1 minute read

Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Banská Bystrica 2022

Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar fór fram í Banská Bystrica í Slóvakíu 24. - 30. júlí 2022. Hátíðin átti að fara fram árið 2021 en var frestað vegna COVID-19. Alls tóku 2.252 keppendur þátt á hátíðinni frá 48 Evrópuþjóðum. Kynjahlutfall hefur aldrei verið eins jafnt á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar en 1.128 stúlkur tóku þátt og 1.126 drengir. Ísland sendi tvo keppendur í badminton, sex í fimleika, fjóra í frjálsíþróttir, þrjá í götuhjólreiðar, fimm í sund, tvo í júdó, einn í tennis og 15 í handknattleik drengja.

Setningarhátíðin fór fram á fallegu torgi í Banská Bystrcia þar sem fánaberar Íslands voru þau Nadja Djurovik, keppandi í sundi og Ásgeir Bragi Bryde Þórðarson, keppandi í handknattleik.

Advertisement

Íslensku keppendurnir stóðu sig með prýði. Mikið var um persónulega sigra og góðan árangur. Besta árangri Íslendinga á hátíðinni náði Birnir Freyr Hálfdánarson með bronsi í 200m fjórsundi þegar hann synti á tímanum 2:05,33 sem var bæting á unglingametinu á Íslandi í greininni. Þetta voru fyrstu verðlaun Íslendings á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar frá því árið 1997 þegar Einar Karl Hjartarson hástökkvari, Örn Arnarson sundmaður og Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir sundkona nældu sér öll í verðlaun.

Lokahátíðin fór fram inni í íþróttamannvirki vegna rigningar og þrumuveðurs laugardaginn 30. júlí. Birnir Freyr Hálfdánarson sundmaður var fánaberi Íslendinga á hátíðinni.

This article is from: