ÍSÍ
Október 2017
FRÉTTIR
Ávarp forseta Forysta ÍSÍ sækir árlega fund norrænna íþróttaog Ólympíusamtaka þar sem fjallað er um sameiginleg hagsmunamál og það sem helst brennur á íþróttahreyfingunni hverju sinni. Undanfarin ár hefur málaflokkurinn konur og íþróttir verið fyrirferðarmikill en mismunandi er á milli landa í Skandinavíu og í heiminum öllum hvernig unnið er að því að auka þátt kvenna, bæði sem iðkendur og einnig sem leiðtoga í hreyfingunni. Allar einingar íþrótta geta haft áhrif á þennan málaflokk og er víða vel unnið að jafnrétti kynjanna. Mikilvægt er að huga að öllu regluverki okkar í hreyfingunni til að skapa rými fyrir breytingar og bætingar að þessu marki. Hver íþrótt og hver eining innan íþróttahreyfingarinnar þarf að vera vakandi fyrir því að skapa og viðhalda jafnrétti í íþróttum sem og í stjórnum og ráðum. Samkvæmt lögum ÍSÍ er einn megintilgangur sambandsins að berjast gegn hvers kyns mismunun og ofbeldi í íþróttum, hvort sem um er að tefla mismunun vegna kynþáttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar eða af öðrum toga. ÍSÍ hefur á vefsíðu sinni leiðarvísi sem hugsaður er sem leiðbeinandi verkfæri fyrir íþróttafélög/deildir þegar setja á fram jafnréttisstefnu. Undir fræðslu og jafnréttismál má finna leiðarvísinn, eða hér. ÍSÍ undirritaði samnorræna yfirlýsingu í september 2016 þar sem því er lýst yfir að með samvinnu á milli íþrótta- og Ólympíusamtaka á Norðurlöndum munu samtökin vinna að því að efla stöðu kvenna í leiðtogastörfum í íþróttum, bæði hérlendis og erlendis. Alþjóðaólympíunefndin (IOC) hefur sett inn í stefnuskjal nefndarinnar að á Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2020 verði kynjahlutfall þátttakenda jafnt. Á ráðstefnu IOC um konur í leiðtogastörfum í íþróttahreyfingunni í Evrópu sem haldin var í Vilnius í síðustu viku kom fram í ávarpi forseta IOC að yfirgnæfandi líkur eru á því að þau markmið náist að mestu eða verði um 47-49%. Ástæðan fyrir því að þetta jafnvægi næst kannski ekki fullkomlega á Ólympíuleikunum í Tókýó er vegna þess að bæði kynin tefla ekki fram keppendum í öllum hópíþróttum á leikunum. IOC hefur einnig sett sér það markmið að konur verði í 30%
2
allra kjörinna embætta innan IOC en töluvert vantar upp á í dag til að uppfylla þetta markmið. Hjá Evrópusambandi Ólympíunefnda (EOC) er staðan enn verri. Á ofangreindri ráðstefnu í Vilnius var samþykkt að EOC er ábyrgt og leiðandi afl til að efla konur í leiðtogastörfum innan Evrópskrar íþróttahreyfingar og var lagt til að framkvæmdastjórn EOC taki upp og innleiði stefnu í jafnréttismálum með skýrum og mælanlegum markmiðum og veiti viðeigandi stuðning til þess. Einnig var lagt til að EOC hvetji Ólympíunefndir til að bjóða fram fulltrúa af báðum kynjum þegar kemur að kosningum. Engin kona er í stjórn EOC um þessar mundir þó að tvær konur starfi í stjórninni. Önnur er sjálfskipaður fulltrúi Alheimssambands Ólympíunefnda og hin var tekin inn í stjórn eftir að stjórnarmaður féll frá. ÍSÍ hefur boðið Líneyju Rut Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra ÍSÍ, fram til stjórnarsetu í EOC. Kosningar fara fram á ársþingi EOC seint í nóvember. Fjórar konur bjóða sig fram til stjórnar að þessu sinni og þá mun koma í ljós hversu mikill hugur fylgir máli. Allar þessar konur hafa gríðarlega reynslu sem leiðtogar í sínu landi og ættu að geta lagt mikið af mörkum í þágu Evrópskrar Ólympíuhreyfingar. Víða hafa sambönd og samtök sett ákvæði um kynjakvóta í lög sín, þannig að í öllum nefndum og ráðum innan þeirra vébanda þurfi að ná ákveðnu kynjajafnvægi. Íþróttahreyfingin á Íslandi hefur ekki innleitt slíka kvóta í starf sitt enda mögulega erfitt að uppfylla slíkar kröfur víða um sveitir. Allar leiðir má þó skoða í viðleitni til að bæta kynjajafnréttið í hreyfingunni. Sagt er að jafnvægi í kynjaskiptingu í stjórnum bæði félagasamtaka og fyrirtækja leiði til betri stjórnunar og betri stjórnunarhátta. Sterkar fyrirmyndir af báðum kynjum þarf til að leiða breytingar til batnaðar og mikilvægt er að efla sjálfstraust kvenna og stúlkna til að bjóða sig fram til ábyrgðarstarfa.
Nú er unnið að því að taka út tölfræði úr Felix, félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ um kynjaskiptingu íþróttahreyfingarinnar á Íslandi og einnig er verið að vinna úttekt á kynjaskiptingu í stjórnum sambandsaðila. Það verður fróðlegt að sjá
niðurstöðurnar, taka stöðuna og nýta þann úttektarpunkt til að setja okkur ný markmið í hreyfingunni.
Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ
Ráðstefna IOC um konur í leiðtogastörfum Alþjóðaólympíunefndin (IOC) og Ólympíunefnd Litháen stóðu fyrir ráðstefnu um konur í leiðtogastörfum 10.-11. október sl. á Radisson Blu hótelinu í Vilnius. Um 200 þátttakendur frá 40 Ólympíunefndum, frá Alþjóðaólympíunefndinni, Evrópusambandi ólympíunefnda (EOC) og mörgum alþjóðasamböndum íþrótta, sóttu ráðtefnuna. Thomas Bach, forseti IOC, setti ráðstefnuna og sagði Litháen vel til þess fallið að halda slíkan viðburð í ljósi þess að landið býr yfir sterkum kvenfyrirmyndum þar sem m.a. forseti landsins er kona og forseti Ólympíunefndar Litháen er einnig kona. Ólympíunefnd Litháen hefur einnig haft frumkvæði að mörgum góðum átaksverkefnum um jafnrétti kynjanna og konur í leiðtogastörfum. Halla Tómasdóttir, fyrrum forsetaframbjóðandi á Íslandi, var aðal fyrirlesari ráðstefnunnar og hélt mjög hvetjandi og kröftugan fyrirlestur á persónulegu nótunum um konur í leiðtogastörfum. Fyrirlestur hennar vakti gríðarlega mikla athygli meðal ráðstefnugesta og hlaut hún mikið lof fyrir innlegg sitt til ráðstefnunnar. Halla var mætt til leiks í landsliðstreyju KSÍ og í lok fyrirlestursins gaf hún boltann, í bókstaflegum skilningi, til karlmannanna í salnum með ósk um að þeir “tækju boltann” og leggðu sitt af mörkum með því að hvetja og styðja konur til leiðtogastarfa innan íþróttahreyfingarinnar. Ráðstefnan fór að mestu leyti fram með pallborðsumræðum og spurningum frá þátttakendum og kom margt áhugavert fram í þeim umræðum sem spunnust út frá umfjöllunarefni pallborðsins hverju sinni.
Meðal annars kom eftirfarandi sterkt fram: Jafnrétti kynjanna er ekki bara á höndum kvenna heldur beggja kynja. Jafnvægi í skiptingu kynja í stjórnunarstöðum leiðir af sér betri stjórnun og betri stjórnunarhætti. Ekkert mun breytast nema bæði karlar og konur sameini krafta sína til breytinga og að núverandi leiðtogar í íþróttahreyfingunni skuldbindi sig til að ná því markmiði að jafna skiptingu kynjanna innan viðkomandi samtaka. Markmið IOC er að konur verði í a.m.k. 30% kjörinna embætta innan íþróttahreyfingarinnar fyrir árið 2020. Ráðstefnuna sóttu Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ og Halla Kjartansdóttir skrifstofustjóri ÍSÍ.
Halla Tómasdóttir, Líney Rut og Halla Kjartansdóttir.
ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS
Á Akureyri.
Í Vestmannaeyjum.
Göngum í skólann Við setningu verkefnisins.
Á Ísafirði.
Á Úlfarsfelli.
Verkefnið Göngum í skólann fór fram í ellefta sinn í ár. Setning var þann 6. september sl. og lauk verkefninu formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum 4. október. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Nánari upplýsingar eru á vefsíðu Göngum í skólann gongumiskolann.is. Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta eða hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða. Á síðasta ári tóku milljónir barna í yfir 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Hér á landi voru um 70 skólar skráðir til leiks og hefur þátttakan vaxið jafnt og þétt í gegnum árin, en fyrsta árið voru þátttökuskólar 26 talsins. Verkefnið er orðið að árlegum viðburði í mörgum skólum og býður upp á lærdómsríka og skemmtilega leið fyrir nemendur til að fræðast um umferðarreglur, öryggi og umhverfismál. Fjölmargt hefur verið í gangi hjá skólunum, en hver skóli skipuleggur og framkvæmir Göngum í skólann með sínu nefi. Nokkrir skólar sendu myndir og frásagnir frá sínum degi. Í Vestmannaeyjum hittust vinabekkir innan skólans og áttu góðan dag saman og fóru m.a. í hópeflisleiki. Umferð í kringum skólann var minni á meðan á verkefninu stóð og reiðhjól fleiri. Nemendur Rimaskóla fengu fræðslu um mikilvægi hreyfingar, hollustu og heilbrigðis og gengu saman hollustuhring umhverfis skólann. Nemendur í 6. bekk í Rimaskóla fóru í fjallgöngu á Úlfarsfell, en það gerðu nemendur Dalskóla einnig. Í Dalskóla skráðu allir krakkar sinn ferðamáta fram að 4. október. Nemendur í Glerárskóla á Akureyri fóru í margar gönguferðir innan Akureyrar og allir árgangar í Grunnskólanum á Ísafirði fóru í fjallgöngur í nágrenni bæjarins. Eftirtaldir aðilar standa að Göngum í skólann verkefninu: Íþróttaog Ólympíusamband Íslands, Samgöngustofa, Embætti landlæknis, ríkislögreglustjóri, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Heimili og skóli og Slysavarnarfélagið Landsbjörg.
Gestir við setningu verkefnisins. 4
Ísland fyrirmynd í forvarnarstarfi Tólf manna sendinefnd frá Matanuska Susitna Borough í Alaska átti fund með framkvæmdastjóra ÍSÍ og framkvæmdastjóra ÍBR í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í gær. Sendinefndin er hér á landi til að kynna sér hvernig staðið er að uppeldi barna- og unglinga og kynna sér forvarnarstarf hvers konar. Í Alaska og Matanuska Susitna Borough er mikil notkun vímuefna, há tíðni sjálfsvíga og mikið þunglyndi meðal ungmenna. Þau höfðu heyrt af „Íslenska módelinu“. Árið 1997 fór hópur félagsvísindafólks, stefnumótunaraðila og fólks sem starfaði með börnum og ungmennum að setja fram stefnu og starf, byggt á rannsóknum, til að vinna gegn vímuefnaneyslu ungmenna sem þá var ört vaxandi vandamál hér á landi. Þetta kemur fram á vefsíðu ICSRA (www.rannsoknir.is). Sú vinna leiddi af sér forvarnarlíkan sem gengur undir nafninu “Íslenska módelið” og byggir á samstarfi fjölmargra hluteigandi aðila, t.a.m. foreldra, kennara, félagsmiðstöðva, íþróttahreyfingarinnar
og fleiri aðila í nærumhverfi barna og ungmenna. Þetta líkan hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og voru þessir aðilar frá Alaska áhugasamir um þann góða árangur sem náðst hefur hér á landi í forvörnum.
Heimsókn sendinefndarinnar til ÍSÍ og ÍBR var að fá upplýsingar um hlutverk og skipulag íþróttahreyfingarinnar, barna- og unglingastarf og starf íþróttafélaganna. Auk þess að fá kynningu á starfi íþróttahreyfingarinnar, þá skoðaði sendinefndin íþróttamannvirki í Laugardal.
Afmælisár Ólympíufara 2017
Hópur þeirra sem mættu á kaffisamsæti SÍÓ.
Stjórn Samtaka íslenskra Ólympíufara (SÍÓ) bauð upp á kaffisamsæti þann 16. október sl. í salarkynnum ÍSÍ í Laugardal. Öllum Ólympíuförum; keppendum, þjálfurum, farastjórum, o.fl. var boðið. Tilefnið var að fagna afmælisárum frá þátttöku Íslands í sumar- og vetrarólympíuleikum og þá sérstaklega Sumarólympíuleikunum árið 1972 í Munchen. Skemmtileg myndasýning fór fram og forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson,
heiðraði gesti og sagði nokkur orð, en Jóhannes faðir hans var þjálfari íslenska frjálsíþróttahópsins á leikunum í Munchen. Mikil ánægja var með kaffisamsætið og von SÍÓ er sú að enn fleiri Ólympíufarar mæti á viðburði á vegum samtakanna og efli þannig samskipti þessa mæta hóps.
ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS
Heimsóknir forseta ÍSÍ til héraðssambanda Forseti ÍSÍ, Lárus L. Blöndal, heimsótti starfssvæði Héraðssambands Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH), Ungmennasambands Dalamanna og N-Breiðfirðinga (UDN) og Héraðssambands Strandamanna (HSS) þann 26. september sl. ásamt Sigríði Jónsdóttur varaforseta ÍSÍ, Hafsteini Pálssyni ritara ÍSÍ, Líneyju Rut Halldórsdóttur framkvæmdastjóra og Höllu Kjartansdóttur skrifstofustjóra. Heimsóknin til HSH hófst í Laugargerðisskóla þar sem Harpa Jónsdóttir formaður Íþróttafélags Miklaholtshrepps og Sigurður Jónsson kennari í Laugargerðisskóla tóku á móti hópnum. Mannvirkin á staðnum voru skoðuð en þar er íþróttahús og einnig sundlaug. Þaðan var ekið á Hellissand þar sem Þorsteinn Haukur Harðarson framkvæmdastjóri Víkings/Reynis tók á móti hópnum. Mannvirki á Hellissandi voru skoðuð og í kjölfarið mannvirkin í Ólafsvík. Þar hefur helsta uppbyggingin verið við íþróttahús og Ólafsvíkurvöll en karlalið Víkings/Reynis hefur leikið í Pepsi deildinni í knattspyrnu undanfarin ár. Í Grundarfirði var fundað á Kaffi Emil með fulltrúum HSH, aðildarfélaga þess og oddvita sveitarfélagsins. Á fundinum afhenti Lárus L. Blöndal nýráðnum framkvæmdastjóra HSH, Laufeyju Helgu Árnadóttur, fána ÍSÍ fyrir skrifstofu sambandsins. Var fundarsetan fyrsta embættisverk Laufeyjar Helgu sem framkvæmdastjóra HSH. Eftir góðan fund og skoðun íþróttamannvirkja á Grundarfirði sem Garðar Svansson frá HSH, Ragnar Smári Guðmundsson formaður Umf. Grundarfjarðar og Eyþór Garðarsson oddviti í Grundarfjarðarbæ leiddu, var ekið til Stykkishólms þar sem Kristinn Hjörleifsson formaður HSH og Umf. Snæfells og Arnar Hreiðarsson forstöðumaður íþróttamannvirkja í Snæfellsbæ tóku á móti hópnum. Í Stykkishólmi var íþróttahús og sundlaug
Föruneyti ÍSÍ átti góðan fund með fulltrúum frá UDN. 6
skoðuð, knattspyrnu- og frjálsíþróttaaðstaðan, aðstaðan fyrir hestaíþróttir og golfvöllurinn. Víða á starfssvæði HSH er öflugt íþróttastarf og kraftur í fólkinu sem leiðir starf aðildarfélaganna. Föruneytið átti góðan og gagnlegan fund með fulltrúum UDN og sveitarfélagsins í Stjórnsýsluhúsi Dalabyggðar, ásamt því að skoða mannvirkin í Búðardal og á Laugum í Sælingsdal. Heiðrún Sandra Grettisdóttir formaður UDN, Jóhanna Árnadóttir úr stjórn UDN og Svana Hrönn Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri UDN fylgdu hópnum í skoðunarferð þar sem kíkt var í Dalabúð, á knattspyrnu- og frjálsíþróttavöll, sparkvöll, strandblaksvöll og reiðsvæði. Heiðrún Sandra fylgdi svo hópnum yfir í Laugar í Sælingsdal en þar er bæði íþróttahús og sundlaug. Laugar í Sælingsdal eru nú í söluferli og óvíst um áframhaldandi nýtingu íþróttamannvirkjanna þar í þágu sveitarfélagsins. Á starfssvæði HSS er ýmislegt áhugavert að skoða. Hópurinn hitti fulltrúa HSS í golfskála Golfklúbbs Hólmavíkur þar sem farið var yfir starfsemi klúbbsins og uppbyggingu svæðisins. Síðan var ekið að skíðasvæði Skíðafélags Strandamanna þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað undanfarin ár. Þar er risinn skíðaskáli fyrir starfsemi félagsins sem gjörbreytir aðstöðu gönguskíðaiðkenda á svæðinu. Á Hólmavík var íþróttamiðstöðin heimsótt en þar er íþróttasalur, aðstaða til líkamsræktar og sundlaug. Að lokum var fundað með fulltrúum sambandsins á Galdrasafninu á Hólmavík. Hópurinn frá ÍSÍ átti góðan tíma í heimsóknum til HSH, UDN OG HSS og þakkar öllum sem komu að heimsóknunum á einn eða annan hátt fyrir góða viðkynningu og veitta aðstoð.
Skíðaskáli Skíðafélags Strandamanna
Föruneyti ÍSÍ með fulltrúum frá HSH. Mannvirkin á starfssvæði HSH voru skoðuð og ljóst að víða er öflugt íþróttastarf.
Fulltrúar HSS og Golfklúbbs Hólmavíkur á Skeljavíkurvelli.
Lárus forseti afhenti Vigni Pálssyni formanni HSS fána ÍSÍ.
Íþróttamiðstöðin á Hólmavík.
Fundað var í Galdrasafninu á Hólmavík. ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS
Sýnum karakter - Allir með Ráðstefnan Sýnum karakter - Allir með fór fram þann 29. september. Ráðstefnan er tileinkuð ungu fólki innan íþróttahreyfingarinnar og voru þátttakendur á aldrinum 13-25 ára. Á meðal þeirra sem fluttu erindi á ráðstefnunni voru Gunnar Gunnarsson, formaður UÍA, Hafrún Kristjánsdóttir, sviðsstjóri í HR, knattspyrnukonan Fjolla Shala, dómarinn Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, Vanda Sigurgeirsdóttir og körfuboltaþjálfarinn Pálmar Ragnarsson. Eitt af markmiðum ráðstefnunnar var að varpa frekara ljósi á ástæður þess að þátttaka barna og ungmenna af erlendum uppruna er minni. Knattspyrnukonan Fjolla Shala, leikmaður í meistaraflokki Breiðabliks í knattspyrnu, hélt frábært erindi sem tengdist þessu. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að alltof fá börn fólks af erlendum uppruna sem flytja hingað til lands stunda íþróttir. Fjolla telur ástæðuna þá að foreldrar barna þekki ekki frístundakortið og haldi að það sé dýrt fyrir börn að stunda íþróttir. Þau hafi mörg ekki mikið á milli handanna og því sé hætt á að börn innflytjenda stundi ekki íþróttir eða flosni snemma úr íþróttum. Ráðstefnan var tekin upp og hægt verður að sjá hana á Vimeo-síðu ÍSÍ innan skamms.
8
UMFÍ í samstarfi við ÍSÍ og KSÍ vinna nú að verkefni sem hefur það markmið að auka þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þátttakan getur verið jákvæð leið til þess að aðlagast íslensku samfélagi og til þess að rjúfa félagslega einangrun fólks. Verkefnið felur í sér að útbúa upplýsingar um íþróttahreyfinguna, bæði á rafrænu og útprentuðu formi, fyrir foreldra barna og ungmenna af erlendum uppruna. Stefnt er að því að efnið verði tilbúið til dreifingar í upphafi árs 2018. Sýnum karakter er samstarfsverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands (UMFÍ). Um ár er síðan ÍSÍ og UMFÍ ýttu verkefninu úr vör. Sýnum karakter fjallar um þjálfun sálrænnar og félagslegrar færni barna og ungmenna í íþróttum. Hugmyndafræði verkefnisins byggir á að hægt sé að þjálfa og styrkja sálræna og félagslega færni iðkenda eins og líkamlega færni. Vefsíða Sýnum karakter er synumkarakter.is og verkefnið er einnig með facebook-síðu undir nafninu Sýnum karakter. Myndir frá ráðstefnunni má sjá á myndasíðu ÍSÍ.
Fjolla Shala knattspyrnukona.
Dr. Hafrún Kristjánsdóttir.
Vilhjálmur Alvar dómari.
Ragga hjá UMFÍ og Kristín hjá ÍSÍ skráðu fólk inn.
Fyrirlesarar á ráðstefnunni.
ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS
Íþróttavika Evrópu Íþróttavika Evrópu (European Week of Sports) stóð frá 23.-30. september en hún er haldin hátíðleg víðsvegar um álfuna. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hlaut styrk frá Evrópusambandinu í gegnum Erasmus+ styrkjakerfið til verkefna sem tengdust vikunni. Vefsíða Íþróttaviku Evrópu er beactive.is og facebook-síðan er BeActive Iceland. Markmið íþróttavikunnar er að kynna íþróttir og hreyfingu fyrir almenningi í Evrópu og er hún ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Sérstök áhersla er lögð á að höfða til grasrótarinnar og að hvetja Evrópubúa til að sameinast undir slagorðinu #BeActive með það að markmiði að fá sem flesta til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi. Þetta var í annað sinn sem Íþróttavikan er haldin hér á landi en það var fyrst gert árið 2015. Íþróttavikan var formlega ræst með Hjartadagshlaupinu þann 23. september en hlaupið
10
var frá Kópavogsvelli. Ekkert þátttökugjald var í hlaupið, en velja mátti á milli 5 km og 10 km. Hlaupið er haldið í tilefni af hinum alþjóðlega hjartadegi sem haldinn er á heimsvísu þann 29. september ár hvert. Í kjölfarið af Hjartadagshlaupinu fylgdu fleiri áhugaverðir íþróttaviðburðir fyrir almenning í vikunni svo sem sund á Sauðárkróki, taekwondo á Suðurnesjum, opin keiluæfing fyrir börn og opin bandýæfing. Síðasti viðburðurinn á dagskrá Íþróttaviku Evrópu var hjólaferð um Öskjuhlíð og Fossvogsdal þann 30. september í boði Hjólreiðafélags Reykjavíkur. Hægt var að velja um tvær hjólaleiðir. Félagar úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur fóru yfir helstu atriði sem þarf að hafa í huga við hjólreiðar áður en lagt var af stað. Íþrótta- og Ólympíusamband Ísland hvetur landsmenn til að finna sér hreyfingu við sitt hæfi allt árið um kring. Verum virk saman #BeActive.
Felix - Skil á starfsskýrslum ÍSÍ minnir þau félög sem eiga eftir að ganga frá sínum málum í Felix varðandi skil á ársreikningum og félagatali að gera það sem fyrst.
Búið er að skila inn 90% af ársreikningum og félagatali, en betur má ef duga skal.
Lífshlaupið - Allt árið Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni ÍSÍ sem höfðar til allra aldurshópa. Í Lífshlaupinu eru landsmenn allir hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er, þ.e. í frítíma, í vinnu, í skóla og við val á ferðamáta. Í ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu er börnum og unglingum ráðlagt að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og fullorðnum í minnst 30 mínútur á dag.
Í einstaklingskeppninni geta allir tekið þátt og skráð niður sína daglegu hreyfingu allt árið. Vefsíða Lífshlaupsins er lifshlaupid.is. ÍSÍ hvetur alla til að skrá sig og taka þátt í þessu frábæra verkefni sem Lífhlaupið er og bendir um leið á að nú er hægt að lesa inn hreyfingu úr snjallforritunum Strava og Runkeeper.
Hjólum í skólann 2017 ÍSÍ stendur fyrir hvatningarverkefninu Hjólum í skólann 2017 þar sem framhaldsskólanemendur og starfsfólk framhaldsskólanna er hvatt til að nota virkan ferðamáta til að ferðast til og frá skóla. Virkur ferðamáti felst í því að nýta sitt eigið afl til að ferðast með því að ganga, hjóla, nota hjólabretti eða línuskauta en einnig má nýta sér strætó til samgangna. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Vefsíða Hjólum í skólann er hjolumiskolann.is Facebook-síðan er Hjólum í skólann. Fyrirkomulagið er þannig að skólar skrá sig inn á vefsíðu Hjólum í skólann með stuttri lýsingu á aðstöðu hjólafólks í skólanum og hvað skólinn ætlar að gera til að hvetja nemendur og starfsfólk til að nýta sér virkan ferðamáta til og frá skólanum. Opið var fyrir skráningu á framhaldsskólum í september og voru kennarar og skólastjórnendur hvattir til að skrá sinn skóla
ásamt því að hafa ávallt viðunandi hjólaaðstöðu fyrir hjólreiðafólk. Sjö framhaldsskólar skráðu sig, það eru skólarnir Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Tækniskólinn, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Menntaskólinn á Ísafirði, Verkmenntaskóli Austurlands, Menntaskólinn í Kópavogi og Fjölbrautaskólinn í Breiðholti. Í FÁ er boðið upp á áfanga í íþróttum sem heitir Hjólað/ gengið í skólann og í FV er markmiðið að bæta hjólaaðstöðu við skólann með því að bæta við hjólagrindum og benda nemendum og starfsfólki á skemmtilegar hjóla- og gönguleiðir í grennd við skólann. Einnig efndi nemendafélagið til þátttökusamkeppni meðal nemenda. VA var með bíllausan dag þann 15. september og MK er með þá stefnu að stuðla að heilbrigðum lífsstíl bæði hjá nemendum og starfsfólki. MK vekur athygli á þeim leiðum sem auðvelda og bæta lífskjör, eru dugleg að hvetja alla til að taka þátt í verkefninu með auglýsingum á skjá í skólanum ásamt því að virkja samfélagsmiðla nemendafélags og skólans. Verkefninu Hjólum í skólann lauk þann 4. október. ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS
Fulltrúar þeirra samtaka sem standa að Forvarnardeginum ásamt nemendum.
Forvarnardagur Forseta Íslands Forvarnardagur forseta Íslands var haldinn þann 4. október sl. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu. Rannsóknir sýna að samvera fjölskyldu, þátttaka í æskulýðsstarfi og frestun á að hefja neyslu áfengis er besta forvörnin gegn vímuefnanotkun. Niðurstöðurnar byggja á rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík sem hafa um árabil rannsakað áhættuhegðun ungmenna og hafa þær vakið alþjóðlega eftirtekt. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, heimsótti tvo skóla í tilefni dagsins, Hólabrekkuskóla í Breiðholti og Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, fylgdi forsetanum í skólana ásamt föruneyti frá ÍSÍ. Forsetinn heimsótti kennslustofur í ýmsum greinum og svaraði fjölmörgum fyrirspurnum nemenda um margvísleg málefni. Það má með sanni segja að forsetinn hafi náð vel til nemenda, en hann deildi sinni eigin reynslu og lífsviðhorfum með þeim. ÍSÍ hefur verið samstarfsaðili Forvarnardagsins frá upphafi verkefnisins og er stolt af því að styðja við þetta öfluga forvarnarverkefni. Vefsíða Forvarnardagsins er forvarnardagur.is Myndir frá Forvarnardeginum má sjá á myndasíðu ÍSÍ. Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. 12
ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS
Afrekssjóður ÍSÍ Nýverið hefur verið úthlutað í áföngum úr Afrekssjóði ÍSÍ til einstakra sérsambanda. Undirritun við Körfuknattleikssamband Íslands (KKÍ) fór fram í Helsinki í september. Þetta var fyrsta úthlutun úr sjóðnum eftir að ný Reglugerð um Afrekssjóð ÍSÍ var samþykkt af framkvæmdastjórn ÍSÍ 11. maí sl. Í október hafa nú þegar sautján sérsambönd ÍSÍ hlotið viðbótarstyrk úr Afrekssjóði ÍSÍ vegna verkefna ársins 2017. Það eru Skíðasamband Íslands (SKÍ), Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ), Handknattleikssamband Íslands (HSÍ), Blaksamband Íslands (BLÍ), Júdósamband Íslands (JSÍ), Þríþrautarsamband Íslands (ÞRÍ),
Keilusamband Íslands (KLÍ), Siglingasamband Íslands (SÍL), Karatesamband Íslands (KAÍ), Tennissamband Íslands (TSÍ), Skotíþróttasamband Íslands (STÍ), Kraftlyftingasamband Íslands (KRA), Dansíþróttasamband Íslands (DSÍ), Badmintonsamband Íslands (BSÍ), Taekwondosamband Íslands (TKÍ), Lyftingasamband Íslands (LSÍ) og Íþróttasamband fatlaðra (ÍF). Nánar má lesa um styrkveitingarnar á vefsíðu ÍSÍ. Ljóst er að viðbótarstyrkur Afrekssjóðs ÍSÍ hefur mikla þýðingu gagnvart því afreksíþróttastarfi sem á sér stað í íslenskum sérsamböndum í dag. Það er von ÍSÍ að styrkirnir muni koma sér vel í afreksstarfi þessarra sambanda.
Við undirritunina við KKÍ í Helsinki. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Guðbjörg Norðfjörð varaformaður KKÍ, Hannes S. Jónsson formaður KKÍ, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Lilja Sigurðardóttir formaður Afrekssjóðs ÍSÍ, Krisján Þór Júlíusson menntaog menningarmálaráðherra og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ.
14
Handknattleikssamband Íslands.
Skíðasamband Íslands.
Frjálsíþróttasamband Íslands.
Þríþrautarsamband Íslands.
Blaksamband Íslands.
Tennissamband Íslands.
Kraftlyftingasamband Íslands.
Siglingasamband Íslands.
Keilusamband Íslands.
Júdósamband Íslands.
Karatesamband Íslands.
Skotíþróttasamband Íslands.
Íþróttasamband fatlaðra. ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS
Flokkun sérsambanda í afreksflokka Á fundi framkvæmdastjórnar ÍSÍ þann 31. ágúst, var tillaga Afrekssjóðs ÍSÍ um flokkun sérsambanda í afreksflokka samþykkt samhljóða. Í reglugerð Afrekssjóðs ÍSÍ, 13. grein, er fjallað um að Afrekssjóður ÍSÍ skuli árlega flokka sérsambönd ÍSÍ í afreksflokka út frá skilgreindum viðmiðum. Afreks- og Ólympíusvið ÍSÍ hefur á síðustu vikum og mánuðum kallað eftir skilgreiningum og upplýsingum frá sérsamböndum ÍSÍ um fjölmörg atriði er tengjast afreksíþróttastarfi viðkomandi sérsambands, s.s. árangri í mótum, skipulagi afreksstarfsins og helstu áhersluatriðum. Þessi vinna Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ liggur til grundvallar tillögum Afrekssjóðs ÍSÍ til framkvæmdastjórnar ÍSÍ um flokkun sérsambanda í afreksflokka. Í A-flokki eru sérsambönd sem taka reglulega þátt í keppni í hæsta stigi í viðkomandi íþróttagrein með frábærum árangri á síðustu fjórum árum. Gerðar eru kröfur um umfangsmikið afreksíþróttastarf í sérsambandinu og þurfa samböndin að uppfylla fjölmörg atriði sbr. grein 13.1. í reglugerð sjóðsins. Í B-flokki eru sérsambönd þar sem afreksstarfið felur í sér reglulega alþjóðlega þátttöku á heimsvísu í viðkomandi íþróttagrein, þar sem einstaklingar eru að keppa um stig á heimslista og reyna að vinna sér þátttökurétt á Heimsmeistaraog Evrópumótum og/eða Ólympíuleikum/ Paralympics. Gerðar eru kröfur um ákveðna
16
umgjörð hjá sérsambandinu sbr. grein 13.2 í reglugerð sjóðsins. Í C-flokki er um að ræða sérsambönd sem ekki komast í flokk A eða B en taka þó þátt í alþjóðlegu landsliðsstarfi. Eru það sérsambönd sem taka þátt í Heimsmeistaramótum, Evrópumótum eða Norðurlandamótum og nýta þá kvóta sem þeir hafa vegna þessara móta, eða eru að keppa í forkeppnum eða neðstu stigum viðkomandi greina. Minni kröfur eru gerðar til umfangs og umgjarðar afreksstarfs hjá þessum sérsamböndum sbr. grein 13.3 í reglugerð sjóðsins. Dálkurinn „Án flokkunar” inniheldur þau sérsambönd sem ekki hafa skilað inn upplýsingum um afreksstarf og skilgreiningar til ÍSÍ. Hafa ber í huga að flokkun sérsambanda í afreksflokka er símat og getur tekið breytingum eftir aðstæðum og stöðu sérsambanda hverju sinni. Ráðgert er að skipting á því framlagi sem úthlutað verður úr Afrekssjóði ÍSÍ árið 2017 verði þannig að 70% framlagsins fari til sérsambanda í A-flokki, 27% til sambanda í B-flokki og 3% til sambanda í C-flokki. Skiptinguna má sjá í töflunni hér fyrir neðan.
Norræn ráðstefna um íþróttir barna og unglinga Um miðjan september sl. fór fram norræn ráðstefna um íþróttir barna og unglinga í Snekkersten í Danmörku, en ráðstefnuna sóttu fulltrúar frá íþróttasamböndum Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs, Finnlands, Álandseyja og Íslands. Ráðstefnan er haldin þriðja hvert ár til skiptis á Norðurlöndunum. Fulltrúar frá átta ólíkum íþróttagreinum sóttu ráðstefnuna en íþróttagreinarnar voru, badminton, borðtennis, bandý, klifur, körfubolti, sund, frjálsar og amerískur fótbolti. Íslenski hópurinn átti fulltrúa í öllum íþróttagreinum nema amerískum fótbolta
og samtals 18 manns. Fyrirkomulag ráðstefnunnar var bæði í fyrirlestrum og umræðuhópum jafnt innan íþróttagreinanna og þvert á þær. Viðar Halldórsson var einn af fyrirlesurum ráðstefnunnar og kynnti hann meðal annars verkefnið Sýnum karakter sem vakti mikla athygli. Ráðstefna sem þessi eykur ekki aðeins þekkingu þátttakenda á ólíkum þáttum íþrótta heldur hjálpar það greinunum að mynda tengsl við sérsamböndin á hinum Norðurlöndunum.
Fulltrúar frá Íslandi sem sóttu ráðstefnuna. ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS
Norræna skólahlaupið 2017 Norræna skólahlaupið var sett í Giljaskóla á Akureyri þann 8. september sl. Norræna skólahlaupið er árlegt verkefni sem grunnskólum á Norðurlöndunum býðst að taka þátt í. Hlaupið var fyrst haldið árið 1984 og var haldið í 34. skipti í ár. ÍSÍ sér um framkvæmd verkefnisins á Íslandi. Hlaupið var vel skipulagt af Giljaskóla og tóku yfir 400 nemendur og starfsmenn þátt. Ragnhildur Skúladóttir sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ afhenti skólastjóra Giljaskóla, Jóni Baldvini Hannessyni, nokkra bolta að gjöf við setningu. Sandra María Jessen landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Þórs/KA spjallaði við krakkana á sal, en hún var nemandi Giljaskóla í tíu ár. Hún talaði um mikilvægi hreyfingar og þess að hreyfa sig á einhvern hátt, sama hvort um væri að ræða skipulagða íþróttaiðkun eða göngutúr með vinum. Blossi, lukkudýr Smáþjóðaleikanna 2015, var á staðnum og hvatti krakkana áfram í hlaupinu. Mjólkursamsalan, sem hefur styrkt hlaupið frá upphafi, gaf krökkunum ískalda mjólk í lok hlaupsins. Markmiðið með Norræna skólahlaupinu er að hvetja nemendur til að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Á síðasta ári tóku rúmlega 15.000 grunnskólanemendur frá um 63 skólum á Íslandi þátt í hlaupinu og hlupu til samans um 40 hringi í kringum landið, en hægt er að velja um þrjár vegalengdir 2,5, 5 og 10 km.
18
Árið 2015 tengdist verkefnið í fyrsta sinn Íþróttaviku Evrópu, sem er verkefni á vegum Evrópuráðsins. Af því tilefni var bryddað upp á þeirri nýjung að draga út þrjá skóla sem tóku þátt í Norræna skólahlaupinu og luku hlaupinu fyrir lok september. Sá hátturinn var einnig á árið 2016. Í ár voru það Klébergsskóli í Reykjavík, Sunnulækjarskóli á Selfossi og Húnavallaskóli í Austur-Húnavatnssýslu sem hlutu vinninginn en þess má geta að Húnavallaskóli var einnig dreginn úr pottinum árið 2016. Þessir þrír skólar fá 100.000 króna inneign í Altis. Altis selur vörur til íþróttaiðkunar sem nýtast nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu. Verkefnið nýtur stuðnings ÍSÍ, Mjólkursamsölunnar og Evrópuráðsins, og er í samvinnu við Íþrótta- og heilsufræðifélag Íslands. Nánari upplýsingar má sjá á vefsíðu ÍSÍ. Fleiri myndir frá deginum má sjá á myndasíðu ÍSí.
Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar Fjórtánda Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOF) fór fram í Györ í Ungverjalandi dagana 23.–29. júlí 2017. Hátíðin hefur verið haldin annað hvert ár frá árinu 1991. Sem fyrr er „Fair Play“ eða háttvísi eitt af megin einkunnarorðum hátíðarinnar. Auk keppni er lagt mikið uppúr því að leikarnir séu skemmtilegir og að ungmenni hvaðanæva að úr Evrópu kynnist. Keppnisgreinar á leikunum voru frjálsíþróttir, körfuknattleikur, hjólreiðar, fimleikar, handknattleikur, júdó, sund, tennis og blak. Einnig var keppt á kajak. Aldrei hafa þátttakendur verið fleiri en þátttakendur komu frá öllum 50 Ólympíunefndum Evrópu og voru um 3.600 talsins. Íslenski hópurinn var óvenju fjölmennur með alls 34 keppendur og 15 í fararstjórn. Setningarhátíð leikanna fór fram á ETO vellinum 23. júlí. Fánaberi íslenska hópsins var Eiríkur Guðni Þórarinsson fyrirliði handknattleiksliðs drengja. Lokahátíð leikanna var haldin við leikaþorpið þann 29. júlí. Bestum árangri íslensku þátttakendanna á leikunum náði Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir í frjálsum íþróttum. Guðbjörg Jóna komst í úrslit í 100 og 200 metra hlaupi, í báðum greinum bætti hún sinn besta árangur og endaði í 5. sæti. Á leikunum gegndi Dominiqua Belányi, landsliðskona í fimleikum, hlutverki ungs sendiherra. Hennar hlutverk var að vera keppendum innan handar með að upplifa og njóta annarrar dagskrár en þeirri sem tengdist æfingum og keppni. Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar var afar vel heppnaður viðburður. Skipulagning og framkvæmd mótshaldara var til fyrirmyndar. Nánari upplýsingar um EYOF má sjá á vefsíðu ÍSÍ hér. Fleiri myndir frá hátíðinni má sjá á myndasíðu ÍSÍ hér. ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS
Þjálfaramenntun ÍSÍ Menntakerfi ÍSÍ fyrir íþróttaþjálfara hefur verið til í fjölda ára og ásókn í námið hefur verið mikil. ÍSÍ heldur utan um þann hluta námsins sem gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar og sérgreinaþátturinn er svo á herðum sérsambanda ÍSÍ. Haustfjarnám 1. og 2. stigs þjálfaramenntunar er nú í gangi. Nemendur eru mjög ánægðir með námið og telja það frábæran kost til að styrkja þekkingu sína og hæfni sem þjálfara á hinum ýmsu aldursstigum. Hér að neðan eru dæmi um ummæli nemenda um námið og skipulag þess: „Fjölbreytt námsefni og skýr markmið varðandi það sem tekið er fyrir í hverri viku. Mjög áhugavert námsefni og fróðlegt.“
„Skipulagið er gott, bæði hvað námið varðar og uppsetningu kennsluvefs. Efnið áhugavert og vel sett fram. Sveigjanleiki með verkefnaskil, sem er gott fyrir vinnandi fjölskyldufólk o.s.frv.“ „Mjög gott og skýrt námsefni og mikill stuðningur leiðbeinanda.“ „Verkefnin voru fjölbreytt, reyndu á mismunandi þætti og létu mann skoða hluti frá mismunandi sjónarhornum.“ Upplýsingar um þjálfaramenntun ÍSÍ má sjá á vefsíðu ÍSÍ. Allar frekari upplýsingar um þjálfaramenntun ÍSÍ eru veittar hjá Viðari Sigurjónssyni á vidar@isi.is eða í síma 514-4000 og 863-1399.
Tókýó 2020 Næstu Sumarólympíuleikar fara fram í Tókýó 24.júlí-9.ágúst 2020. Skipulagsnefnd leikanna vinnur hörðum höndum að því að koma öllu í stand fyrir leikana. Síðastlitið sumar sóttu Andri Stefánsson, sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ fund í Tókýó vegna leikanna og skoðuðu aðstæður. í Tókýó munu 10.616 íþróttamenn keppa í 28 íþróttagreinum, þar af eru 5 nýjar íþróttagreinar á dagskrá.
Undirbúningur fyrir Ólympíuleikana í Tókýó stendur yfir.
Vefsíða leikanna er tokyo2020.jp.
Lyfjaeftirlit ÍSÍ - Bannlisti WADA Á bannlista Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar WADA, sem tók gildi 1. janúar 2017, má sjá hvaða efni og aðferðir eru bannaðar bæði í keppni og utan keppni og hvaða efni eru bönnuð í ákveðnum íþróttagreinum. Bannlisti WADA er uppfærður árlega, en á hverju ári fer hann í gegnum ákveðið ferli sem tekur níu mánuði, þar sem allt sem tengist efnum og aðferðum er skoðað. Listinn er síðan birtur þremur mánuðum áður en hann
20
tekur gildi til þess að íþróttafólk geti kynnt sér listann og gert viðeigandi ráðstafanir. Búið er að birta listann sem tekur gildi 1. janúar 2018. Vefsíða WADA er wada-ama.org. ÍSÍ hvetur alla sem hlut eiga að máli að kynna sér bannlista WADA 2017 á vefsíðu Lyfjaeftirlits ÍSÍ, lyfjaeftirlit.is.
PyeongChang 2018 Næstu Vetrarólympíuleikar fara fram í PyeongChang í Suður- Kóreu 9.-25. febrúar 2018. Verður það í annað sinn sem Suður-Kórea heldur Ólympíuleika, en Sumarólympíuleikarnir 1988 fóru fram í Seoul. Öll mannvirki í PyeongChang eru tilbúin og Suður-Kóreumenn spenntir fyrir því að halda leikana eftir tæpa fimm mánuði. Verðlaunapeningarnir, sem afhentir verða því íþróttafólki sem kemst á verðlaunapall á leikunum, voru kynntir á dögunum á hátíð sem haldin var í Seoul við tilefnið. Hönnun verðlaunapeninganna tekur mið af áferð trjábola, en í Kóreu standa tré fyrir þá vinnu sem farið hefur í að þróa kóreska menningu. Vefsíða leikanna er pyeongchang2018.com.
Hönnuður verðlaunapeninganna, Lee Sukwoo, vandaði vel til verksins, en hann sá um að hvert smáatriði myndi fanga kóreska menningu og hefðir ásamt ólympískum gildum. Þyngd verðlaunapeninganna er mismikil eftir tegund, gull er þyngst 586 grömm og brons er léttast 493 grömm. Samtals hafa 259 sett af verðlaunapeningum verið gerð.
Norrænn fundur í Færeyjum Árlegur fundur íþróttasamtaka og ólympíunefnda á Norðurlöndum fór fram í Færeyjum dagana 8.-10. september. Íþróttasamband Færeyja var gestgjafi fundarins og var skipulag og framkvæmd hans til fyrirmyndar. Dagskrá fundarins var þétt skipuð erindum og umfjöllunum um sameiginleg hagsmunamál samtakanna sem og þær áskoranir sem norræn íþrótta- og ólympíusamtök standa frammi fyrir í dag og í framtíðinni. Fjallað var meðal annars um jafnrétti, skipulag íþróttahreyfingarinnar, hagræðingu úrslita í íþróttum og stöðu lyfjaeftirlits. Á fundinum var samþykkt að skipa vinnuhóp til að skoða möguleikana á því að refsingar vegna hagræðingu úrslita í íþróttum í einu af viðkomandi löndum hafi sama gildi á öllum Norðurlöndunum. Með því væri komið í veg fyrir að t.d. íþróttamenn sem hafa verið dæmdir hér á landi vegna hagræðingar úrslita í íþróttum geti farið með þann dóm á milli landa og haldið áfram sínum ferli eins og ekkert hafi í skorist. Nefnd þessi mun starfa næsta árið og koma með tillögur um skipulag og framkvæmd þessara möguleika á næsta norræna fund sem haldinn verður í Svíþjóð í september 2018.
Dr. Hafrún Kristjánsdóttir sálfræðingur hélt erindi á fundinum um íþróttir og andlega líðan og í framhaldi af hennar innslagi kom dagskrárliður þar sem fjallað var um möguleikana á að gera samnorrænar rannsóknir um mál er varða íþróttahreyfinguna. Samþykkt var að skipa vinnuhóp til að skoða málið betur fram að næsta fundi.
Fundinn sóttu Halla Kjartansdóttir skrifstofustjóri, Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs, Hafrún Kristjánsdóttir sviðsstjóri í HR, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Sigríður Jónsdóttir varaforseti og Hafsteinn Pálsson ritari.
ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS
Ólympíufjölskylda ÍSÍ
Samfélagsmiðlar ÍSÍ Vefsíða
Myndasíða
Vimeo
Issuu
Árið er 1986... Landslið Íslands í badmintoni á leið á HM kvenna- og karlalandsliða. Í hópnum eru Broddi og Árni Þór sem kepptu á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992. Efri röð: Helgi Magnússon landsliðsþjálfari, Broddi Kristjánsson, Þorsteinn Páll Hængsson, Árni Þór Hallgrímsson, Sigfús Ægir Árnason, Guðmundur Adolfsson, Jóhann Kjartansson. Neðri röð Kristín Berglind Kristjánsdóttir, Elísabet Þórðardóttir, Þórdís Edwald og Inga Kjartansdóttir.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands Íþróttamiðstöðin í Laugardal Engjavegur 6 104 Reykjavík Sími: 514 4000 Netfang: isi@isi.is
ÍSÍ fréttir 3. tbl. 2017
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) varð til við sameiningu Íþróttasambands Íslands og Ólympíunefndar Íslands árið 1997. ÍSÍ er landssamband héraðssambanda/íþróttabandalaga og sérsambanda og er einu heildarsamtök íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. ÍSÍ er æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu samkvæmt íþróttalögum. Félagsaðildir í íþróttahreyfingunni eru rúmlega 274 þúsund og fjöldi virkra iðkenda er um 94 þúsund.
Ábyrgðarmaður: Lárus L. Blöndal
Ritstjóri: Ragna Ingólfsdóttir ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS