefánsdóttir, Gunnhildur Manfreðsdóttir og Sigríður Stefánsdóttir (Stefánsbörnin eru frá Neslöndum en Manfreðsbörn, börn Manfreðs Vilhjálmssonar og Erlu Sigurjónsdóttur, voru sumarbörn).
Myndin er tekin árið 1965.
Ljósmyndari: Örn Friðriksson – úr Ljósmyndasafni Þingeyinga.
Veffang: www.husmus.is
Netfang: safnahus@husmus.is
Umsjón og ábyrgð Sigríður Örvarsdóttir
Prófarkalestur
Elín Kjartansdóttir
ISSN 1670-5963
Héraðsprent ehf. Egilsstöðum MMXXIV
Aðalmenn:
Stjórn Menningarmiðstöðvar Þingeyinga 2023
Formaður: Árni Pétur Hilmarsson
Gerður Sigtryggsdóttir
Gréta Bergrún Jóhannesdóttir
Hafrún Olgeirsdóttir
Halldór Jón Gíslason
Katý Bjarnadóttir
Knútur Emil Jónasson
Varamenn:
Eyþór Kári Ingólfsson
Halldóra J. Friðbergsdóttir
Eiður Pétursson
Ingibjörg H. Sigurðardóttir
Jón Gunnarsson
Ragnhildur H. Sigurðardóttir
Menningarmiðstöð Þingeyinga
Almennt
Menningarmiðstöð Þingeyinga (MMÞ) varð formlega til árið 2007 við sameiningu annars vegar Byggðasafns Suður-Þingeyinga, með þrískipta starfsemi í Sjóminjasafni Þingeyinga og á sýningum byggðasafnsins í Safnahúsinu á Húsavík og á Grenjaðarstað og hins vegar Byggðasafns Norður-Þingeyinga að Snartarstöðum. MMÞ er sjálfseignarstofnun og um rekstur hennar sjá sveitarfélögin fjögur í Þingeyjarsýslum, þ.e. Langanesbyggð, Norðurþing, Tjörneshreppur og Þingeyjarsveit.
Í áranna rás hafa söfn, safneignir og starfsstöðvar bæst við starfsemina og undir MMÞ heyra nú Byggðasafn Þingeyinga (Byggðasöfn Suður-Þingeyinga og Byggðasafn Norður-Þingeyinga), Héraðsskjalasafn Þingeyinga, Ljósmyndasafn Þingeyinga, Myndlistarsafn Þingeyinga, Náttúrugripasafn Þingeyinga, rekstur sýningar í Sauðaneshúsi og útgáfa Árbókar Þingeyinga. Starfsemi stofnunarinnar snýr helst að rekstri hinna mörgu og ólíku safna og sýninga, en einnig viðburðahaldi og fjölbreyttum annarskonar verkefnum sem tengjast rekstrinum á starfsstöðvunum fjórum. Í gamla bænum á Grenjaðarstað í Aðaldal er rekin þjóðlífssýning á vegum MMÞ, með munum úr Byggðasafni Suður-Þingeyinga, en bærinn er í eigu Þjóðminjasafns Íslands og MMÞ fer með eftirlit með honum. Einnig er hægt að skoða gripi úr sömu safneign byggðasafnsins á sýningunni Mannlíf og náttúra – 100 ár í Þingeyjarsýslum“ í Safnahúsinu á Húsavík. Í þeirri glæsilegu starfsstöð, sem jafnframt er eign MMÞ, er líka Sjóminjasafn Þingeyinga sem er hluti hluti af Byggðasafni Suður-Þingeyinga. Þar er einnig safneign Myndlistarsafns Þingeyinga sem telur hátt í tvö þúsund myndlistarverk og einstakt Ljósmyndasafn Þingeyinga sem telur rúmlega 160.000 myndir. Auk þessa eru í Safnahúsinu Náttúrugripasafn Þingeyinga með sín söfn steina, plantna og dýra og síðast en ekki síst er þar líka Héraðsskjalasafn Þingeyinga þar sem tekið er við skjölum úr héraði allan ársins hring. Að lokum eru þar bæði aðal forvörslurými stofnunarinnar og skrifstofur MMÞ þar sem forstöðumaður, héraðsskjalvörður og safnvörður hafa aðsetur. Safneign og sýning Byggðasafns Norður-Þingeyinga er staðsett í gamla skólahúsinu á Snartarstöðum í Öxarfirði og er það húsnæði í eigu MMÞ. Sauðaneshús á Langanesi er elsta steinhús í Þingeyjarsýslum og er í eigu Þjóðminjasafns Íslands en MMÞ annast þar rekstur byggðasýningar og hefur eftirlit með húsinu. Báðar síðastnefndu sýningarnar eru með fastan opnunartíma yfir sumarmánuðina.
Við þær breytingar sem urðu árið 2022 þegar inngangur á annarri hæð Safnahússins á Húsavík var aftur tekinn í notkun sem aðal inngangur fyrir þá gesti sem sækja sýningar og viðburði hússins, varð um leið til pláss fyrir móttöku stærri hópa strax við komuna í húsið og hægt að hefja safnfræðslu skólahópa yfir vetrartímann. Litla safnbúðin var aftur tekin í gagnið á árinu eftir nokkra ára hlé, þar sem hægt er að ná sér í útsaumspakka með íslenskum mynstrum eða vandaða bók er tengist jafnvel viðfangsefnum á sýningum stofnunarinnar. Stór sýningar- og/eða fræðsluveggur er einnig í anddyrinu og gott pláss fyrir gesti til að staldra við og virða fyrir sér breytilegt myndefnið með tilheyrandi upplýsingagjöf.
Safnahúsið á Húsavík að vetrarlagi. Mynd MMÞ.
Annáll
Árið hófst með formlegri opnun nýrrar heimasíðu stofnunarinnar www. husmus.is og urðu ákveðin tímamót við þann áfanga. Upplýsingar um starfsstöðvar, fréttir af sýningum og aðrar mikilvægar upplýsingar eru nú aðgengilegri en áður og viðmótið hefur gjörbreyst. Nú getur fólk skráð sig á boðslista vegna sýninga, safnaheimsókna og/eða bókað skólaheimsóknir með einfaldri aðgerð á heimasíðunni. Að lokum má minnast á að við síðuna bættist einnig birting myndaðra bóka ársins en þar er nú hægt að fletta hreppabókum, sveitablöðum og ýmsum fleiri skjölum auk sjálfs Safna, ársskýrslu stofnunarinnar.
Næst á dagskrá var ferðaráðstefnan Mannamót sem haldin var af markaðsskrifstofum landsfjórðunganna, ætluð fyrirtækjum á landsbyggðinni til að kynna starfsemi sína fyrir ferðaþjónustuaðilum á höfuðborgarsvæðinu. MMÞ
SAFNI
3
tók þátt og um kynninguna sá Silja Ástu Jóhannesdóttir sem bæði hefur starfað á Grenjaðarstað síðastliðin sumur og í afleysingum í Safnahúsinu.
Áfram hélt líka viðhald á starfsstöðvum MMÞ og af nógu var að taka.
Var vinnan hvað mest á Snartarstöðum á árinu, þar sem bæði var skipt um rúður í öllum gluggum safnsins, en einnig smíðaður neyðarútgangur á 2. hæð eins og reglur segja til um. Neyðarútgangur var einnig smíðaður og tekinn í notkun á 3. hæð Safnahússins, með tilheyrandi löngum stiga, eins og heimildir ársins á undan gáfu leyfi til og reglur Eldvarnareftirlits segja til um að vera skuli. Ný rafstýrð hurð var loksins tekin í gagnið á jarðhæð Safnahússins, sem löngu var tímabært og því aðgengi í húsið og söfnin bætt til muna, en var það stærsta verkefni ársins vegna aukalegs styrks sveitarfélaganna til viðhalds á Safnahúsinu á árunum 2023-2025. Auk þessa voru loftplötur á 3. hæð Safnahússins sprautaðar eftir 40 ára íveru og hafist var handa við að skipta um gólfefni á skrifstofurýmum á 3. hæð, enda dúkar slitnir og illa lyktandi og bötnuðu því starfsskilyrði þar til muna á árinu. Á Grenjaðarstað fór fram vinna á á vegum Þjóðminjasafns á þaki hlóðaeldhúss gamla bæjarins. Miklar bilanir og vandkvæði voru vegna loftræstikerfis á Grenjaðarstað allt árið og eftirlit starfsmanns MMÞ var því meira en ella og samskipti regluleg við ábyrgðaraðila hjá Þjóðminjasafni.
Það var mikið lán fyrir stofnunina að fá úthlutað fjölda styrkja á árinu 2023 til margvíslegra verkefna til að breyta sýningum og bæta safnastarfið. Má þar fyrst nefna marga styrki safnaráðs, þ.e. þrjá verkefnastyrki til eflingar fastasýninga í Safnahúsi og á Snartarstöðum til að auka líftíma þeirra enn frekar, auk vinnu við óskráða muni í varðveislurými Safnahúss. Stærsti styrkurinn var svo Öndvegisstyrkur sem veittur var til þriggja ára vinnu við breytingar á varðveislurými Myndlistarsafns Þingeyinga í Safnahúsi og til birtingar safneignarinnar í Sarpi, miðlægum gagnagrunni. Að lokum komu þrír minni styrkir í aukaúthlutun safnasjóðs með aðaláherslu á endurmenntun starfsfólks. Uppbyggingarsjóður SSNE styrkti stofnunina til vinnu og framköllunar á
SAFNI 4
Frá ferðaráðstefnunni Mannamót í Kópavogi í janúar 2023. Mynd MMÞ.
Mánárdýrinu og styrkir úr starfsmenntunarsjóði BHM og sjóðum Landsmenntar gerðu starfsfólki kleift að sækja málþing, ráðstefnur og fundi til að viðhalda vitneskju og tengslum og sækja sér nýja þekkingu til enn frekari styrkingar á ágætu safnastarfi.
Öndvegisstyrkur safnaráðs er stærsti styrkur sem söfn á Íslandi geta sótt um hérlendis og féll einn fimm þannig styrkja ársins 2023 í hlut MMÞ, þ.e. til vinnu við Myndlistarsafn Þingeyinga sem unnið verður að allt til ársloka 2025. Það snýr að því að útbúa nýtt varðveislurými myndlistar í Safnahúsi sem er löngu tímabært, forvörslu myndlistarverka, sækja verk sem nú eru í útláni, meta eignina og miðla til almennings. Margir lögðu hönd á plóg við vinnuna á þessu fyrsta ári styrksins og má þar fyrsta nefna myndlistarforvörðinn Kristínu Gísladóttur sem heimsótti okkur á haustdögum og lagði mat á safneignina, vann áætlun sem snýr að flutningi hennar í stærra og betra rými á nýbyrjuðu ári og hönnun á því, auk áætlunar um forvörslu ákveðinna verka. Við fengum Kötlu Karlsdóttur hönnuð og myndlistarkonu til að hjálpa okkur hluta af árinu við að yfirfæra þau tæplega 1900 myndlistarverk sem skráð eru í safneignina, þ.e. úr lokuðu skráningarkerfi yfir í miðlæga kerfið Sarp, sem og að framkvæma nákvæma talningu á verkunum. Þá notaði framhaldsskólaneminn Styrmir Snorrason hluta jólafrís síns í að flytja húsgögn og handbókasafn úr einu rými í annað og við færumst því nær draumnum um stærri myndlistargeymslu með betri aðbúnaði en áður fyrir þau mörgu og merkilegu myndlistarverk sem stofnunin varðveitir. Flest þau myndlistarverk sem skráð voru í útláni skiluðu sér til baka í Safnahúsið og tóku flestar stofnanir vel í beiðnina. Aðeins örfáum verkum á eftir að skila ennþá og vonast er til að þau komist til síns heima á næsta ári. Þess má þó geta að um sextíu verk eru ófundin og vantar skráningu á staðsetningu þeirra, sem er ansi bagalegt. Annað verkefni sem hefur verið fyrirferðarmikið hjá stofnuninni sl. ár er einnig í Safnahúsinu en það er gerð Mánárdýrsins. Myndlistarmaðurinn göldrótti Þórarinn Blöndal hefur endurskapað okkar eigið skrímsli úr héraði
SAFNI 5
Mánárdýrið útbúið af myndlistarmanninum Þórarni Blöndal. Mynd MMÞ.
eftir lýsingum úr sendibréfum frá 1907 sem varðveitt eru m.a. á Héraðsskjalasafni Þingeyinga. Varð það loksins sýnilegt gestum og gangandi í byrjun desember er það flutti inn í rými hvítabjarnarins á byggðasýningu 2. hæðar, en hvítabjörninn flutti aftur á móti í Sjóminjasafnið þar sem hann nýtur sín enn betur en áður, standandi á ísjaka innan um skip og veiðiminjar. Það er að mörgu að hyggja við breytingar sem þessar og margir sem hafa aðstoðað við flutning hins þunga bjarnar, unnið að uppsetningu öryggismyndavéla í sýningarrýmum, smíðað öryggisstoðir undir björninn, mótað og skorið út skrímslið þrívítt og fleiri tengd verk. Tveir verkefnastyrkir tilheyrðu þessum verkþáttum á árinu eins og áður hefur verið getið og gerðu það mögulegt að endursegja þessa stórmerkilegu sögu frá Tjörnesi og í leiðinni að gefa fastasýningum Safnahússins tímabæra upplyftingu.
Við vinnu í varðveislurými Safnahússins naut stofnunin krafta hinnar einu sönnu Lilju Árnadóttur, fyrrverandi sviðsstjóra munadeildar hjá Þjóðminjasafni Íslands, sem greindi safnkost, gaf góð ráð og fyrirmæli varðandi geymslu og uppröðun muna og síðast en ekki síst góð ráð vegna óskráðra muna í safnkosti byggðasafna MMÞ sem teljast um 1600 talsins. Til þessa verkefnis hlaust enn einn styrkur úr safnasjóði sem sýnir okkur hve bæði mikilvægir styrkirnir eru stofnuninni til framkvæmda og í raun hve háð við erum þeim til að geta sinnt nauðsynlegu innra starfi á fullnægjandi hátt. Á öðrum starfsstöðvum má fyrst nefna endurhönnun byggðasýningarinnar á Snartarstöðum sem hin flinki útstillingarhönnuður Elín Björg Ingólfsdóttir tók að sér og hefur unnið að seinnipart árs. Hófst vinnan að sumaropnun lokinni og er langt komin. Verkið mun klárast á vormánuðum 2024 og stefnt er að opnun safnsins með nýrri sýningu sumarið 2024. Fleiri hafa komið að verkum á Snartartöðum og má þar nefna textílforvörðinn Þórdísi Baldursdóttur sem yfirfór m.a. íslensku kvenbúningana sem þar eru til sýnis, en einnig hina einstöku Bryndísi Símonardóttur sem tók að sér að meta textíla safnsins með tilliti til varðveislu þeirri og skráningar en einnig út frá sögulegu mikilvægi fyrir safnið. Bryndís útbjó í framhaldinu kjörgripaskrá textíla í safneign Byggðasafns Norður-Þingeyinga.
SAFNI 6
Hvítabjörninn fluttur í Sjóminjasafnið Mynd MMÞ.
Sjö myndlistarsýningar voru haldnar á árinu 2023 í myndlistarsal Safnahússins og einnig fjórar sýningar í sýningarrými á jarðhæð, auk greininga- og ljósmyndasýninga á vegum stofnunarinnar. Tekið var við myndlistargjöfum í
Myndlistarsafn Þingeyinga og munir bárust í safneign beggja byggðasafnanna sem endranær. Skriður komst loks á stóra bátamálið, en sex bátar í safneign Sjóminjasafns Þingeyinga eru úrskurðaðir ónýtir á útisvæði Sjóminjasafns Þingeyinga, þar sem hvorki er húsnæði undir þá né fjármagn eða þekking til endurbyggingar þeirra og varðveislu. Í september sendi forstöðumaður MMÞ, sem jafnframt er safnstjóri sjóminjasafns, formlega beiðni til Þjóðminjavarðar um grisjun bátanna úr safneigninni og förgun þeirra í framhaldinu. Svar hefur ekki borist í árslok 2023 en vonast er eftir jákvæðum viðbrögðum frá höfuðsafni minja í ársbyrjun 2024 þar sem mikilvægt er fyrir stofnunina að ljúka þessari sársaukafullu aðgerð sem fyrst.
Viðburðir og uppákomur voru margar og fjölbreyttar á starfsstöðvunum á árinu, má þar nefna húslestur með álfasögum og erindi um íslenska þjóðbúninginn á Grenjaðarstað, ljóðaupplestur og tónleika í Sauðaneshúsi og bæði erindi um óáþreifanlegan menningararf og gjörning afmælisbarnsins Aðalheiðar Eysteinsdóttur listakonu í Safnahúsinu. Greiningasýningar á vegum
Kvenbúningar á sýningu á Snartarstöðum. Mynd MMÞ.
Ljósmyndasafns Þingeyinga voru haldnar á starfsstöðvum og heimasíðu MMÞ, auk þess sem héraðsskjalavörður heimsótti lífeyrisþega í suður sýslunni sem aðstoðuðu við myndgreiningu. Fjölbreyttir tónleikar og erindi af ýmsum toga voru haldin á öllum starfsstöðvum MMÞ og á þjóðhátíðardaginn 17. júní voru gestir boðnir velkomnir endurgjaldslaust og að þiggja kaffi og konfekt. Útbúið var sameiginlegt yfirlitskort starfsstöðva MMÞ og það prentað í plakatastærð og dreift um Húsavík, auk þess að vera hengt upp á öllum
SAFNI 7
starfsstöðvunum. Ákveðið var að hækka verð aðgangsmiða á árinu 2023 og samræma betur nágrannasöfnum í landsfjórðungnum. Um leið var ákveðið að taka í notkun aðgangsmiða sem gilda einu sinni á hverja starfsstöð allt árið, á Snartarstöðum og Sauðaneshúsi er þó einnig hægt að kaupa ódýrari aðgangsmiða sem aðeins gilda á þá staði, hvorn fyrir sig. Á árinu hóf stofnunin samstarf við Norðursiglingu um afsláttarmiða og er nú að finna ódýrari aðgöngumiða að Safnahúsinu en ella á bakhlið aðgöngumiða sem gestir hvalaskoðunarfyrirtækisins fá í hendur við kaup á hvalaskoðunarferð. Útgáfa Safna - ársskýrslu MMÞ og Árbókar Þingeyinga er árleg hjá stofnuninni en skipt var um prentsmiðju fyrir prentun ársskýrslunnar 2022 og fer hún nú fram hjá Héraðsprenti á Egilsstöðum.
Að endingu skal þess getið að starfsfólk stofnunarinnar tók þátt í fjölda málstofa og málþinga á liðnu ári, samvinnuverkefnum og ráðstefnum, innanlands og erlendis. Flest var þetta vel styrkt úr hinum ýmsu sjóðum og tryggir það áfram faglegt starf stofnunarinnar, kynnir betur starfsemi hennar, bætir starfshætti og verkkunnáttu, eykur samvinnu við safnasamfélagið og styrkir enn frekar hvern og einn fastráðinn starfskraft MMÞ.
Árið 2023 voru söfnin opin sem hér segir
Safnahúsið á Húsavík
Sumar (15. maí-31. ágúst): Alla daga kl. 11-17.
Vetur (1. september-15. maí): Þriðjudaga til föstudaga 13-16, laugardaga 11-16.
Grenjaðarstaður
Sumar (15. júní-15. ágúst): Alla daga kl. 11-17.
Heimsóknir hópa utan tímabils eða opnunartíma eftir samkomulagi. Vetur – lokað.
Snartarstaðir
Sumar (15. júní-31. júlí): Þriðjudaga til sunnudaga kl. 13-17.
Vetur – lokað.
Sauðaneshús
Sumar (15. júní-15. ágúst): Þriðjudaga til sunnudaga kl. 13-17.
Vetur – lokað.
SAFNI 8
Aðsóknartölur
2023 (2022) (2021)
Gestir í Safnahúsinu á Húsavík
4095 3370 1663
Gestir á Grenjaðarstað 2391 2665 1579
Gestir á Snartarstöðum
Gestir í Sauðaneshúsi
202 280 195
342 279 402
Á aðsóknartölum ársins 2023 má enn sjá vaxandi fjölda gesta sem heimsækir Safnahúsið á Húsavík, sem er afar jákvætt og mikill viðsnúningur frá fyrri árum, ekki síst þeim sem báru áhrif Covid-19 faraldursins. Alltaf er nokkuð stór hluti gesta sem ekki greiðir aðgang, líkt og á öðrum starfsstöðvum MMÞ, sem skýrist af heimsóknum fólks á sýningaropnanir og þátttöku í viðburðum þar sem ekki er krafist aðgangseyris. Aukning á metnaðarfullum sýningaropnunum hefur laðað að fleiri gesti en líka er í tölunni töluverður fjöldi nemenda sem sækir safnfræðslu og einnig heimsóknir lífeyrisþega á sýningar, auk fræðsluheimsókna. Gestum á byggðasýninguna á Grenjaðarstað fækkaði aðeins á milli ára eða um þrjú hundruð talsins en í Sauðaneshúsi fjölgaði þeim aftur eftir dræmt ár á undan. Á Snartarstöðum var opnunartími sumarsins í stysta lagi eða til 31. júlí vegna breytinga á fastasýningu og var aðsókn í samræmi við það. MMÞ auglýsir söfn sín og sýningastaði í völdum fjölmiðlum, ferðahandbókum, á vefsíðum er tengjast ferðaþjónustu og hjá samstarfsaðilum. Stofnunin er aðili að ferðamálasamtökum í fjórðungnum, þ.e. Húsavíkurstofu og Norðurhjara í Þingeyjarsýslum, en er einnig í samvinnu við Markaðsskrifstofu Norðurlands. Allar starfsstöðvar MMÞ eru með sínar eigin fésbókarsíður og Instagram reikninga sem þó eru mismikið notaðir og eru færslur þar, myndir og fréttir tengdar viðburðum og aðrar upplýsingar, nokkuð háðar vilja og kunnáttu sumarstarfsfólks staðanna. Unnið hefur verið að breytingu á heimasíðunni www.husmus.is sem fór í loftið í byrjun ársins og er sífellt verið að betrumbæta upplýsingagjöf og viðbót.
SAFNI 9
Nokkrar tölur úr rekstri
Menningarmiðstöðvar Þingeyinga
Helstu tekjuliðir 2023 (2022)
Frá sveitarfélögum
66.555.000 (55.530.252)
með framlagi til viðhalds (1/3 – samningur um 3 milljónir aukalega á
árunum 2023-2025)
69.555.000
Styrkir 15.467.368
Frá safnasjóði (aðalúthlutun - verkefni) 5.900.000 (400.000)
Frá safnasjóði (aukaúthlutun) 600.000 (0)
Frá safnasjóði (Öndvegisstyrkur 1/3 – alls 11.500.000
sem skiptist á árin 2023, 2024 og 2025) 4.500.000 (0)
Aðrir styrkir 2.245.368
Framlag ríkisins vegna skjalasafna (verkefnastyrkir) 1.500.000 (1.200.000)
Framlag ríkisins vegna skjalasafna (rekstrarstyrkir) 722.000 (699.648)
Aðgangseyrir og sölutekjur 8.029.692 (7.880.822)
Leigutekjur 6.075.508 (4.270.528)
Styrkir
Söfn MMÞ teljast til viðurkenndra safna og hefur stofnunin því heimild samkvæmt lögum til að sækja um styrki til safnasjóðs á vegum safnaráðs. Mikill viðsnúningur var gerður á vinnslu styrkumsókna til safnaráðs á árinu 2022 vegna styrkja fyrir árið 2023 og var árangurinn eftir því. Fékk stofnunin úthlutað samtals þremur verkefnastyrkjum í aðalúthlutun á árinu að upphæð samtals 5,9 milljónum króna. Einnig hlaut MMÞ Öndvegisstyrk, ásamt fjórum öðrum söfnum á landinu, sem veittur er til þriggja ára (2023-2025) að upphæð 11,5 milljónir króna en 4,5 þeirra voru til útborgunar á árinu 2023. Í aukaúthlutun safnasjóðs, þar sem styrkir eru mun lægri og aðallega ætlaðir til kynningarog fræðslumála, hlaut stofnunin tvo styrki upp á 300.000 hvern. Styrkir frá Sveitamennt, þ.e. starfsmenntasjóði starfsmanna sveitarfélaga á landsbyggðinni innan aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands, voru fimm og töldu samtals tæplega sjö hundruð þúsund krónur. Var fyrsti styrkur ársins ætlaður
SAFNI 10
til kynningarmála á ráðstefnunni Mannamót í Reykjavík í byrjun árs en þar að auki var stutt við símenntun starfsmanna, fræðsluferðir og fagráðstefnur. Starfsþróunarsetur Bandalags háskólamanna á vegum BHM styrkti einnig stofnunina um hátt í átta hundruð þúsund krónur til þátttöku forstöðumanns í námskeiðum, ráðstefnum og málþingum. Þá skal nefna styrk úr uppbyggingarsjóði SSNE sem styrkti framkvæmd á verkefni tengdu Mánárdýrinu – skrímsli úr héraði. Auk fastra rekstrarstyrkja frá Þjóðskjalasafni Íslands til handa Héraðsskjalasafni Þingeyinga, sótti héraðsskjalsafnið um tvo verkefnastyrki þaðan og fékk báða samþykkta. Eru allir styrkirnir afar mikilvægir fyrir stofnunina til verkefnavinnu, breytinga og umbóta á starfsstöðvunum og hafa þeir nýst til endurröðunar sýningar á Snartarstöðum, framköllunar á skrímsli úr héraði í
Safnahúsinu og til mikilvægs grisjunarstarfs og stefnumótunarvinnu varðandi safnmuni í varðveislurými. Þá eru styrkirnir stuðningur við starfsfólkið sem getur sótt sér fróðleik og fylgst með nýjustu stefnum og straumum í safnastarfi eins og nauðsynlegt þykir.
Eftirfarandi styrkjum var úthlutað til MMÞ á árinu 2023:
• Menningarmiðstöð Þingeyinga fékk 3.000.000 úr aðalúthlutun safnasjóðs 2023 til verkefnisins „Umbætur á sýningu á Byggðasafni Norður-Þingeyinga að Snartarstöðum“.
• Menningarmiðstöð Þingeyinga fékk 1.400.000 úr aðalúthlutun safnasjóðs 2023 til verkefnisins „Grisjun á óskráðum og óþekktum munum í safneign MMÞ“.
• Menningarmiðstöð Þingeyinga fékk 1.500.000 úr aðalúthlutun safnasjóðs 2023 til verkefnisins „Endurbætur með breytingu á fastasýningum í Sjóminjasafni og byggðasýningu MMÞ í Safnahúsinu á Húsavík“.
• Menningarmiðstöð Þingeyinga fékk 11.500.000 í Öndvegisstyrk safnasjóðs 2023-2025 og komu 4.500.000 til útborgunar á árinu 2023. Er styrkurinn ætlaður til endurbóta á varðveislurými Myndlistarsafns Þingeyinga og aukinnar miðlunar, forvörslu verka og fleira tengt safneigninni.
• Menningarmiðstöð Þingeyinga fékk 300.000 úr aukaúthlutun safnasjóðs til útborgunar 2023 til fræðslu- og símenntunarverkefnisins „Vistaskipti milli safna“.
• Menningarmiðstöð Þingeyinga fékk 300.000 úr aukaúthlutun safnasjóðs til útborgunar 2023 til símenntunarverkefnisins „Farskóli safnafólks 2023“ sem haldinn var í Amsterdam.
• Menningarmiðstöð Þingeyinga fékk 800.000 úr uppbyggingarsjóði SSNE til verkefnisins „Mánárdýrið – saga skrímslis í héraði“.
• Menningarmiðstöð Þingeyinga fékk 690.864 úr Sveitamennt, starfsmenntasjóði starfsmanna sveitarfélaga á landsbyggðinni innan aðildarfélaga
SAFNI 11
Starfsgreinasambands Íslands, en upphæðin skiptist á milli fimm verkefna sem stuðluðu að kynningu á stofnuninni, starfsmenntun og námskeiðsferðum og einnig til þátttöku héraðsskjalavarðar á haustráðstefnu Félags héraðsskjalavarða á Íslandi.
• Menningarmiðstöð Þingeyinga fékk 754.504 frá Starfsþróunarsetri Bandalags háskólamanna á vegum BHM til þátttöku forstöðumanns MMÞ í námskeiðum, ráðstefnum og málþingum.
• Héraðsskjalasafn Þingeyinga fékk tvo verkefnastyrki að upphæð samtals 1.500.000 frá Þjóðskjalasafni Íslands.
• Héraðsskjalasafn Þingeyinga fékk 722.000 í rekstrarstyrk frá Þjóðskjalasafni Íslands vegna ársins 2023.
Námskeið og ráðstefnur
Á árinu 2023 sóttu starfsmenn Menningarmiðstöðvar Þingeyinga meðal annars eftirfarandi námskeið og ráðstefnur:
• 19. janúar – Mannamót markaðsstofa landshlutanna 2023! Ráðstefna og kynningarvettvangur ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni, haldin í Reykjavík í byrjun árs (Silja Ástu Jóhannesdóttir tók þátt fyrir hönd MMÞ).
SAFNI 12
Frá styrkveitingu safnaráðs í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Mynd safnaráð.
• 31. janúar – Sameining ríkisstofnanna. Netnámskeið á vegum Þjóðskjalasafns Íslands (Snorri).
• 25.-27. apríl – Tækniminjanámskeið á vegum NFK – IS - félags norrænna forvarða-Ísland. Haldið í samstarfi við Borgarsögusafn Reykjavíkur (Sigríður).
• 16. maí – Vorráðstefna Þjóðskjalasafns Íslands (Snorri).
• 16. maí – Málþing: söfn, sjálfbærni og vellíðan. Haldið á vegum Íslandsdeildar ICOM, FÍSOS og safnaráðs í sal Þjóðminjasafns Íslands (Sigríður).
• 21.-22. september – Ráðstefna um norrænar súðbyrðingahefðir og kynning á sáttmála um varðveislu norrænna súðbyrðinga. Haldið í Hróarskeldu og Holbæk, DK (Erika og Sigríður).
• 28.-29. september – Haustráðstefna Félags héraðsskjalavarða. Haldin á Dalvík (Snorri).
• 10.-13. október – Farskóli Físos. Haldinn í Amsterdam (Sigríður og Snorri).
• 17. október – Skráning mála og málsgagna. Netnámskeið á vegum Þjóðskjalasafns Íslands (Snorri).
• 26. október – Frágangur, skráning og afhending pappírsskjalasafna. Netnámskeið á vegum Þjóðskjalasafns Íslands (Snorri).
• 31. október – Er röð og regla á málasafninu? Netnámskeið á vegum Þjóðskjalasafns Íslands (Snorri).
• 14. nóvember – Við verðum að hafa yfirsýn. Netnámskeið á vegum Þjóðskjalasafns Íslands (Snorri).
• 28. nóvember – Um grisjun skjala. Netnámskeið á vegum Þjóðskjalasafns Íslands (Snorri).
13
SAFNI
Frá ráðstefnu um norrænar súðbyrðingahefðir í Danmörku í september 2023. Myndir MMÞ.
• 8. desember – Málþing um samstarf ferðaþjónustu og safna, setra og sýninga Haldið á vegum FÍSOS, Safnafræði við HÍ og Samtaka ferðaþjónustunnar. Haldið á Þjóðminjasafni Íslands (Sigríður).
• 15.-16. desember – Fræðsluferð á Tröllaskaga. Námskeið og heimsóknir á vegum MMÞ í samstarfi við listafólk og söfn á svæðinu (Erika, Sigríður og Snorri).
• Allt árið – Vinnustofur á vegum SSNE í samstarfi við safnaklasa í Eyjafirði og Safnaþing í Þingeyjarsýslum (Erika, Sigríður og Snorri).
Fundir
Margir fundir sem tengdust starfsemi Menningarmiðstöðvar Þingeyinga voru haldnir á árinu og voru eftirfarandi þar á meðal:
• Stjórn Menningarmiðstöðvar Þingeyinga hélt stjórnarfundi í Safnahúsinu á Húsavík 22. febrúar, 23. maí og 27. október.
• Aðalfundur stofnunarinnar var haldinn í Safnahúsinu á Húsavík þann 23. maí 2023.
• Forstöðumaður (Sigríður) situr í stjórn Hvalasafnsins á Húsavík skv. skipulagsskrá safnsins og tók hún því þátt í stjórnarfundum og ársfundi safnsins á árinu 2023.
• Forstöðumaður (Sigríður) er fulltrúi í fagráði menningar hjá SSNE og sat fundi ráðsins á árinu.
• Forstöðumaður (Sigríður) situr sem fulltrúi í Rannsóknarsetri í safnafræðum hjá HÍ fyrir Íslandsdeild ICOM og sat því fund ráðsins á árinu.
• Forstöðumaður (Sigríður) sat marga fundi forstöðufreyja, hóps um samvinnu safna í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, ásamt menningarfulltrúa SSNE.
• Forstöðumaður (Sigríður) sat fundi með Þórgunni Þórsdóttur á árinu vegna Gullakistunnar fræðsluverkefnis á vegum SSNE í samvinnu við Safnaþing og Safnaklasa.
• Héraðsskjalavörður (Snorri) sat fræðslufund á vegum Félags Héraðsskjalavarða á Íslandi um netöryggi og netöryggissveitina CERT-IS.
• Starfsfólk MMÞ sat fjölbreytta fundi vegna sýninga og samstarfsverkefna ársins 2023.
• Tveir fundir voru haldnir í ritstjórn Árbókar Þingeyinga og sitja forstöðumaður (Sigríður) og héraðsskjalavörður (Snorri) bæði í henni.
• Forstöðumaður (Sigríður) sat vinnufund með safnafólki af öllu landinu í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands vegna húsasafns.
• Forstöðumaður (Sigríður) sat fundi með Sambandi íslenskra listasafna sem Myndlistarsafn Þingeyinga fékk aðild að á árinu.
SAFNI 14
• Forstöðumaður (Sigríður) sat fund með Sambandi íslenskra sjóminjasafna sem Sjóminjasafn Þingeyinga á aðild að.
• Safnfulltrúi (Erika) sat fundi með Vitafélaginu sem fulltrúi í stjórn þess.
• Forstöðumaður (Sigríður) sat fundi með starfsfólki hjá Þjóðminjasafni á árinu. Með Ágústu Kristófersdóttur framkvæmdastjóra safneignar vegna fyrirhugaðrar grisjunar báta á útisvæði MMÞ og með Ölmu Sigurðardóttur sérfræðingi húsasafns vegna mála á Grenjaðarstað.
Starfsfólk
Árið 2023 var fast starfsfólk Menningarmiðstöðvar Þingeyinga eftirfarandi: Sigríður Örvarsdóttir sinnti 100% starfi sem forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Þingeyinga og er hún einnig safnstjóri byggðasafna, Sjóminjasafns, Náttúrugripasafns og Myndlistarsafns Þingeyinga.
Í Safnahúsinu á Húsavík var Snorri Guðjón Sigurðsson í 100% starfi sem Héraðsskjalavörður og umsjónarmaður Ljósmyndasafns Þingeyinga. Erika Lind Isaksen var í 100% starfi sem safnfulltrúi og sinnti m.a. móttöku gesta, vinnu við kynningarefni og safnfræðslu. Í byrjun árs var Ragnheiður Hreiðarsdóttir í 40% starfi við skráningu ljósmynda í fjarvinnslu fyrir Þjóðminjasafn Íslands en ákvað að endurnýja ekki þann samning frá febrúar 2023 og hefur því ekki lengur starfsaðtöðu hjá MMÞ. Peju Roman Adeoti vann við ræstingar í Safnahúsinu og vann hluta úr degi tvisvar sinnum í viku. Silja Ástu Jóhannesdóttir sá um afleysingar í Safnahúsinu ásamt Fanney Cloé og Nicholu Van Kuilenburg. Katla Karlsdóttir vann tímabundið verkefni við að yfirfara safneign í geymslum Myndlistarsafns Þingeyinga og Styrmir Franz Snorrason vann að stafrænni afritun skjala fyrir Héraðsskjalasafn Þingeyinga í júlí og ágúst.
Í Sauðaneshúsi störfuðu Starkaður Sigurðsson og Auður Lóa Guðnadóttir við gestamóttöku frá 15. júní til 15. ágúst og var það sjöunda sumarið þeirra á staðnum. Stefán Pétur Sigurðsson leysti þau Auði og Starkað af þegar á þurfti að halda. Halldóra Sigríður Ágústsdóttir sá um eftirlit með Sauðaneshúsi aðra mánuði ársins.
Á Snartarstöðum störfuðu Guðrún Stefanía Kristinsdóttir og Bryndís
Símonardóttir til skiptis við gestamóttöku frá 15. júní til 30. júlí og Hildur Óladóttir leysti þær af eftir getu. Rannveig Halldórsdóttir sá um eftirlit með Snartarstöðum aðra mánuði ársins.
Silja Ástu Jóhannesdóttir og Anna Karen Unnsteins unnu sem safnverðir á Grenjaðarstað frá 1. júní til 15. ágúst, auk þess að taka á móti hópum og sinna undirbúningi í maí og september. Erika Lind Isaksen og Snorri G. Sigurðsson sáu um afleysingar. Styrmir Franz Snorrason sinnti eftirliti aðra mánuði ársins.
Ýmisleg verkefni voru unnin vegna breytinga á sýningum á árinu og voru hönnuðir í verktakavinnu m.a. þau Elín Björg Ingólfsdóttir á Snartarstöðum
SAFNI
15
og Þórarinn Blöndal í Safnahúsinu. Lilja Árnadóttir sérfræðingur í munavörslu kom til vinnu í varðveislurými, við mat og grisjun á óskráðum munum í safneigninni, en forverðirnir Þórdís Baldursdóttir og Kristín Gísladóttir unnu að forvörslu safnmuna í flestum safneignum stofnunarinnar. Elín Kjartansdóttir sá um yfirlestur á prentefni líkt og undanfarin ár.
Anna Karen Unnsteins og Silja Ástu Jóhannesdóttir starfskraftar á Grenjaðarstað. Mynd MMÞ.
Útgáfa
Safni 2023, ársskýrsla Menningarmiðstöðvar Þingeyinga fyrir starfsárið 2022, kom út í apríl. Hefur hann verið útgefinn óslitið frá árinu 1981 og hefur lítið breyst í áranna rás.
Árbók Þingeyinga kom út í 65. sinn í nóvember. Nýr ritstjóri, Sverrir Haraldsson, leiddi starfið frá ársbyrjun en aðrir í ritnefnd þetta árið voru Kristjana Erna Helgadóttir frá Kópaskeri, Sæþór Gunnsteinsson bóndi í Presthvammi í Aðaldal, Sigríður Örvarsdóttir forstöðumaður MMÞ og Snorri Guðjón Sigurðsson héraðsskjalavörður. Ritnefndin fundaði tvisvar á árinu og einnig var haldinn kaffifundur með annálariturum í Safnahúsinu um miðjan júní. Áskrifendur Árbókarinnar eru undirstaða útgáfu hennar og mikilvægt er að kynna bókina sem víðast. Eru áhugasamir um sögu og menningu í Þingeyjarsýslum hvattir til að gerast áskrifendur og tekið er við nýjum áskriftum í gegnum heimasíðu MMÞ www.husmus.is, símleiðis í númerinu 464 1860 eða í pósti sem sendur skal á netfangið safnahus@husmus.is.
SAFNI 16
Byggðasafn
Þingeyinga, Myndlistarsafn Þingeyinga og Náttúrugripasafn
Þingeyinga
Safnahúsið á Húsavík
Heimsóknum gesta í Safnahúsið fjölgaði áfram og var aukningin rúmlega 20% á milli ára en á árinu 2023 voru 725 fleiri gestir taldir í Safnahúsinu en árið á undan. Margar metnaðarfullar sýningar voru opnaðar, fundir haldnir, vinnustofur og fjölbreyttir tónleikar, sem allt hjálpaði til við aukningu gesta. Boðið var áfram upp á leiðsögn á ensku fyrsta laugardag í hverjum mánuði fram að sumarmálum en þá var ákveðið að leggja þær niður þar sem aðsókn reyndist afar dræm.
Aðgöngumiðar sem gilda einu sinni í allar fjórar starfsstöðvar MMÞ á árinu voru áfram í boði í Safnahúsi og er þeir komnir til að vera enda mælast þeir vel fyrir hjá gestum. Upplýsingar og fréttir eru nú jafnóðum uppfærðar á nýlegri vefsíðunni. Aðal viðbótin í auglýsingamálum árið 2023 var nýja kortið af staðsetningu allra starfsstöðva MMÞ.
Fyrsta viðhaldsgreiðsla sveitarfélaganna vegna samnings þar um til þriggja ára, sem samþykktur var árið 2022, gerði það að verkum að hægt var að huga betur að viðhaldi í og á húsinu en árin á undan. Jákvæð breyting varð við sprautumálun á loftplötum í myndlistarsal á 3. hæð og eins á lofti stigagangsins. Stærsta viðhaldsaframkvæmdin var þó án efa útskipting á hurð á jarðhæð, en sú gamla var óþétt, hélt hvorki vatni né vindum lengur og var erfið gestum með barnavagna og í hjólastólum. Úr varð að sett var upp sjálfvirk hurð sem bætti aðgengið til muna. Næst var skipt um gólfefni í einu skrifstofurými á 3. hæð og það málað en við þá framkvæmd var vinnuumhverfi einnig bætt verulega. Loksins var bætt við öryggið innanhúss þegar settar voru upp myndavélar í öllum sölum hússins, nokkuð sem var löngu tímabært. Ákveðnum tyllidögum eru jafnan gerð skil hjá MMÞ og að vanda var Öskudagurinn gleðilegur í Safnahúsinu. Þann 22. febrúar kom fjöldi uppáklæddra Húsvískra barna í heimsókn og tóku þau lagið fyrir safnvörð sem gaf þeim sætindi að launum samkvæmt venju. Sumardagurinn fyrsti var einnig litríkur í Safnahúsinu þann 20. apríl, frítt var inn fyrir gesti, páskaliljur prýddu potta, heitt var á könnunni, kleinur í skálum og krítar og sippubönd biðu barna á útisvæði. Sjómannadagurinn í byrjun júní var álíka, enginn aðgangseyrir var innheimtur af gestum þann dag og var þeim boðið kaffi og konfekt í tilefni
SAFNI 17
dagsins og það sama átti við þann 17. júní. Borgaraleg ferming var á vegum Siðmenntar í Sjóminjasafninu í byrjun júní og var líf og fjör í húsinu er fermingarbörn og fjöldskyldur þeirra glöddust saman. Á degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember, var stóra upplestrarkeppnin haldin í Sjóminjasafninu og tólf sjöundubekkingar úr Borgarhólsskóla fluttu þar bundið mál fyrir samnemendur og aðra gesti.
Á Pálmasunnudag var fyrsta sýning ársins opnuð í myndlistarsal Safnahússins en var það ljósmyndasýning Atla Vigfússonar í Laxamýri er nefndist því skemmtilega nafni Kýrnar kláruðu kálið eftir einni hinna skemmtilegu mynda Atla sem rekja má til 25 ára ferils hans sem fréttaritari Moggans í héraðinu. Fjölmenni heimsótti húsið á opnunardaginn og buðu Atli og fjölskylda upp á ljúffengar nýbakaðar kleinur með kaffinu í tilefni dagsins. Um páskana var einnig opnuð önnur sýning í húsinu en á jarðhæð var þá skíðamanninum Nikulási Buch gerð skil. Sú sýning, sem var sögulegs eðlis, var hönnuð af Húsavíkurstofu, unnin í samvinnu
við MMÞ og var hluti af uppákomum vegna hinnar árlegu Orkugöngu.
SAFNI 18
Atli Vigfússon í Laxamýri opnaði ljósmyndasýningu í Safnahúsinu á Pálmasunnudag. Mynd MMÞ.
Heimsókn íbúa Hvamms á sýningu Atla Vigfússonar. Mynd MMÞ.
Ýmsir hópar heimsóttu Safnahúsið með vorinu og fengu leiðsagnir um húsið og má nefna hóp ferðaþjónustuaðila á vegum Markaðsskrifstofu Norðurlands sem kynntu sér starfsemi stofnunarinnar en einnig hóp menningarfulltrúa landshlutasamtakanna á vegum SSNE sem valdi aftur dag að hausti til heimsóknar. Síðast en ekki síst skal sagt frá hópi heldri borgara frá dvalarheimilinu
Hvammi sem heimsótti sýningu Atla Vigfússonar í apríl og tók hann sjálfur á móti þeim og gaf leiðsögn um sýningu sína.
Hugljúfir tónar þeirra Unnsteins, Daníels og Eddu í bandinu Ford
Cortina ómuðu um sjóminjasafnið á tónleikum fyrri part árs þar sem bæjarbúar nutu kvöldstundar. Einnig skal þess getið að upptaka á þjóðhátíðardagsræðu fjallkonu
Norðurþings fór fram í Safnahúsinu líkt og síðustu ár og var sýnd á netmiðlum á 17. júní.
Næsta stóra opnun ársins í myndlistarsalnum var Kvennaljóminn, sýning á einstökum textílverkum Þórunnar Elísabetar margfalds handhafa íslensku Grímuverðlaunanna fyrir búninga og leikmyndir, sem opnaði í myndlistarsalnum um miðjan maí og var konfekt í skál unnenda textíllistar.
SAFNI 19
Tríóið Ford Cortina spilaði í Sjóminjasafninu. Mynd MMÞ.
Á sýningaropnun Kvennaljómans – sjá Þórunni Elísabetu í miðjunni. Myndir MMÞ
Á sýningunni Solander 250: Bréf frá Íslandi í júlí. Mynd MMÞ.
Heimamaðurinn Frímann kokkur opnaði næstu sýningu ársins Á vængjum vorsins í sýningarsalnum á jarðhæð í lok maí og prýddu hugljúf vatnslitaverk hans veggina í nokkrar vikur. Því næst tók við greiningarsýning frá Héraðsskjalasafni tvær seinni vikurnar í júní á jarðhæð Safnahússins en þar á eftir opnaði Elísa Hansen sýningu á fallegum náttúruljósmyndum sínum á sama stað sem hún kallaði Elísa á Íslandi. Myndlistarkonan Aðalheiður Eysteinsdóttir ásamt vinum stóð að listgjörningi á mannlífssýningunni á björtu sumarkvöldi en hann var meðal 59 annarra er tengdust verki hennar 60 gjörningar á 6 dögum MMÞ tók þátt í skemmtilegu samvinnuverkefni um sænska náttúrufræðinginn Daníel Solander sem sænski sendiherrann Pär Ahlberg hafði veg og vanda að í samvinnu við félagið Íslensk grafík. Um var að ræða farandsýninguna Solander 250: Bréf frá Íslandi sem sett var upp í myndlistarsalnum til að minnast þess að liðin voru 250 ár frá merkum erlendum vísindaleiðangri til Íslands árið 1772 og innihélt sýningin verk tíu íslenskra listamanna sem túlkuðu áðurnefnda atburði en einnig breytingar á landi og þjóð síðan atburðurinn átti sér stað. Samhliða sýningunni mátti einnig líta aðra sýningu augum, þ.e. Paradise Lost – Daniel Solander’s Legacy, með verkum tíu listamanna frá Kyrrahafssvæðinu og var ætlað að minnast ferðar Solander til Kyrrahafsins árið 1769.
Tónlistarveislan Windworks átti sér svo stað í Safnahúsinu dag einn í ágústmánuði líkt og undanfarin ár. Var um að ræða tvenna klassíska tónleika í Sjóminjasafninu í flutningi þeirra Pamelu De Sensi, Petreu Óskarsdóttur og Karenar Karolínudóttur sem skipuðu flaututríóið Aulos Flute Ensemble en þar að auki Jóhanns Ingva Stefánssonar, Sóleyar Einarsdóttur og Vilhjálms Inga Sigurðarsonar sem léku á trompet.
Í annarri viku af ágúst var litríkur regnbogafáni fáni dreginn á stöng við Safnahúsið í tilefni hinsegin daga eins og vaninn er. Á sama tíma var unnið að skrifum á formlegri beiðni vegna grisjunar og förgunar á sex ónýtum bátum á útisvæði Safnahússins sem vísar að Sjóminjasafninu. Var sú beiðni send til Þjóðminjavarðar í september og vonast er eftir svörum vegna hennar í upphafi nýs árs.
SAFNI 20
Áfram hélt viðburðadagskráin og í ágúst var sýning Ingu Huldar Tryggvadóttur Húsavík ´87 opnuð í myndlistarsalnum. Um var að ræða einstök myndverk unnin úr gos- og bjórdósum úr málmi og var viðfangsefnið minningar listakonunnar frá dvöl hennar hjá ömmu og afa á Húsavík sumarið 1987. Vefræn greiningarsýning á vegum ljósmyndasafns var haldin á heimasíðunni í október og í myndlistarsalnum á 3. hæð var opnuð sýning Elínar Eddu Árnadóttur Tímamót með teikningum af hvalskíðum. Ungur drengur færði lístakonunni eitt sinn hvalskíði að gjöf sem varð síðar kveikjan að myndverkunum sem hún nú vinnur með svörtum kolum og blandaðri tækni á pappír. Á sýningunni mátti einnig líta augum skíði hinna ólíku hvalategunda sem m.a. má finna í safneignum MMÞ. Því næst tóku við Álfar og tröll í húsinu þegar Þórhildur Örvarsdóttir söngkona og Helga Kvam píanóleikari héldu tónleika tengda efninu en um var að ræða hluta tónleikaraðar þar sem þær fléttuðu saman dagskrá í tali og tónum þar sem leitað var í sagnaarfinn. Október var fjörugur og enn ein uppákoman átti sér stað á jarðhæð þegar Sigurlaug Dagsdóttir þjóðfræðingur og verkefnastjóri vefsins Lifandi hefðir hjá Árnastofnun hélt kynningu á sundhefð á Íslandi og skýrði frá tilnefningu sundlaugamenningar Íslendinga á lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf. Samhliða var opnuð lítil ljósmyndasýning á jarðhæð á myndum af sundlaugamenningu Þingeyinga sem varðveittar eru í Ljósmyndasafni Þingeyinga. Áfram streymdu spennandi verkefni inn á borð til okkar hjá MMÞ og á haustdögum var skipulagður prjónamarkaðar í samvinnu við prjónafólk og framleiðendur garns og prjónless í héraði. Var um að ræða ósk frá hópi áhugafólks um handverk sem heimsótti svæðið í október á skemmtiferðaskipi og varð úr að markaðurinn var haldinn á jarðhæð Safnahússins og gekk vel.
SAFNI 21
Verk af sýningum listakvenanna Ingu Huldar Tryggvadóttur og Elínar Eddu Árnadóttur. Myndir MMÞ.
Þess má einnig geta að saumanámskeið var haldið í samvinnu við Heimilisiðnaðarfélag Íslands er vetraði og var það vel sótt. Formaður þess, Kristín Vala Breiðfjörð, kom í heimsókn og kenndi gamla íslenska krosssauminn.
Mánárdýrið komst loksins á sinn stall á mannlífssýningunni á 2. hæð þann 28. nóvember eftir að hvítabjörninn, sem þar bjó áður, hafði verið fluttur í Sjóminjasafnið þar sem hann nýtur sín enn betur. Formleg afhjúpun Mánárdýrsins fór þó fyrst fram á aðventuopnun safnsins þann 2. desember sem einnig var hluti af dagskrá nú árlegs verkefnis Húsavíkurstofu Húsavík – jólabærinn minn. Saga þessa merkilega skrímslis úr héraði er rakin í tilheyrandi texta sem hangir í rýminu og fyrstu skólahóparnir fengu fræðslu tengda því áður en nýja árið gekk í garð. Önnur merkileg sýning var opnuð í myndlistarsalnum þennan sama dag en það var Umræður og rifrildi, sýning á 22 verkum Valtýs Péturssonar, sem varðveitt eru í safneign Myndlistarsafns Þingeyinga. Um var að ræða sömu verk og sýnd voru á fyrstu sýningu sem sett var upp í myndlistarsalnum árið 1980 og voru þau gjöf listamannsins til safnsins við stofnun þess. Heimsóknir gesta á þessum vel heppnaða laugardegi á aðventunni enduðu iðulega í myndlistarsalnum á þriðju hæð við skoðun á piparkökuhúsum sem þar voru til sýnis og kepptu til verðlauna, en um miðjan sama dag var sigurvegari útnefndur eftir að Arndís og Hilmar Árnabörn höfðu flutt gestum ljúfa tóna. Piparkökuhúsin voru til sýnis fram að jólum. Á aðventunni voru uppstækkaðar jólamyndir, sem varðveittar eru í Ljósmyndasafni Þingeyinga, settar til sýnis í glerskáp á jarðhæð Safnahússins. Vöktu myndirnar mikla hrifningu á meðal þingeyskra gesta en þær sýndu frá árlegu jólaballi Kvenfélags Húsavíkur árið 1967.
SAFNI 22
Saumað út samkvæmt leiðbeiningum frá Kristínu Völu Breiðfjörð. Myndir MMÞ.
Aðventuopnun í Safnahúsinu. Myndir MMÞ.
Ýmislegt markvert átti sér stað hjá Myndlistarsafni Þingeyinga á árinu en vegna veglegs öndvegisstyrks var hægt að hefjast handa við endurbætur á varðveislumálum safneignarinnar. Verk í útláni voru innkölluð og flest skiluðu sér til baka á árinu. Yfirfærsla safneignar í miðlæga kerfið Sarp, hátt í tvö þúsund verka, var framkvæmd og náðist að færa um helming þeirra fyrir árslok. Myndlistarmenntaður starfskraftur fékkst í hlutastarf við að yfirfara alla safneignina, opna hólka, kassa og hólf og ganga úr skugga um að bæði tilvist verkanna væri sannanleg og að ásigkomulag þeirra væri í lagi. Einnig var byrjað að tæma stóra skrifstofurýmið á 3. hæð sem breyta á í varðveislurými myndlistar á komandi ári. Rýmið þarfnast ýmissa lagfæringa sem unnar verða á næstu misserum. Textílverk Huldu Hákonardóttur af Huldu skáldkonu var lánað til Listasafns Reykjavíkur á stóra sýningu á verkum listakonunnar sem sett var upp á Kjarvalsstöðum fyrrihluta ársins. Einnig voru ljósmyndir Ragnheiðar Bjarnadóttur, sem til voru framkallaðar í Safnahúsinu en varðveittar í ljósmyndasafni Þingeyinga, lánaðar til sýningar í Þjóminjasafni Íslands á árinu. Myndlistarsafninu bárust nokkrar gjafir á árinu og sú stærsta var listaverkagjöf Gústavs Geirs Bollasonar myndlistarmanns sem færði safninu fjögur málverk og eitt vídeóverk sem á dagskrá er að sýna árið 2024. Myndlistarsafn Þingeyinga gerðist hluti af Samtökum Íslenskra Listasafna (SÍL) á árinu og er það mikill styrkur fyrir safnið að vera hluti af hagsmunasamtökum er snúa að myndlistarsafneigninni.
Safnfræðslan í Safnahúsinu árið 2023 var fjölbreytt og vel sótt. Tæplega sex hundruð nemendur, að stórum hluta úr leik-, grunn- og framhaldsskólanum á Húsavík, en einnig úr Þingeyjarskóla og Þórshafnarskóla, skoðuðu safnið og unnu hin ýmsu verkefni. Má nefna að elsti árgangur barna frá leikskólanum Grænuvöllum, sem komu og skoðuðu sýninguna Perlur úr safneign, völdu sér
SAFNI 23
mynd og máluðu svo sínar útfærslur. var svo hengd upp í listasal á jarðhæð tvo daga í mars og komu aðstandendur í formlegt opnunarhóf. Hópur nemenda í enskuáfanga í Framhaldsskólanum á Húsavík kynnti sér allt safnið í heimsóknum, skoðaði safneignir, tók viðtöl við starfsfólk og vann í framhaldinu myndbönd. Í desember komu nemendur úr 1.-5. bekk í Borgarhólsskóla í jólakortagerð og skoðuðu í leiðinni piparkökuhús. Elstu deildir leikskólans og yngstu í Borgarhólsskóla komu einnig og skreyttu jólatré safnsins með skrautlegum könglum og sungu jólalög. Þess má einnig geta að nokkuð var um heimsóknir nemenda frá skólum utan héraðs. Áfram var haldið heimsóknum í dvalarheimilið Hvamm með fræðslukistur, sem hófust árið 2022, og var sú fyrsta kynnt þar í lok mars og svo áfram reglulega til ársloka. Gerður var áframhaldandi samningur við Garðvík um hirðingu lóðar við Safnahúsið á árinu 2023 og starfsmenn Höfðavéla sáu iðulega um snjómokstur við húsið þetta árið.
Yfirlit yfir sýningar í Safnahúsi 2023
• Nikulás Buch - augnablik úr skíðasögu Þingeyinga var opnuð á jarðhæð Safnahússins á föstudaginn langa þann 7. apríl. Sýningin var unnin í samstarfi við Húsavíkurstofu og stóð til 29. apríl.
• Ljósmyndasýning Atla Vigfússonar Kýrnar kláruðu kálið var opnuð í myndlistarsal á 3. hæð þann 1. apríl og stóð til 25. apríl.
• Frímann Sveinsson opnaði sýningu á vatnslitaverkum sínum í listasal á jarðhæð þann 6. maí og stóð sýningin Á vængjum vorsins út maímánuð.
• Sýning Þórunnar Elísabetar Sveinsdóttur Kvennablóminn var opnuð í myndlistarsal á 3. hæð þann 13. maí og voru textílverk Þórunnar til sýnis til 16. júlí.
SAFNI 24
• Sýningin Elisa á Íslandi með ljósmyndum hollenska ljósmyndarans Elisu Hanssen var opnuð í listasal á jarðhæð þann 1. júlí og stóð hún til septemberloka.
• Farandsýningarnar Solander 250: Bréf frá Íslandi og Paradise Lost – Daniel Solander’s Legacy voru opnaðar í myndlistarsal á 3. hæð þann 22. júlí og stóðu til 6. ágúst.
• Sýning Ingu Huldar Tryggvadóttur Húsavík ´87 með verkum unnum úr endurunnum gos- og bjórdósum var opnuð í myndlistarsal á 3. hæð þann 19. ágúst og stóð til 30. september.
• Sýningin Tímamót, kolateikningar Elínar Eddu Árnadóttur af hvalskíðum, var opnuð þann 7. október í myndlistarsal á 3. hæð og stóð til 25. nóvember.
• Umræður og rifrildi, sýning á 22 verkum Valtýs Péturssonar, sem tilheyra safneign Myndlistarsafns Þingeyinga, var opnuð þann 2. desember og mun standa til 30. mars 2024.
SAFNI 25
Listasýning elstu barnanna á leikskólanum Grænuvöllum.
Mynd MMÞ.
Grenjaðarstaður
Grenjaðarstaður er hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands en MMÞ rekur þjóðlífssýningu í gamla torfbænum sem unnin er upp úr safneign Byggðasafns Suður-Þingeyinga. Gamli bærinn var á ábyrgð byggðasafnsins frá árinu 1958 og fram til stofnunar Menningarmiðstöðvarinnar (MMÞ) árið 2007 er Þjóðminjasafnið tók við honum. MMÞ hefur þó eftirlit með torfbænum allan ársins hring skv. samningi við Þjóðminjasafn þar um, einnig með hlöðunni, en á hlöðuloftinu er aðstaða fyrir gesti til að neyta veitinga, nota snyrtingar og að versla þar handverk úr héraði sem unnið er af meðlimum handverkshópsins Hlöðunnar. MMÞ sér um minniháttar viðhald á staðnum en Þjóðminjasafnið annast stærri viðhaldsverkefni. Talsverð viðhaldsþörf er á bænum og margt sem tímabært er að gera við en nýtt þak var sett á hlóðaeldhúsið á sumarmánuðum fyrir tilstilli Þjóðminjasafns.
Ákveðið var að hafa samskonar sumaropnun í torfbænum og árið á undan eða frá 15. júní til 15. ágúst, á milli klukkan 11 og 17. Einnig var tekið á móti hópum utan formlegs opnunartíma líkt og undanfarin ár, bæði hvað varðar mánuðina og einnig tíma dagsins, en býsna margir hópar heimsóttu staðinn í bæði maí og september og alltaf er eitthvað um gestakomur fyrr á morgnana og seinna á daginn þ.e. utan auglýsts opnunartíma. Samt sem áður fækkaði gestakomum svolítið frá þeim metfjölda sem heimsótti staðinn á síðasta ári. Áfram var haldið með það fyrirkomulag að dreifa leiðsagnarbæklingum til gesta sem fáanlegur var á 5 tungumálum eins og fyrri ár.
Þjóðhátíðardeginum 17. júní voru líka gerð betri skil en oft áður. Nýr íslenskur fáni var dreginn að húni og haldin var búningasýning á Hlöðuloftinu sem þjóðfræðingurinn og starfskraftur MMÞ á Grenjaðarstað, Anna Karen
Þjóðsögur og vikivaki á Grenjaðarstað. Myndir MMÞ.
SAFNI 26
Unnsteins, skipulagði og hafði umsjón með ásamt Elínu Kjartansdóttur úr handverkshópnum Hlöðunni. Ýmsir kvenbúningar og íhlutar þeirra, í einkaeigu sem og eigu MMÞ, voru til sýnis, auk þess sem starfsfólk var uppáklætt. Heppnaðist viðburðurinn einstaklega vel og mæltist erindi Önnu Karenar fjallkonan fríð – hver er hún, hvaðan kom hún og hvert stefnir hún? einnig vel fyrir hjá fjölda gesta sem heimsóttu staðinn þennan dag. Annar viðburður fór fram að kvöldi síðasta formlega opnunardags sumarsins 15. ágúst en þá skipulagði Anna Karen baðstofukvöld með upplestri á þjóðsögum og fékk til liðs við sig hóp sveitunga sem lásu upp huldufólks- og draugasögur úr héraði. Upplestur fór fram á Hlöðuloftinu, í baðstofu gamla torfbæjarins, og í Grenjaðarstaðarkirkju. Sérstakir gestir kvöldsins voru meðlimir þjóðháttafélagsins Handraðans úr Eyjafirði sem enduðu kvöldið á því að leiða dans á vikivaka, hringdans í jöfnum takti við vikivakakvæði, gestum til gleði og ánægju. Viðburðurinn var vel sóttur.
Snartarstaðir
Byggðasafn Norður-Þingeyinga er staðsett að Snartarstöðum í Öxarfirði, aðeins 1 km frá Kópaskeri. Starfsemi safnsins einkenndist af stuttri sumaropnun frá 15. júní til 30. júlí, þriðjudaga til sunnudaga milli 11 og 17, sem kom til vegna mikillar vinnu sem fyrir lá bæði á húsnæði og safneign. Fáir gestir heimsóttu safnið á tímabilinu og breytinga er greinilega þörf er kemur að bæði miðlun og kynningu. Þess skal geta að greiningarsýning á vegum Ljósmyndasafns Þingeyinga var haldin á Snartarstöðum frá 22. júní til 31. júlí við ánægju heimafólks sem gerði sér ferð að safninu til þess að skoða og greina fólk, hús og staði.
Í maí lagði Þórdís Baldursdóttir textílforvörður leið sína á Snartarstaði til til að skoða uppsetningu textíla sem þar hafa verið til sýnis í áratugi og lagfærði m.a. kvenbúninga safnsins. Með henni í för var útstillingahönnuðurinn Elín Björg Ingólfsdóttir sem mun endurraða sýningunni haust og vetur 2023-2024 ásamt aðstoðarfólki. Lögð voru fyrstu drög að breytingum í vorferð þessari.
Lagfæringar skráninga og tenging mynda við þegar skráða muni sátu því miður á hakanum líkt og undanfarin ár en er löngu tímabært verk og sama má segja um framsetningu muna og minja þannig að sem flestir hópar samfélagsins njóti, skilji og hafi gagn og gaman af. Von er til þess að breytingar eigi sér stað þessu tengt á komandi misserum og samhliða breyttri sýningu.
Bryndís Símonardóttir vann í sjálfboðavinnu um sumarið við að yfirfara textíla safnsins með tilliti til sýnileika og gæða fyrir héraðið og sá um að útbúa kjörgripaskrá í Sarpi fyrir Byggðasafn Norður-Þingeyinga. Þess má geta að munir Helga í Nýhöfn voru færðir úr herbergi á annarri hæð og fram í sal á
SAFNI 27
sömu hæð þar sem ætlunin er að sýna þá betur en áður. Í herberginu á annarri hæð var útbúin gistiaðstaða og er það von stofnunarinnar að betur gangi að ráða sumarstarfsfólk með þeirri viðbót Í september byrjaði hin eiginlega vinna við endurgerð sýningarinnar en hún hófst með því að sýningarsalur á neðri hæð og salur framan við bókasafn á efri hæð voru málaðir í litum. Því næst hófst Elín Björg hönnuður handa við tilfærslur og alsherjar breytingar í öllum rýmum á báðum hæðum, dvaldi nokkra daga í einu fram að jólum og mun halda áfram á árinu 2024 þar til ný sýning hefur verið fullkláruð.
Skipt var um allar rúður í gluggum Snartarstaða skv. samþykkt stjórnar þar um og loksins varð neyðarútgangur á annarri hæð hússins einnig að veruleika. Umhirða lóðar var í höndum Ásgeirs Kristjánssonar.
Sauðaneshús
Sauðaneshús er hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands en MMÞ rekur þar byggðasýningu sem opin var frá 15. júní til 15. ágúst, þriðjudaga til sunnudaga milli 11 og 17, líkt og undanfarin sumur. Listafólkið Auður Lóa Guðnadóttir og Starkaður Sigurðsson héldu utan um viðburði í húsinu, ásamt safngæslu, eins og síðastliðin 7 ár, auk þess að starfrækja kaffisölu.
Haldið var opið hús í safninu þann 15. júlí í tilefni Bryggjudaga á Þórshöfn og var þá kaffi á könnunni og hægt að gæða sér á pönnukökum í tilefni dagsins. Þann 9. ágúst var svo tónlistarhátíðin Windworks að hluta til haldin í Sauðaneshúsi en þar voru haldnir tvennir tónleikar, Tríó og Dúó.
Gestavinnustofan Röstin Residency var ekki starfrækt á Þórshöfn þetta sumarið eins og undanfarin ár og því engin samvinna á milli hennar og MMÞ. MMÞ sér um minniháttar viðhald á staðnum en Þjóðminjasafn Íslands annast stærri viðhaldsverkefni. MMÞ hefur eftirlit með Sauðaneshúsi allan
SAFNI 28
Snartarstaðir.
Mynd MMÞ.
ársins hring skv. samningi við Þjóðminjasafn þar um. Engin stærri viðhaldsverkefni voru unnin í Sauðaneshúsi á árinu en starfsmenn áhaldadeildar Langanesbyggðar aðstoðuðu við tilfallandi smáverkefni. Um slátt lóðar sáu Halldóra Ágústsdóttir og Karl Ásberg Steinsson.
Aðföng
Byggðasafn Þingeyinga
Árið 2023 bættust meðal annars eftirfarandi munir í safneign byggðasafna:
• Jón Erlendsson færði safninu gamla kistu með áletruninni „1797“. Var kistan í eigu Aðalbjargar Jónsdóttur (1880-1943) húsfreyju á Mýri í Bárðardal (1880-1943) og síðar Kristjönu Jónsdóttur (1924-2008) dóttur hennar.
• Ingólfur Árnasson gaf safninu reislu sem fannst í dánarbúi Gunnars Hvanndal (1930-2006) á Húsavík. Grunur leikur á því að reislan hafi verið í eigu Kristins Tómassonar (1858-1957) pósts.
• Jón Sveinn Þórólfsson gaf safninu fjórar útsaumsmyndir frá Stóruvöllum
í Bárðardal. Ein þeirra var saumuð af Þuríði Pálsdóttir (1900-1973) og hinar þrjár saumaði Sigríður Jónsdóttir (1869-1948).
• Dóra Hafsteinsdóttir gaf kistil sem móðir hennar Jakobína Sigurveig Pétursdóttir (1917-1993) fékk þegar hún var í sveit á Snartarstöðum.
• Vilborg Sveinbjarnardóttir gaf safninu bækur úr búi Sveinbjarnar Benediktssonar (1895-1948) og Sr. Benedikts Kristjánssonar (1840-1915). Með bókunum fylgdi lítil glerskál og bókamerki sem Regína Magðalena Hansdóttir Sivertsen (1887-1929) saumaði og gaf móður sinni Ástu Þórarinsdóttir (1859-1929).
SAFNI 29
Sauðaneshús.
Mynd MMÞ.
• Björg Björnsdóttir færði safninu ýmsa muni úr búi Guðmundar Kristjánssonar (1884-1965) og Bjargar Indriðadóttur (1888-1925) frá Víkingavatni
í Kelduhverfi. Má þar nefna íleppa, rúningsklippur, krullujárn, sykurtöng og tóbakshníf.
• Baldur Þorgilsson gaf safninu frumgerð styttu af Jóni Trausta (1873-1918).
Friðbjörg Jónsdóttir lét útbúa styttuna en Jón faðir Friðbjargar var bróðir Jóns Trausta. Frumgerðin stóð lengi hjá móður gefanda, Emmu Benediktsdóttur (1928-) á Kársnesbraut 47 í Kópavogi, en afsteypa er á Byggðasafni Norður-Þingeyinga á Snartarstöðum.
• Haraldur Sigurjónsson gaf safninu hraun úr Kröflueldum, steina úr Hallbjarnarstaðakambi og víðar, úr búi Sigurjóns Jóhannessonar (1926-2019).
• Edda Lóa Phillips og Halla Rún Tryggvadóttir gáfu safninu Pfaff saumavél sem Kristín Kristjánsdóttir (1910-2002) saumakona átti og notaði til að sauma jakkaföt.
Myndlistarsafn Þingeyinga
Árið 2023 voru 13 listaverk afhent og skráð í safnið.
• Gústav Geir Bollason færði safninu fjögur málverk og eitt vídeólistaverk að gjöf.
• Birgir Þór Þórðarson afhenti safninu eitt olíumálverk og tvö vatnslitaverk eftir Jóhann Björnsson, úr dánarbúi Friðriku Þorgrímsdóttur.
• Atli Vigfússon í Laxamýri gaf safninu tvær ljósmyndir sem prýddu sýningu hans í myndlistarsalnum á árinu.
• Frímann Sveinsson gaf vatnslitamynd úr eigin smiðju.
• Inga Huld Tryggvadóttir gaf myndlistarverk úr áldósum, af Húsavíkurkirkju, unnið af listakonunni sjálfri
• Baldur Þorgilsson afhenti safninu lágmynd, frumgerð styttu af skáldinu Jóni Trausta.
Náttúrugripasafn Þingeyinga
Engir munir voru afhentir Náttúrugripasafni Þingeyinga á árinu.
Sjóminjasafn
Engir munir voru afhentir Byggðasafni Suður-Þingeyinga sem falla undir safneign Sjóminjasafns á árinu.
Sigríður Örvarsdóttir
Safnstýra og forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Þingeyinga
SAFNI 30
Héraðsskjalasafn Þingeyinga
Starfsemi og aðbúnaður
Hlutverk Héraðsskjalasafna er söfnun, innheimta, skráning og varanleg varðveisla skjala og annarra heimilda er tengjast héraðinu til notkunar fyrir stjórnendur og starfsmenn sveitarfélaga og stofnanna þeirra, svo og fyrir einstaklinga. Héraðsskjalasöfnum ber einnig að annast eftirlit og ráðgjöf varðandi skjalavörslu. Þjónustuhlutverk héraðsskjalasafna verður stöðugt veigameira og mikilvægt að tryggja að sveitarfélögin og almenningur hafi aðgang að safnkostinum.
Frá árinu 2010 hefur verið tekin saman tölfræði yfir ýmsa þætti starfseminnar. Söfnun og greining á þeirri tölfræði er mikilvæg til að móta framtíðarstefnu Héraðskjalasafns Þingeyinga. Alls bárust 264 fyrirspurnir á árinu eða að meðaltali rúmlega 22 á mánuði. Flestar fyrirspurnirnar eða 55% bárust með komu fólks á skjalasafnið. Í 30% tilfella bárust fyrirspurnirnar með tölvupósti og í 11% tilfella bárust þær símleiðis. Þá bárust 2 fyrirspurnir í gegnum samfélagsmiðla eða vef. Héraðsskjalavörður fór í 9 heimsóknir á árinu. Þetta voru eftirlitsheimsóknir og heimsóknir til aðila sem voru að skila inn skjölum og óskuðu eftir leiðbeiningum um frágang skjalasafna.
Opnunartími skjalasafnsins var mánudaga til föstudaga kl. 10-16 en á mánudögum er einungis tekið við fyrirspurnum símleiðis eða í gegnum tölvupóst. Alls voru 124 skjalaöskjur afgreiddar á lestrarsal. Voru skrifborð í lestrarsalnum endurnýjuð á árinu.
Miðlun
Héraðsskjalasafnið fékk tvo verkefnastyrki frá Þjóðskjalasafni Íslands á árinu. Annar styrkurinn var fyrir verkefnið „Gjörðabækur hreppa“ og var hann upp á
Þingeyinga
Fyrirspurnir 2023
Héraðskjalasafn Þingeyinga
Fyrirspurnir 2023
Héraðsskjalasafn Þingeyinga
Fjöldi fyrirspurna 2023
SAFNI 31
0 10 20 30 40 Jan Feb Mar Apr Maí Jún Júl Ágú Sep Okt Nóv Des
144 9 28 2 81
Héraðsskjalasafn
Kom Fór til Símtal Facebook E-mail
kr. 1.000.000. Verkefnið fólst í því að ljósmynda gjörðabækurnar, skrá lýsigögn og miðla bókunum á vefnum. Alls fékk 41 bók þessa meðferð eða samtals 8.788 blaðsíður. Erika Lind Isaksen vann verkefnið og fær hún þakkir fyrir vel unnið starf. Hinn styrkurinn var fyrir verkefnið „Þingeyingaskrá II“ og var 500.000 krónur. Samtals voru 24 bækur ljósmyndaðar eða alls 5.546 blaðsíður. Styrmir Franz Snorrason var ráðinn í verkefnið og fær hann þakkir fyrir vel unnið starf. Allar bækurnar 24 voru birtar á skjalavef á heimasíðu safnsins í
E-1726/51 Úr Þingeyingaskrá
Konráðs Vilhjálmssonar . Á skjalavef héraðsskjalasafnsins.
lok árs. Bækurnar úr fyrra verkefninu munu birtast á sama vef í byrjun mars 2024. Bæði þessi verkefni gengu vel.
Miðstöð héraðsskjalasafna um rafræna skjalavörslu (MHR)
Á árinu voru haldnir undirbúningsfundir vegna stofnunnar Miðstöðvar um rafræna skjalavörslu (MHR), þar sem öllum héraðsskjalasöfnum landsins var boðið að taka þátt. Meginmarkmið með stofnun miðstöðvarinnar er að styðja við stafræna umbreytingu hjá sveitarfélögunum ásamt því að byggja upp þekkingu en ekki síst að lækka kostnað við móttöku og langtímavörslu rafrænna stafrænna gagna.
Geta héraðsskjalasafna til að reka eigin móttökumiðstöðvar er afar misjöfn. Með því að taka þátt í rekstri MHR, eftir atvikum í gegnum byggðasamlög
SAFNI 32
eða aðra lögaðila sem reka skjalasöfn fyrir sveitarfélögin, tryggja sveitarfélögin sér grundvöll þess að hefja stafræna umbreytingu. Á sama hátt veita þau héraðsskjalasöfnum landsins nauðsynlegan stuðning til að uppfylla lagaskyldur sínar um móttöku rafrænna gagna, óháð stærð sveitarfélaga sem að baki þeim standa eða þekkingu innan héraðsskjalasafnanna.
Stofnfundur MHR mun fara fram í ársbyrjun 2024 og Héraðsskjalasafn Þingeyinga stefnir að því að gerast stofnaðili að miðstöðinni.
Aðföng
Alls bárust skjalasafninu 43 afhendingar á árinu, 4 frá skilaskyldum aðilum og 39 einkaskjalasöfn. Afhendingarnar fylltu samtals tæpa 6 hillumetra í skjalasafninu. Allar afhendingarnar voru skráðar á árinu og voru því engin óskráð skjöl í Héraðsskjalasafni Þingeyinga um áramótin.
(aðfanganúmer – innihald – umfang í hillumetrum eða gagnamagni - afhendandi)
2023/1 Vigfús B. Jónsson. Dagbækur. 0,4 hm. Atli Vigfússon.
2023/2 Stangveiðifélag Húsavíkur. Veiðibækur. 0,08 hm. Guðmundur B. Guðjónsson.
2023/3 Grjótnesheimilið. Ýmis skjöl. 0,15 hm. Aðalgeir Egilsson.
2023/4 Bókasafn Reykdæla. Gjörðabók. 0,03 hm. Gréta Ásgeirsdóttir.
2023/5 Jón Benediktsson. Hlunnindaskýrslur. 0,03 hm. Jón Benediktsson.
2023/6 Hálshreppur. Bólusetningarbók. 0,03 hm. Hermann R. Herbertsson.
2023/7 Sigurjón Jóhannesson. Húsgull. 0,27 hm. Guðrún Jóhannesdóttir.
2023/8 Sighvatur Jónasson frá Helgastöðum. Gamlar bækur 0,08 hm. Lárus Sighvatsson.
2023/9 Öxarfjarðarhreppur. Gjörðabækur. 0,68 hm. Gunnþóra Jónsdóttir.
2023/10 Anna Jónsdóttir. Bréfasafn. 0,03 hm. Anna Sif Jónsdóttir.
2023/11 Hrólfur Árnason Þverá. Stílabók. 0,03 hm. Bændablaðið.
2023/12 Lundarbrekkukirkja. Bókhaldsgögn. 0,08 hm. Ríkharður Sölvason
2023/13 Norðurþing, félags- og skólaþjónusta. Trúnaðarskjöl. 1,16 hm. Sólveig Mikaelsdóttir.
2023/14 Þormóður Ásvaldsson. Einkaskjöl. 0,07 hm. Jörgen Þormóðsson. 2023/15 Rögnvaldur Stefánsson. Dagbækur og bréf. 0,11 hm. Stefán Rögnvaldsson.
2023/16 Kvenfélag Húsavíkur. Ýmis skjöl. 0,74 hm. Helga Kristinsdóttir.
2023/17 Harmonikufélag Húsavíkur. Hljóðsnældur. 0,03 hm. Þórhildur Sigurðardóttir.
2023/18 Framsóknarfélag Þingeyinga. Gjörðabækur o.fl.. 0,19 hm. Eiður Pétursson.
2023/19 Ljósmyndaklúbbur Húsavíkur. Fréttabréf. 0,01 hm. Jónas Emilsson.
SAFNI
33
2023/20 Þingeyjarsveit. Skýrsla um hamfarirnar 2021. 0,03 hm. Hlöðver Stefán Þorgeirsson.
2023/21 Hermann Hjartarson. Líkræður o.fl.. 0,95 hm. Sigríður Kristín Þórhallsdóttir.
2023/22 Sigtryggur Friðriksson. Dagbók. 0,01 hm. Elín Sigurbjörg Jónsdóttir.
2023/23 Hermann R. Herbertsson. Ýmis skjöl. 0,01 hm. Hermann R. Herbertsson.
2023/24 Samkór Húsavíkur. Sönghefti. 0,08 hm. Ágúst Jónatansson.
2023/25 Pétur Jónasson. Ýmis skjöl. 0,03 hm. Sigríður Pétursdóttir.
2023/26 Þura Árnadóttir í Garði. Minningabók. 0,01 hm. Ásþór Sævar Ásþórsson.
2023/27 Alda P. Benediktsdóttir/Kristín Axelsdóttir. Bréfasafn. 0,1 hm. Benedikt Sigurðsson.
2023/28 Ferðafélag Húsavíkur. Ferðasögur o.fl. 0,03 hm. Björn Sigurðsson. 2023/29 Jónas Sigurðarson. Heimarafstöðvar í S.-Þing. 0,01 hm. Jónas Sigurðarson.
2023/30 Landeigendafélagið. Dómsskjöl. 0,52 hm. Jón Benediktsson Auðnum. 2023/31 Þórarinn Björnsson. Hljóðupptökur. 0,36 hm. Arna Þórarinsdóttir. 2023/32 Safnahúsið á Húsavík. Gestabók 2021-2023. 1,0 hm. Sigríður Örvarsdóttir.
2023/33 Harmonikufélag Húsavíkur. Fundagerðabók. 0,04 hm. Þórhildur Sigurðardóttir.
2023/34 Óli á Skútustöðum. Hljóðupptaka. 594 MB. Sr. Örnólfur Jóhannes Ólafsson.
2023/35 Ýmsir. Líkræður, bréf o.fl.. 0,02 hm. Aðalgeir Egilsson.
2023/36 Gagnfræðaskóli Húsavíkur. Nótur. 0,01 hm. Ingimundur Jónsson.
2023/37 Óþekktur. Hlunnindalýsing Grenjaðarstaðar 1797. 0,01 hm. Hallfríður Egilsdóttir.
2023/38 Jón Jóakimsson. Dagbókarbrot. 0,01 hm. Svanhildur Þorgilsdóttir.
2023/39 Halldórsstaðaheimilið. Bréfasafn. 0,75 hm. Hallgrímur og Halldór Valdimarssynir.
2023/40 Félag áhugamanna um harmonikuleik í Suður-Þingeyjarsýslu. Félagsmannatal. 0,01 hm. Þórhildur Sigurðardóttir.
2023/41 Mjólkurdeild Aðaldæla. Gjörðabók. 0,03 hm. Guðmundur Sigurðsson.
2023/42 Karl Einarsson Túnsbergi. Hljóðupptaka. 688 MB. Hildigunnur Ólafsdóttir.
2023/43 Norðurþing Keldan. Ljósmyndir. 0,08 hm. Anna Gunnarsdóttir.
SAFNI 34
Ljósmyndasafn Þingeyinga Starfsemi og aðbúnaður
Heildarsafneign Ljósmyndasafns Þingeyinga í lok árs 2023 er talin vera tæplega 170.000 myndir. Ljósmyndasafn Þingeyinga er skráð í tvo aðskilda gagnagrunna, Ljósmyndasafn og Mannamyndasafn. Af þessum heildarfjölda voru í lok ársins 104.107 myndir tölvuskráðar í gagnagrunni ljósmyndasafnsins og 15.941 mynd í gagnagrunni mannamyndasafnsins. Samtals voru því 120.048 myndir tölvuskráðar í lok ársins. Á árinu náðist að skanna og skrá 4.081 mynd sem er heldur minna en síðustu ár. Safnauki á árinu var 447 myndir (við þá tölu á eftir að bætast fjöldi mynda sem er í ljósmyndasafni Péturs Jónassonar).
Skrifað var formlega undir samning um móttöku safneignar Péturs Jónassonar ljósmyndara. Að lokum vill Ljósmyndasafnið þakka Kristbjörgu Jónasdóttur aðstoð við greiningu ljósmynda á árinu.
Miðlun
Nokkrar greiningarsýningar fyrir eldri borgara voru haldnar á árinu. Þann 19. janúar var haldin sýning í Mývatnssveit, þann 7. mars í Þingeyjarskóla, þann 17. október var sýning í Stórutjarnarskóla, þann 9. nóvember í Mývatnssveit og þann 21. nóvember í Þingeyjarskóla. Í mars var ljósmyndasafnið í samstarfi við Húsavíkurstofu vegna sýningar á sögu skíðaiðkunar á Húsavík og lagði safnið til ljósmyndir á sýninguna.
Skrifað var undir samning um móttöku safneignar Péturs Jónassonar ljósmyndara. Mynd MMÞ.
SAFNI 35
Þegar nýja heimasíðan var tekin í notkun í janúar 2023 opnuðust möguleikar til að vera með ljósmyndasýningar á vefnum. Í lok árs fékkst styrkur úr safnasjóði í verkefnið „Kynning á völdum ljósmyndasöfnum í safneign Ljósmyndasafns Þingeyinga“. Tilgangur verkefnisins er að efla kynningu á safneign ljósmyndasafnsins á heimasíðu MMÞ. Úrval mynda úr ljósmyndasöfnum
Eiríks Þorbergssonar og Sigríðar Ingvarsdóttur verða birt á heimasíðunni haustið 2024. Ein greiningarsýning var birt á nýju heimasíðunni og bárust fjölmargar ábendingar um myndirnar.
Aðföng
Alls bárust ljósmyndasafninu 9 afhendingar á árinu 2023 og varð safnaukinn 2.447 myndir að ótöldum myndum Péturs Jónassonar.
(aðfanganúmer - um myndirnar – afhendingaraðili - fjöldi mynda)
2023/1 Myndir frá Pétri Jónassyni. Hafþór Hreiðarsson. 365 stk.
2023/2 Myndir úr fórum Sigurjóns Jóhannessonar. Guðrún Sigurjónsdóttir. 754 stk.
2023/3 Mynd frá Landamótselsheimilinu. Helga A. Erlingsdóttir. 5 stk.
2023/4 Myndir frá Kvenfélagi Húsavíkur. Helga Kristinsdóttir. 412 stk.
2023/5 Myndir frá Framsóknarfélagi Þingeyinga. Eiður Pétursson. 279 stk.
2023/6 Myndir frá Kiwanisfélagi Vopnafjarðar. Daníel Hansen. 169 stk.
2023/7 Ljósmyndasafn Péturs Jónassonar. Sigríður og Helgi Pétursbörn. Ótalið.
2023/8 Myndir frá Birni Sigurðssyni. Björn Sigurðsson. 429 stk.
2023/9 Myndir úr fórum Sjafnar Jóhannesdóttur frá Fjöllum II. Ólafur Jón Héðinsson. 34 stk.
Snorri Guðjón Sigurðsson Héraðsskjalavörður og umsjónarmaður Ljósmyndasafns Þingeyinga.
SAFNI 36
Árbók Þingeyinga
Eldri bækur til sölu!
Árbók Þingeyinga hefur verið gefin út árlega frá 1958.
Uppseldir eru eftirfarandi árgangar: 1958, 1968, 1969, 1970, 1971, 1973, 1974.
Oft er hægt að fá eintök á fornbókasölum.
Allir aðrir árgangar eru fáanlegir á hagstæðu verði.
Verð á hverri bók af þeim sem til eru frá upphafi og til ársins 2004 er kr. 500,-
2005 kr. 1.000,-
2006 kr. 1.000,-
2007 kr. 1.000,-
2008 kr. 1.000,-
2009 kr. 1.000,-
2010 kr. 1.000,-
2011 kr. 1.500,-
2012 kr. 1.500,-
2013 kr. 1.500,2014 kr. 2.000,-
2015 kr. 2.000,-
2016 kr. 2.000,-
2017 kr. 2.500,2018 kr. 2.500,-
2019 kr. 2.500,-
2020 kr. 3.800,2021 kr. 4.200,2022 kr. 4.900,2023 kr. 5.500,-
Þeir sem vilja bæta í safnið hjá sér eða koma sér upp heildarsafni hafi samband í síma 464 1860 eða með pósti á netfangið safnahus@husmus.is
Halldórsstaðaheimilið í Laxárdal - Magnús Þórarinsson. Einkaleyfi M.Þ. v/uppfinningar dúnhreinsivélar útgefið af Friðrik áttunda 1909. HérÞing. E-1786/41