1 minute read
Hjólað í vinnuna
Markmið Hjólað í vinnuna er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að nota virkan ferðamáta. Fyrir mörgum er verkefnið vorboðinn ljúfi og er verkefnið stór þáttur í fyrirtækjamenningu á mörgum vinnustöðum. Landsmenn hafa tekið verkefninu mjög vel og hefur hjólaumferð aukist verulega síðan verkefnið fór fyrst af stað.
Árið 2021 og 2022 tóku samtals tæplega 12.000 manns þátt í verkefninu og hjóluðu samanlagt tæplega 753.000 mínútur sem gera yfir 400.000 hreyfidaga.
Advertisement
Hjólað í vinnuna 20 ára, 2022. Á setningarhátíð átaksins, vakti Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra athygli á því að Hjólað í vinnuna væri eitt mikilvægasta lýðheilsuverkefni sem sett hefur verið af stað á undanförnum áratugum. Átakið sameinaði allt það besta sem skilgreinir lýðheilsu, því það að skipta yfir í virkan ferðamáta hefur víðtæk áhrif á bæði heilsu og á umhverfið. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri sagði að það væri gaman að líta til baka og rýna í þessi tuttugu ár sem verkefnið hefur staðið yfir. Hjólreiðar væri sá ferðamáti sem hefði vaxið hvað mest eða úr 0% um það leyti sem Hjólað í vinnuna hófst í það að vera 7% ferða sem farnar eru til og frá vinnu nú tuttugu árum síðar. Jafnframt vakti hann athygli á því að rafhjólin hafa gert fleirum kleift að nýta hjólið sem ferðamáta. Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri
Umhverfisstofnunar nefndi að Hjólað í vinnuna væri eitt alskemmtilegasta almenningsíþróttaátak sem hún hefur tekið þátt í. Jón Gunnar Jónsson forstjóri Samgöngustofu lagði áherslu á að hjólandi og gangandi þurfa að bera virðingu fyrir hvort öðru, sýna aðgát og tillitssemi. Ingvar Ómarsson hjólreiðakappi sagði sögu sína að hjóla til og frá vinnu yfir í það að hafa atvinnu af því að hjóla í dag. Gestir setningarhátíðarinnar hjóluðu síðan verkefnið formlega af stað.
Á heimasíðu Hjólað í vinnuna, www.hjoladivinnuna.is, má finna allar nánari upplýsingar um verkefnið.